Verkmenntun

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 16:03:06 (4687)

1997-03-19 16:03:06# 121. lþ. 93.10 fundur 428. mál: #A verkmenntun# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[16:03]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Varðandi fyrri liðinn í máli hv. þm. um nýsköpun á grunnskólastigi nemenda þá er það svo að menntmrn. hefur einnig lagt þessum verkefnum lið og tekur þátt í því að styðja við slíka nýsköpunarstarfsemi á grunnskólastigi. Ég tel sjálfur að það sé mjög vænleg leið til að hvetja ungt fólk til að huga að þeim málum sem hér er um að ræða, þ.e. tæknimennt. Ef það hugtak er skilgreint með þeim hætti sem hv. þm. gerði þá er ég fús til að beita mér í því efni að vekja áhuga ungs fólks með nýsköpunarkeppni eða öðrum þeim aðferðum sem best eru til þess fallnar að hvetja til áhuga á þessu sviði. Einnig tel ég að þetta komi til athugunar við gerð námskránna bæði fyrir grunn- og framhaldsskólastigið.

Að því er fyrri liðinn í spurningunni varðar en síðari liðinn í máli hv. þm., um uppeldisfræðina, þá er það rétt að umræður um gildi uppeldisfræðinnar í kennaranámi hafa verið mjög miklar. Sjálfur hef ég leyft mér að segja í umræðum á þessum vetri að ég telji að áherslan á uppeldisfræðina hafi ef til vill verið of mikil í kennaramenntuninni. Síðan hafa einnig komið fram þau sjónarmið að uppeldisfræðikennslan og uppeldisfræðinámið séu ekki skilgreind með nógu skýr markmiði í huga að því er varðar faglegt innihald kennslunnar. Það eru mjög athyglisverðar ábendingar sem koma m.a. úr kennaraháskólanum. Þannig að ég held að þessar umræður sem hafa farið hér fram í vetur og hv. þm. vék að, m.a. á fundi sl. laugardag, séu til gagns um þá stefnu sem við þurfum að móta varðandi kennaranámið og verður vonandi fullmótuð á grundvelli frv. til laga um uppeldisháskóla sem verður kynnt hér á þinginu, vonandi innan skamms tíma.