Slysabætur sjómanna

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 16:27:16 (4697)

1997-03-19 16:27:16# 121. lþ. 93.12 fundur 434. mál: #A slysabætur sjómanna# fsp. (til munnl.) frá samgrh., GHall
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[16:27]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Eins og síðasti ræðumaður kom inn á hafa þessi nefndarstörf því miður tekið of langan tíma. Við höfum nýlegt dæmi um sjómannsekkju með tvö börn og þá voru dánarbæturnar 1.932 þús. kr. með þessum 10% viðauka við tryggingarfjárhæð frá Íslenskri endurtryggingu sem gert var í kjarasamningum fyrir löngu. Það þýðir einfaldlega að ekkjan fær 1/3 af þessum 1.900 þús. kr. og börnin hvort um sig 1/3. Hlutlæg ábyrgð atvinnurekanda vegna hættulegs atvinnurekstrar hefur ekki verið viðurkennd í íslenskum skaðabótarétti til þessa. Venjulegt sakarmat er lagt til grundvallar, hvort sem um er að ræða t.d. skrifstofustarf sem hefur engar sjáanlegar hættur í för með sér fyrir starfsmenn eða starf á skipi með tröllauknum og fjölbreytilegum vélbúnaði þar sem aðgátar er þörf við hvert fótmál. Ég tel að það sé full ástæða til að taka þennan þátt inn í líka. (Forseti hringir.) Þetta hefur verið reynt, hæstv. samgrh. Því miður er oft talað um að það þurfi að ná samningum um þetta mál, ekki að setja löggjafann í það en þegar kemur svo að samningum þá er talað um að það sé eðlilegt að löggjafinn sjái um málið.