Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 11:02:36 (4706)

1997-03-20 11:02:36# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., SighB
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[11:02]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Minni kynslóð var kennt í skóla að Ísland væri á mörkum hins byggilega heims. Einu umtalsverðu náttúruauðlindirnar væru fiskurinn í sjónum og orka fallvatna og jarðhita. Það var ekki fyrr en nokkru síðar sem menn fóru að tala um mannauðinn sem þriðju auðlindina, enda ekki kyn því ekki var þeirri auðlind fyrir að fara á fyrri öldum Íslandsbyggðar, hvorki hvað varðar mannfjölda né verkmenntun og verkmenningu. Það er því ekkert skrýtið þegar til þess er litið þó íslenska þjóðin hafi öldum saman verið í hópi fátækustu þjóða í Evrópu. Það er ekki meira en rétt rúmur mannsaldur síðan svo var enn. Það gengur kraftaverki næst að á rúmum einum mannsaldri hafi Íslendingum tekist að breytast úr einni allra fátækustu þjóð í allri Evrópu í það að komast í hóp auðugustu þjóða. Þetta gerðist þrátt fyrir að Íslendingar væru þjóða seinastir í Vestur-Evrópu til að leggja af hafta- og einangrunarbúskap, viðurkenna kosti markaðsbúskapar og frjálsrar samkeppni. Það væri vissulega ástæða til að velta því fyrir sér hversu mörgum tækifærum við höfum glatað á þessum rúma mannsaldri fyrir að hafa orðið síðastir þjóða í Vestur-Evrópu til þess að taka upp skynsamlega hagstjórnun.

Enginn vafi er á því að þessi miklu umskipti sem orðið hafa í efnalegri afkomu íslensku þjóðarinnar urðu fyrst og fremst vegna þess að okkur tókst að nýta okkur aðra þá auðlind sem ég nefndi hér áðan, en ýmislegt bendir nú til þess að ekki séu mörg frekari tækifæri a.m.k. sem felast í auknu aflamagni. Við eigum enn nokkur tækifæri hvað varðar fullvinnslu sjávarafurða, vöruþróun og ekki síst framþróun tæknigreina sem orðið hafa til hér á landi samfara uppbyggingunni í sjávarútvegi og vissulega er það svo að hagsældin samfara nýtingu fiskimiðanna hefur búið til þriðju auðlinda, mannauðinn.

En það er ekki sjálfgefið að þessi framfarasókn Íslendinga sem staðið hefur ekki nema í einn mannsaldur eða rétt rúmlega það, haldi áfram. Við getum ekki gert ráð fyrir því að okkur takist að halda til jafns við þær þjóðir sem standa sig best og eiga bjartasta framtíð nema með því að við nýtum allar þær auðlindir sem við eigum, ekki bara auðlindir fiskimiðanna heldur líka auðlindir þær sem felast í orku jarðhita og fallvatna og mannauðinn. Það verðum við að gera af skynsamlegu viti en við verðum líka að gera okkur grein fyrir því að það gerist ekki án fórna.

Okkur hættir til að gleyma því að sú mikla uppbygging sem orðið hefur t.d. í fiskiðnaðinum sem staðið hefur undir framfarasókn þjóðarinnar á síðasta mannsaldri hefur ekki gerst án fórna. Okkur hættir til að gleyma því að það er einmitt til fiskiskipaflotans sem við getum rakið mestu uppsprettu mengunarvaldandi lofttegunda sem Íslendingar bera ábyrgð á að losa út í andrúmsloftið. Sú fórn hefur fylgt þeirri uppbyggingu sem orðið hefur í fiskiðnaði á Íslandi og þeim lífskjarabata sem þjóðin hefur haft af því. Því verður heldur ekki gleymt að stór hluti þeirrar sjónmengunar sem mætir ferðamönnum sem fara um þetta land er einmitt afrakstur af þeim mikla iðnaði og atvinnustarfsemi sem í fiskveiðum og fiskvinnslu á sér stað. Þeir sem hafa farið um strendur landsins vita mætavel að sú umtalsverða sjónmengun sem þar mætir augum manna er ekki af völdum stóriðnaðar, heldur af völdum þeirrar atvinnustarfsemi sem hefur staðið undir lífskjarabyltingu þeirri sem orðið hefur á síðasta mannsaldri. Það er því rangt að tala sem svo að það sé aðeins uppbygging í iðnaði sem getur valdið slíkum áhrifum. Þau áhrif eru þegar til staðar og jafnvel ferðaþjónustan sem er í vexti hér á Íslandi skilur eftir sig slík ummerki eins og allir þeir sjá sem ferðast hafa um óbyggðir Íslands. Við nýtingu allra auðlinda verður ekki komist hjá einhverjum fórnum. Það þýðir að menn verða að nýta þær af skynsamlegu viti en ekki taka ákvörðun um að hafna slíkri nýtingu á grundvelli þeirra óæskilegu áhrifa sem hún kann að hafa í för með sér á umhverfið. Ef við hefðum tekið þá ákvörðun á sínum tíma þegar uppbygging hófst í fiskvinnslu og fiskiðnaði á Íslandi, þá væri þessi þjóð enn í hópi allra fátækustu þjóða í Evrópu. Það skref til baka er ég sannfærður um að ekkert okkar vildi stíga.

