Kjarnavopn á Íslandi

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 15:45:41 (4679)

1997-03-19 15:45:41# 121. lþ. 93.9 fundur 427. mál: #A kjarnavopn á Íslandi# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[15:45]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að taka þetta mál hér upp. Ég held að það sé nauðsynlegt að hafa í huga að hér er aðeins um að ræða eina af fjölmörgum vísbendingum sem komið hafa fram á síðustu árum í þessum efnum, þ.e. vísbendingum í þá átt að hlutleysi ríkja eða opinber stefna hafi verið einskis virt, ýmist í fullkominni andstöðu og á laun gagnvart viðkomandi stjórnvöldum eða þá með yfirhylmingum og lygum fámennrar valdastéttar eins og á við í Danmörku þar sem fáeinir æðstu ráðamenn þjóðarinnar lugu að þjóð sinni áratugum saman um það að ekki væru kjarnorkuvopn á dönsku yfirráðasvæði. Þetta ásamt með ýmsum upplýsingum um til að mynda persónunjósnir á kaldastríðsárunum gera auðvitað fyllilega meira en að rökstyðja að ástæða er til að rannsaka þessi mál. Sá er munurinn hér á Íslandi og t.d. hinum Norðurlöndunum að þar taka menn þessa hluti alvarlega og láta sér ekki nægja einföld svör þeirra hina sömu aðila og logið hafa að þeim um áratuga skeið. Þess vegna ætti auðvitað hér eins og í Noregi, Danmörku og víðar að setja á fót sérstaka rannsóknarnefnd eða þá t.d. að fela utanrmn. með sérstakri samþykkt að fara í ítarlega rannsókn á þessum hlutum.