Úthlutunarreglur dreifbýlisstyrkja

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 16:14:34 (4691)

1997-03-19 16:14:34# 121. lþ. 93.11 fundur 430. mál: #A úthlutunarreglur dreifbýlisstyrkja# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[16:14]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Því miður er það svo að þess finnast dæmi, og allt of mörg, að fjölskyldum í dreifbýli reynist erfitt að kosta skólagöngu unglinganna. Tekjur af meðalstóru búi í sveit eru talsvert miklu lægri en meðaltekjur eru í landinu og námsfólk á framhaldsskólastigi fær yfirleitt ekki uppgripavinnu yfir sumarið annars staðar heldur.

Ég hygg að ekki sé neitt sérstaklega athugavert við úthlutunarreglurnar á dreifbýlisstyrkjunum. Þar er starfað samkvæmt lögum. Heimilt er að styrkja sérstaklega vegna félagslegra aðstæðna, það er í 3. gr. laganna, d-lið ef ég man rétt, sérstakir styrkir sem nefndinni er heimilt að veita efnalitlum nemendum. Þessu ákvæði hefur verið beitt og þeim veittir styrkir. Hins vegar er annað sem er að og það er að styrkupphæðirnar eru allt of lágar. Styrkirnir hafa vissulega farið hækkandi eins og kom fram í svari hæstv. menntmrh. en ég hygg að þeir þyrftu að hækka enn þá meira og heildarfjárhæðin að hækka úr eitthvað 110 millj. kr. í 200 millj. kr., það væri orðin viðunandi jöfnun á aðstæðum fólks í dreifbýli og þéttbýli. Miðað við gagnsemina væri þeim fjármunum vel varið.