Endurskoðun laga um tæknifrjóvgun

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 15:12:48 (4668)

1997-03-19 15:12:48# 121. lþ. 93.5 fundur 394. mál: #A endurskoðun laga um tæknifrjóvgun# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[15:12]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans við fyrirspurn minni. Fram kemur að nefndin var skipuð 22. okt. 1996, nokkrum mánuðum eftir samþykkt laganna sýnist mér, sem er kannski nokkuð bagalegur dráttur miðað við það að nefndinni er ætlað að ljúka störfum á tveggja ára tíma lögum samkvæmt, en ég vona að þessi seinkun á skipun nefndarinnar verði þó ekki til þess að farið verði fram yfir þau settu mörk varðandi skil á áliti um þetta efni auk þess mikilvæga hlutverks sem nefndinni er falið þ.e. að fylgjast með framkvæmd laganna sem skiptir að sjálfsögðu einnig verulegu máli. Ég geri enga athugasemd við nefndarskipunina. Ég sé að þar er m.a. fyrir því séð að fulltrúi sem gæta skal siðfræðisjónarmiða og skilaði m.a. inn álitsgerðum til þingsins fyrir hönd Siðfræðistofnunar eða sem hluti af þeim sem skiluðu þar inn áliti, Vilhjálmur Árnason dósent, á sæti í nefndinni og það tel ég góðra gjalda vert að hinum nefndarmönnunum að sjálfsögðu ólöstuðum sem kynnt var að ættu sæti í nefndinni.

Ég vænti þess að sú nefnd vinni gott og árangursríkt starf. Þau sjónarmið sem þarna koma til álita eru auðvitað vandasöm og mörg en afar miklu skiptir að menn gæti sín þar og sýni varúð og aðgæslu. Það er rétt sem hér kom fram hjá hv. þm. Hjálmari Jónssyni að Alþingi var framsýnt að lögfesta bann við einræktun manna þannig að við þurfum ekki að bæta úr því hér og nú sem ella hefði verið og það mál ásamt mörgu öðru sem varðar fikt við stafróf lífsins eins og ég hef kallað það, erfðavísa, er þess eðlis að þar þurfa menn að setja og virða ákveðin mörk og það mun vafalaust bera við á Alþingi fljótlega í ýmsu samhengi, m.a. í sambandi við tillögu sem ég flyt hér um lífsiðfræðiráð.