Hættumat vegna virkjanaframkvæmda

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 14:33:51 (4652)

1997-03-19 14:33:51# 121. lþ. 93.3 fundur 419. mál: #A hættumat vegna virkjanaframkvæmda# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[14:33]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Hv. þm. spyr á þskj. 721 um hættumat vegna virkjanaframkvæmda.

Í fyrsta lagi er spurt: ,,Hefur ráðuneytið, Landsvirkjun eða aðrir aðilar látið meta hugsanlegar afleiðingar þess að stíflumannvirki við uppistöðulón bresta?``

Ráðuneytið hefur ekki látið meta hugsanlegar afleiðingar þess ef stíflumannvirki brystu. Landsvirkjun hefur hins vegar látið reikna út flóðbylgjur af völdum hugsanlegs stíflurofs á Þjórsársvæðinu og við Blöndu. Á Þjórsársvæðinu mundi skyndilegt stíflurof í Þórisósstíflu eða í Sigöldustíflu valda mestri hættu. Í fyrra tilvikinu bærist flóðbylgjan um Köldukvísl og í Tungnaá, í Sultartangalón. Þar mundi svokallað flóðvar í stíflunni bresta þegar það færi niður hafið að Búrfelli. Einnig mundi flæða til vesturs niður í Þjórsárdal og í Fossá. Flóðvar í stíflu við Þjórsá ofan Búrfells mundi rofna. Ekki er talin hætta á að flóðið mundi ná gólfhæð í Búrfellsstöð eða í öðrum mannvirkjum þar í grennd. Nákvæmir útreikningar á útbreiðslu flóðsins á láglendinu sunnan Búrfells og vestan hafa ekki verið gerðir þar sem skortir á nákvæm kort.

Ef Sigöldustífla brysti skyndilega félli flóðbylgja um Tungnaá í Hrauneyjalón og flóðvar í Hrauneyjafossstíflu mundi rofna. Þaðan mundi flóðbylgjan berast niður farveg Tungnaár og í Sultartangalón og hafa svipuð áhrif og áður er lýst vegna Þórisósstíflu.

Við hönnun Blöndustíflu var kannað hvað mundi gerast við skyndileg stíflurof og var í framhaldi af því tekin sú ákvörðun að hafa stífluna efnismeiri til að draga úr líkum á brot hennar og lækka flóðtoppa. Vandséð er hvað gæti valdið skyndilegu stíflurofi eins og hér hefur verið lýst.

Einnig hafa Rafmagnsveitur ríkisins látið gera úttekt á öryggi stíflna í Gönguskarðsá við Sauðárkrók og Skeiðfossvirkjunar í Fljótum. Niðurstöður þeirra athugana leiddu í ljós að engin hætta væri á ferðum. Af öðrum stíflum í eigu Rafmagnsveitnanna er ekki talin ógn gagnvart byggð.

Rafmagnsveita Reykjavíkur hefur ekki látið framkvæma slíkt hættumat vegna stíflu í Elliðaám en áform eru um að slíkt mat verði framkvæmt á næstunni. Í nútímastíflum er margs konar tækjabúnaður til að fylgjast með vatnsþrýstingi og hreyfingum og fleiru. Aukin þekking og tækjabúnaður í stíflum gerir kleift að bregðast skjótt við ef óeðlilegar aðstæður skapast.

Í öðru lagi spyr hv. þm.: ,,Er hættumat framkvæmt sem hluti af undirbúningsrannsóknum vegna virkjanaframkvæmda?`` Við hönnun virkjana og miðlana er ávallt gerð úttekt á helstu áhættuþáttum eins og flóðum, jarðskjálftum og afleiðingum eldsumbrota. Við mat á umhverfisáhrifum er ávallt gert hættumat, bæði á þeirri hættu sem mannvirki kann að valda og því sem mannvirkinu kann að stafa hætta af. Þá hefur vöktun á þeirri vá sem ógnar öryggi mannvirkja tekið miklum framförum. Þannig gera betri grunnkort og tölvutækni mönnum æ betur kleift að reikna út flóðbylgjur og áhrif þeirra. Hættumat hefur verið framkvæmt við Sultartangastíflu. Niðurstaða þess mats bendir til þess að ekki séu líkur á að stíflubrot verði t.d. af völdum Suðurlandsskjálfta. Við hönnun stíflumannvirkja Hágöngumiðlunar var miðað við mesta flóð sem líklegt er að geti orðið á þúsund árum, samfara stærsta þekkta jökulhlaupi Köldukvíslar í hálfan sólarhring.