Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 10:57:52 (4702)

1997-03-20 10:57:52# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[10:57]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hér á mælendaskrá þannig að ég hafði ekki hugsað mér að fara í mörg atriði en það var þó eitt sem sló mig alveg sérstaklega í ræðu ráðherra fyrir utan það að þetta mál er greinilega ekki hluti af neinni framtíðarsýn í atvinnumálum á Íslandi. Hér er um að ræða einstakt mál sem er tekið út úr öllu öðru með óeðlilegum hætti en látum það vera.

Það sem mér fannst sérkennilegt við upplýsingarnar sem fram komu hjá ráðherranum var það að forstöðumenn fyrirtækisins Columbia Ventures Corporation virtust eingöngu hafa fengið að skoða Grundartanga sem hugsanlegan stað fyrir álverið. Ég bendi á að umræðan um þetta álver snýst fyrst og fremst um það að menn telja staðsetninguna vonda og óheppilega. Ég bendi á ágreining sem komið hefur upp gagnvart íbúum í Kjósarhreppi og ég bendi á í þessu sambandi að margir aðilar hefðu talið eðlilegra að vísa fyrirtæki af þessu tagi t.d. á Keilisnes. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Af hverju var fyrirtækinu eingöngu vísað á Grundartanga? Af hverju var ekki gerð tilraun til að vísa forstöðumönnum fyrirtækisins á þann möguleika að fyrirtækið yrði staðsett á Keilisnesi?