Slysabætur sjómanna

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 16:19:06 (4694)

1997-03-19 16:19:06# 121. lþ. 93.12 fundur 434. mál: #A slysabætur sjómanna# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi KHG
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[16:19]

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Fyrir tæpum þremur árum eða nánar tiltekið þann 7. maí 1994 samþykkti Alþingi þál. um endurskoðun slysabóta sjómanna samkvæmt siglingalögunum. Ályktunin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að skipa nefnd til þess að endurskoða ákvæði siglingalaga, nr. 34/1985, um bótarétt sjómanna á íslenskum skipum vegna líf- eða líkamstjóns. Í nefndinni skulu m.a. eiga sæti fulltrúar sjómanna og útgerðarmanna, rannsóknarnefndar sjóslysa, Sambands íslenskra tryggingafélaga og Siglingamálastofnunar.``

Tillagan var flutt á sínum tíma af tveimur hv. þm., þeim Guðmundi Hallvarðssyni og Guðjóni A. Kristjánssyni. Markmið tillögunnar var að auka tryggingavernd sjómanna og hækka bætur til þeirra. Ástæðan er augljós, slys sjómanna eru mun tíðari en í öðrum atvinnugreinum og lætur nærri að þau séu a.m.k. fjórfalt tíðari en gerist í öðrum atvinnugreinum. Kveðið er á um slysabætur og dánarbætur í siglingalögum, 172. gr., og þar kemur fram að dánarbætur eru á verðlagi í dag 1.264.726 kr. og stundum geta auk þess bæst við 491.836 kr. Örorkubætur eru þannig að fyrir hvert stig örorku á bilinu 1--25% greiðist 31.972 kr., fyrir hvert stig á bilinu 26--50% er greitt 63.937 kr. og fyrir hvert stig umfram 50% er greitt 95.909 kr. Því vil ég leyfa mér, virðulegi forseti, í ljósi þeirrar ályktunar sem Alþingi hefur samþykkt að bera fram eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. samgrh.:

1. Hvenær var skipuð nefnd samkvæmt ályktun Alþingis frá 7. maí 1994 til þess að endurskoða ákvæði siglingalaga, nr. 34/1985, um bótarétt sjómanna á íslenskum skipum vegna líf- eða líkamstjóns og hverjir eru í nefndinni?

2. Hvert er verkefni nefndarinnar samkvæmt erindisbréfi?

3. Hvað líður störfum nefndarinnar og hvenær er áætlað að hún skili af sér?

4. Liggur fyrir á þessari stundu hvert verði meginefni tillagna nefndarinnar og ef svo er, hvert er það?