Kjarnavopn á Íslandi

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 15:51:14 (4682)

1997-03-19 15:51:14# 121. lþ. 93.9 fundur 427. mál: #A kjarnavopn á Íslandi# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[15:51]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég hef lesið bók Vals Ingimundarsonar, las hana reyndar yfir jólin, þannig að mér er fullkunnugt um það sem þar stendur. Það er líka rétt að taka fram að það hefur verið upplýst að á árabilinu frá 1959 til og með fjárlagaársins 1976 hafi verið til áætlun um að efla loftvarnir og/eða senda hingað kjarnadjúpsprengjur til notkunar gegn kafbátum á stríðstímum. Þessum áætlunum var aldrei hrundið í framkvæmd og Bandaríkjaforseti gaf aldrei umboð til að setja niður slík kjarnavopn.

Sem kunnugt er upplýsti fræðimaður að nafni William Arkin þann 5. desember 1984 íslensk stjórnvöld um að skilyrt heimild Bandaríkjaforseta hafi verið til í gögnum frá 1975 um að flytja hingað til lands 48 kjarnadjúpsprengjur á stríðstímum. Síðan lýsti þessi sami sérfræðingur því yfir að staðsetning vopnanna væri háð heimild íslenskra stjórnvalda. Niðurstaðan er því sú af minni hálfu að ítarleg könnun á gögnum í utanrrn. gefi enga vísbendingu um annað en Bandaríkin hafi virt til fullnustu langvarandi stefnu íslenskra stjórnvalda þess efnis að kjarnavopn væru ekki staðsett á Íslandi.