Húsaleigubætur

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 14:10:00 (4641)

1997-03-19 14:10:00# 121. lþ. 93.1 fundur 375. mál: #A húsaleigubætur# fsp. (til munnl.) frá félmrh., RG
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[14:10]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir að segja megi að svör ráðherrans séu fremur jákvæð, þá tek ég undir það að svörin eru almennar vangaveltur. Ef við skoðum svör ráðherrans, þá skipaði hann nefnd sl. ágúst. Nú er kominn seinni hluti mars og þá óskar ríkisstjórnin eftir því að hans undirlagi að sveitarfélögin taki þetta yfir. Samkomulag er um að kerfið verði óbreytt á þessu ári, árinu 1997, á meðan lögin verða endurskoðuð. Á sama tíma liggur fyrir að nefnd hefur skilað nefndaráliti sem er nokkuð skýrt, sem er mjög jákvætt, þar sem er yfirlit um framkvæmdina. Framkvæmdin hefur tekist vel og ekkert gefur til kynna að það þyrfti að gera breytingar sem slíkar á samstarfinu eða framkvæmdinni að öðru leyti en því að það væri mjög mikilvægt að öll sveitarfélög byðu upp á húsaleigubætur en ekki, eins og raunin varð og niðurstaða varð á sínum tíma, að hafa þetta valkvætt.

Ég hlýt að spyrja: Hvaða gagnaöflun þarf sú nefnd sem ráðherrann skipaði að fara í og hvað er það sem tefur að koma bara með skýrar tillögur hingað? Ég hjó eftir því að ráðherra sagði að vonandi kæmi þetta mál inn á haustþinginu. Ég minni á að við í félmn. höfum farið aftur og aftur í mikla og hraða vinnu á frv. sem hafa verið umdeild og þar af leiðandi erfið í vinnslu vegna þess að það hefur þurft nokkuð langan aðdraganda að því að þau lög sem út úr frv. kæmu tækju gildi. Núna er talað um að það sé nægilegt að þetta mikilvæga mál komi inn á haustþinginu en það liggur fyrir að það á að vera óbreytt kerfi út árið 1997 þannig að álykta má að nýtt kerfi eigi að taka við í ársbyrjun 1998. Ég hlýt, virðulegi forseti, að benda á það, sem hér var rætt undir liðnum athugasemdir um störf þingsins, áður en þessi dagskrárliður hófst, að við höfum allt að fjórum sinnum í viku setið á ströngum fundum í félmn. til að vinna að málum ráðherrans, hinum umdeildu málum vinnumarkaðarins, til þess að þau geti orðið að lögum á miðju sumri á meðan við köllum eftir og bíðum eftir að komast í vinnu við frv. sem hafa mikið gildi fyrir fólkið í landinu.