Kjarnavopn á Íslandi

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 15:43:14 (4678)

1997-03-19 15:43:14# 121. lþ. 93.9 fundur 427. mál: #A kjarnavopn á Íslandi# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., SvG
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[15:43]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Í tilefni af þessum síðustu orðum hæstv. ráðherra vil ég spyrja hann hvort hann hafi kynnt sér bók dr. Vals Ingimundarsonar Í eldlínu kalda stríðsins, en þar segir svo á bls. 371, með leyfi forseta:

,,Hinn 21. júní fór bandaríska varnarmálaráðuneytið þess á leit við John Foster Dulles að komið yrði fyrir kjarnorkuvopnum á Íslandi og öðrum löndum í tengslum við loftvarnir og viðvörunarkerfi Bandaríkjahers. Bandaríkjamenn ætluðu að setja hér upp skammdrægar Nike-loftvarnarflaugar með kjarnaoddum. Þessi áform voru í samræmi við þá stefnu Bandaríkjastjórnar að sjá NATO-ríkjunum fyrir kjarnorkuvopnum.``

Dr. Valur Ingimundarson segir enn fremur frá því að þessar umræður um að flytja kjarnorkuvopn til Íslands hafi verið hluti af þeirri umræðu að ná fram sparnaði í hernaðarútgjöldum með því að flytja landherinn frá Íslandi en senda flugherinn hingað í staðinn. Þá tengdist þessi umræða einnig óskum vinstri stjórnarinnar sem þá sat um brottför bandaríska hersins. Gekk þetta svo langt að Bandaríkjastjórn tók beina ákvörðun í þessu efni að því er Valur Ingimundarson segir og segir hann frá ákvörðuninni í bók sinni á þessa leið á bls. 375:

,,Þeir [þ.e. Bandaríkjamenn] ítrekuðu að ákvörðun hefði verið tekin í málinu. Landherinn yrði kvaddur heim.``

Bandaríkjamenn skýrðu hins vegar Íslendingum ekki frá því að til stæði að koma hingað fyrir þessum eldflaugum í stað landhersins eða eins og Valur bendir sérstaklega á í bók sinni`` ...

(Forseti (RA): Ég biðst afsökunar á því að ég hef víst gefið hv. þm. tvær mínútur en hann á ekki rétt á nema einni mínútu og hún er liðin.)

Þingmaðurinn má þá kannski þá ljúka ræðu sinni?

(Forseti (RA): Já, að sjálfsögðu.)

Hér hef ég lesið upp nokkrar tilvitnanir í bók Vals Ingimundarsonar um að Bandaríkjastjórn tók ákvörðun um að koma hér fyrir kjarnorkuvopnum og svo seint sem á árinu 1960 gerði Pentagon ráð fyrir þessu í fjárhagsáætlunum sínum til Bandaríkjastjórnar. Það liggur með öðrum orðum fyrir að Bandaríkjastjórn íhugaði að koma hér fyrir kjarnorkuvopnum og fyrir liggja í þeim efnum alveg óyggjandi heimildir þar sem er þessi bók dr. Vals Ingimundarsonar og ég spyr hæstv. utanrrh.: Hefur hann kynnt sér bókina?