Hættumat vegna virkjanaframkvæmda

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 14:30:21 (4651)

1997-03-19 14:30:21# 121. lþ. 93.3 fundur 419. mál: #A hættumat vegna virkjanaframkvæmda# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[14:30]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Í tveimur greinum sem birtust í Morgunblaðinu, önnur 12. janúar og hin 20. febrúar og skrifaðar eru af Guðmundi Páli Ólafssyni náttúrufræðingi, er vakin athygli okkar á því eða þeirri spurningu varpað fram reyndar hvort áhættumat hafi verið unnið á Hágöngulóni og reyndar öðrum miðlunarlónum eða uppistöðulónum sem til eru. Í fyrri greininni sem heitir: Grát fóstra mín. Skylda okkar felst ekki í því að virkja fallvötn og byggja, segir, með leyfi forseta:

,,Víkjum enn að öðru. Hvernig hljómar áhættumat Landsvirkjunar á Hágöngulóni? Áhættumat fyrir sveitir Suðurlands; fyrir blómlegar byggðir; fyrir ferðalanga á fjöllum --- fyrir blessað fólk í sveitum og bæjum Suðurlands --- ef stíflan brestur, ef stíflurnar bresta vegna eldsumbrota í næsta nágrenni, flóða frá gosstöðvum eða jarðskjálfta? Skilst það að hættuspilið snýst líka um fólk?``

Í grein eftir sama einstakling, Guðmund Pál Ólafsson náttúrufræðing, sem birtist í Morgunblaðinu 20. febrúar sl. segir, með leyfi forseta:

,,Miðlunarlón eru hættuleg. Í greininni, ,,Grát fóstra mín``, óskaði ég eftir því að hættumat Landsvirkjunar á Hágöngulóni og öðrum miðlunarlónum hennar yrði opinberað. Fátt varð um svör. Kannski eru það álitnir almannahagsmunir að almenningur viti ekki um háskann. Í landi jarðelda og jarðhræringa er hættan fyrir hendi þar sem uppistöðulón og stíflur eru --- norðan- og austanlands líka. Nú er það svo að ég er sannfærður um að þessar niðurstöður eru til. Annað væri næsta glæpsamlegt kæruleysi. Landsvirkjun, umhverfisráðuneyti eða stífluglaðir þingmenn verða að svara þjóðinni þessari spurningu og veita henni fullnægjandi svör. Hefur Landsvirkjun kannski láðst að upplýsa umhverfisráðherra og ríkisstjórn, þingmenn og Almannavarnir ríkisins um þá vá sem stíflurnar skapa og hvað gerist ef þær bresta?``

Í framhaldi af þessum greinum þar sem nánast er fullyrt að hættumat sé til, það hafi verið unnið þó það hafi hvergi birst og í ljósi þeirrar hættu sem er að sjálfsögðu til staðar þegar gengið er frá uppistöðulóni á virku umbrotasvæði eins og þar sem Hágöngulónið verður --- það er virkt eins og við þekkjum núna bara fyrir stuttu síðan þegar eldgos varð á því svæði --- þá beini ég eftirfarandi spurningum til hæstv. ráðherra:

Hefur ráðuneytið, Landsvirkjun eða aðrir aðilar látið meta hugsanlegar afleiðingar þess að stíflumannvirki við uppistöðulón bresta? Ef svo er, hverjar eru niðurstöðurnar? Ef svo er ekki, mun ráðherra beita sér fyrir því að slíkt mat verði framkvæmt? Hefur ráðuneytið upplýsingar um afleiðingar slíkra atburða í öðrum löndum?

Er hættumat framkvæmt sem hluti af undirbúningsrannsóknum vegna virkjanaframkvæmda?