Tæknifrjóvgun

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 14:17:14 (4645)

1997-03-19 14:17:14# 121. lþ. 93.2 fundur 393. mál: #A tæknifrjóvgun# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[14:17]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Á þskj. 687 ber ég fram fyrirspurn til hæstv. heilbrrh. um framkvæmd laga nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun. Fyrirspurnin er svohljóðandi:

1. Hvaða reglur hefur ráðherra sett um hve lengi má geyma kynfrumur og fósturvísa, sbr. 10. gr. laga nr. 55/1996?

2. Hvaða nánari reglur setti ráðherra fyrir 1. júní 1996 um framkvæmd tæknifrjóvgunar, sbr. 13. og 15. gr. laganna?

3. Hverjir eiga sæti í vísindasiðanefnd sem fjalla skal um rannsóknir á fósturvísum, hvenær var nefndin skipuð og hvernig hljóðar erindisbréf hennar?

Fyrirspurnin skýrir sig sjálf. Það er nokkuð um liðið síðan sett voru lög um tæknifrjóvgun. Það verður ár frá því 29. maí nk. Þetta mál var mikið rætt í þinginu og með fyrirspurninni er verið að grennslast fyrir um hvernig staðið sé að framkvæmd laganna af hálfu framkvæmdarvaldsins.

Varðandi þann eindaga sem nefndur er í sambandi við 2. tölul. fyrirspurnarinnar, um nánari reglur um framkvæmd tæknifrjóvgunar, þá er gert ráð fyrir því í lögunum og stendur þar skýrum stöfum að þau skuli öðlast gildi 1. júní 1996 og skuli á sama tíma liggja fyrir reglur samkvæmt 13. gr., um framkvæmd tæknifrjóvgunar, sem ráðherra setur. Og því miða ég við það í fyrirspurninni að ganga eftir þessu atriði.

Hér er, virðulegur forseti, um að ræða viðkvæm mál en einnig er mjög mikilvæg hvernig á er haldið. Sjónir manna víða um heim hafa í auknum mæli beinst að rannsóknum af þeim toga sem hér er að vikið í sambandi við erfðaefni manna og í sambandi við meðferð á fóstrum, fósturvísum og annað af þeim toga. Mönnum ætti að vera orðið það ljóst að nauðsynlegt er að ganga hér fram af ýtrustu aðgæslu í sambandi við þessi efni og hafa í heiðri ákveðin siðfræðileg gildi. Því er það gott að sérstök vísindasiðanefnd á að fjalla um ákveðna þætti laganna og brýnt að mínu mati raunar að draga mun skýrari mörk en fyrir hafa legið almennt séð og binda þau í alþjóðasamþykktir helst, í sambandi við meðferð þessara þýðingarmiklu mála.