Gerð björgunarsamninga

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 15:28:44 (4672)

1997-03-19 15:28:44# 121. lþ. 93.8 fundur 460. mál: #A gerð björgunarsamninga# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., GHall
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[15:28]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Út af þessu máli vildi ég aðeins koma inn á það að þegar dómur hefur fallið í máli vegna björgunarlauna þá hefur hæsta greiðsla vegna björgunar verið 5% af heildarverðmæti skips og farms. Það hefði þýtt að ef svo hefði gengið varðandi Víkartind, þá erum við að tala um 100 millj. af tveimur milljörðum.

Það sem menn þurfa hins vegar að athuga í þessu ef hugur manna stendur til þess að afnema rétt til björgunarlauna Landhelgisgæslunnar, þá sagði hæstv. forsrh. hér ekki fyrir löngu síðan að við lifðum í alþjóðlegu umhverfi hvað áhrærði skip. Það er dæmi um að eitt skip frá Vestmannaeyjum afþakkaði fyrir nokkrum árum björgun frá varðskipi vegna þess að það var ódýrara að fá fiskiskip til að bjarga þegar skipið strandaði. Þetta er því mjög vafasamt og varhugavert að breyta hér alþjóðasiglingareglum í þessa veru.

Í annan stað vildi ég geta þess að ábyrgð skipstjóra er slík að ef hann með stórfelldu gáleysi sínu veldur því að skip strandar, þá er hann persónulega ábyrgur fyrir þeim skaða sem skip veldur vegna mengunar eða annars tjóns þannig að ég vara mjög við því að menn séu að fara einhverjar aðrar leiðir en þær sem í gildi eru nú.