Gerð björgunarsamninga

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 15:30:13 (4673)

1997-03-19 15:30:13# 121. lþ. 93.8 fundur 460. mál: #A gerð björgunarsamninga# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[15:30]

Einar K. Guðfinnsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins láta það koma hér fram að ég held að sá samningur sem var gerður árið 1987 hafi verið mjög mikilvægur, m.a. fyrir öryggi sjómanna. Ég held að það sé mjög þýðingarmikið allra hluta vegna að við höfum í gildi slíkar samræmdar reglur um björgunar- og aðstoðarlaun því að auðvitað getur komið upp sú staða að skip er í nauðum og varðskip er hvergi nærri og þá mega menn ekki hugsa þannig að þeir séu að bíða eftir varðskipi eða einhverjum ódýrari kosti við að fá björgun og þess vegna skiptir það öllu máli að þessar samræmdu reglur séu til staðar. Mér er vel kunnugt um að fyrir árið 1987 komu upp slík tilvik sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson nefndi áðan, en ég held að eftir að þessi samningur komist á hafi þessi tilvik verið úr sögunni vegna þess að í dag er það þannig að það skiptir ekki máli hvort varðskip eða fiskiskip komi til aðstoðar því björgunarlaunin eru samræmd. Það held ég að skipti mestu máli því að auðvitað er það þannig í langflestum tilvikum þegar skip lenda í vandræðum að það eru fiskiskip eða flutningaskip sem er nærri en tilviljunum háð hvort varðskip sé einhvers staðar á slóðinni og geti komið til aðstoðar sem fyrst og þá auðvitað skiptir tíminn í þessu sambandi gríðarlega miklu máli.