Tæknifrjóvgun

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 14:20:26 (4646)

1997-03-19 14:20:26# 121. lþ. 93.2 fundur 393. mál: #A tæknifrjóvgun# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[14:20]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson spyr um hvaða reglur ráðherra hafi sett samkvæmt lögum um tæknifrjóvgun. Rétt er að fara stuttlega yfir framgang málsins til útskýringar.

Lög um tæknifrjóvgun, nr. 55/1996, voru samþykkt á Alþingi hinn 29. maí sl. en frv. var samið af nefnd sem dómsmrh. skipaði samkvæmt ályktun Alþingis árið 1986. Dómsmrh. lagði frv. fyrir Alþingi og undirritaði lögin ásamt forseta Íslands. Í samræmi við það skipaði dómsmrh. nefnd til að fylgjast með framkvæmd laganna og vinna að endurskoðun þeirra. Í október sl. skrifaði dómsmrh. forsrh. bréf þar sem hann óskaði eftir því að forsrn. ákvæði að framkvæmd laga um tæknifrjóvgun skyldi vera hjá heilbr.- og trmrn. Með bréfi dags. 24. janúar sl. tilkynnti forsrh. heilbr.- og trmrn. þá niðurstöðu sína að heilbr.- og trmrn. bæri að hafa eftirlit með framkvæmd laganna og er ráðuneytið algjörlega sammála þeirri niðurstöðu.

Fyrirspyrjandi spyr í fyrsta lagi hvaða reglur ráðherra hafi sett um hve lengi má geyma kynfrumur og fósturvísa, sbr. 10. gr. laganna, og í öðru lagi hvaða nánari reglur ráðherra hafi sett fyrir 1. júní 1996 um framkvæmd tæknifrjóvgunar, sbr. 13. og 15. gr. laganna. Þar sem ekki var ákveðið fyrr en 24. janúar 1997 að heilbr.- og trmrn. bæri að sjá um framkvæmd laganna er ljóst að heilbrrh. gat ekki uppfyllt það skilyrði laganna að setja reglur fyrir 1. júní 1996.

Ég bendi á að hér er um að ræða reglur um ýmis atriði sem eru mjög vandmeðfarin og viðkvæm og því afar mikilvægt að þær séu vel undirbúnar. Það er því ljóst að það tekur lengri tíma en þær sex vikur sem heilbrrn. hefur haft til að ganga frá reglunum. Heilbr.- og trmrn. hefur því ekki enn sett reglur, skv. 13. og 15. gr. laganna né reglur um hve lengi geyma má kynfrumur og fósturvísa, sbr. 10. gr. laganna, enda er gert ráð fyrir að það verði gert í einu lagi.

Loks spyr hv. þm. hverjir eigi sæti í vísindasiðanefnd sem fjalla skal um rannsóknir á fósturvísum, hvenær nefndin var skipuð og hvernig erindisbréf hennar hljóði. Eins og fram kemur í d-lið 13. gr. laganna á m.a. að fjalla um vísindarannsóknir á fósturvísum, og það er vísindasiðanefnd sem fjallar um slíkar rannsóknir, í reglum þeim sem ráðherra ber að setja. Því er ljóst að ekki er hægt að skipa nefndina fyrr en gengið hefur verið frá reglum sem að hluta til munu marka verksvið hennar.

Virðulegi forseti. Ég tel nauðsynlegt að fram komi að við setningu þeirrar reglugerðar, sem spurt er um og eru í undirbúningi í heilbrrn., er mikilvægt að vel verði vandað til vegna þess hve viðkvæmt og mikilvægt svið er um að ræða. Það er einnig mikilvægt að hraða þessari vinnu og gert er ráð fyrir að hægt verði að setja reglur samkvæmt lögum um tæknifrjóvgun fyrir miðjan apríl og skipa nefndina í beinu framhaldi af því. En eins og fram kom fyrr í svari mínu hefur heilbrrn. aðeins haft sex vikur til þessarar vinnu.