Það er ekki heldur hægt að gera ráð fyrir því að við getum nýtt þessa stórvirku auðlind okkar, orkuna, án erlends áhættufjármagns. Slík fjárfesting hefur ekki átt sér stað á Íslandi í mörg ár og við erum sú þjóð sem hefur einna lægst hlutfall hvað erlenda fjárfestingu varðar í allri Evrópu. Fjárfesting erlendra aðila undanfarinn áratug hefur varla haft undan því að mæta afskriftum á þeim fastafjármunum sem urðu til vegna þeirrar einu umtalsverðu erlendu fjárfestingar sem varð þegar álverið í Straumsvík var byggt.

En við verðum líka að huga að því að orka fallvatna og jarðhita er ekki ótæmandi auðlind eins og við héldum einu sinni að fiskurinn í sjónum væri. Margir virðast telja að orka sú sem býr í fallvötnum og jarðhita á Íslandi sé svo umtalsverð að hún mælist jafnvel á heimsmælikvarða. Þetta er rangt. Sú orkuvinnslugeta sem Ísland býr yfir samanlagt í virkjanlegum vatnsföllum og í virkjanlegum jarðhita er nú ekki meiri en milli 40--60 terawattstundir samanlagt ef miðað er við þær mengunarvarnakröfur sem nú eru gerðar. Samanlögð orkuvinnslugeta okkar Íslendinga er því ekki meiri en um það bil helmingurinn af því sem Norðmenn framleiða nú þegar og öll þessi samanlagða orkuvinnslugeta á Íslandi nægir ekki nema fyrir orkuþörf almennings í einni heimsborg eins og t.d. í Lundúnum þannig að sú tilfinning margra Íslendinga að hér sé um að ræða nær ótæmandi auðlind, hér sé um að ræða auðlind sem sé svo stór að hún mælist á heimsmælikvarða, er ekki rétt. Þetta er takmörkuð auðlind þó hún sé að hluta til endurnýjanleg og hún er ekki stærri en svo að þó svo við gerðum ráð fyrir því að öll orkuvinnslugeta íslenskra fallvatna og jarðhita yrði nýtt, þá yrðum við ekki nema um það bil hálfdrættingar á við það sem Norðmenn eru nú.

Við getum líka velt fyrir okkur hversu hátt verðmæti það gæti talist vera sem er í samanlögðum orkuvinnslumöguleikum okkar í jarðhita og fallvötnum. Ef okkur tækist að selja okkar íslensku orku við stöðvarvegg á 20--30 mill kWh sem er mjög ásættanlegt verð, þá erum við að tala um verðmæti, heildarverðmæti í orkuvinnslukerfinu íslenska fullnýttu, upp á svona 75--100 milljarða kr. á ári. Það segir okkur að verðmæti orkulindanna er álíka mikið, ívið meira, en verðmæti fiskimiðanna er talið vera þannig að það er svo langt frá því að þessi auðlind sé ótæmandi eða færi okkur slík verðmæti að við getum ekki ímyndað okkur hversu mikil þau séu. Þarna erum við má segja að hefja úrvinnslu á hinni auðlindinni sem er álíka stór og auðlind fiskimiðanna sem íslenska þjóðin á einum mannsaldri hefur þegar að mestu fullnýtt. Það skiptir því að sjálfsögðu máli hvernig við nýtum þessa auðlind og að við gerum okkur strax grein fyrir því að hún er takmörkuð, hún er ekki stærri en þetta. Nýtingaráformin verða því að hafa til hliðsjónar þessar staðreyndir og menn verða að sjálfsögðu að ganga út frá því að nýting íslenskra orkulinda skapi sem mest verðmæti fyrir þjóðina sjálfa sem auðvitað þýðir eitt og það sama og að segja að við verðum að gera ráð fyrir því að hún sé að mestu eða öllu leyti nýtt í landinu sjálfu þannig að vinnsluvirði umfram sölu við stöðvarvegg geti átt sér stað í okkar eigin landi.

Eins og hæstv. iðnrh. gat um hefur undirbúningur að þeirri framkvæmd sem hér er verið að ræða um staðið í alllangan tíma. Um margra ára skeið var reynt að fá erlenda fjárfesta til liðs við okkur til þess að nýta orkulindir okkar í þágu orkufreks iðnaðar en það bar ekki árangur. Það var fyrst í lok ársins 1993 og byrjun ársins 1994 þegar aðstæður tóku að breytast og þá breyttust aðstæður með þeim hætti að það varð fýsilegt að stækka þá framleiðslu sem fyrir var í landinu eða auka við framleiðslu þar sem ekki þyrfti að byggja allt frá grunni, en aðstæður voru ekki nægilega góðar til þess að hægt væri að byggja heilt nýtt álver á nýjum stað með öllum þeim framkvæmdum sem til þess þyrfti. Á þeim árum vorum við Íslendingar m.a. í viðræðum við Swiss Aluminium um stækkun álversins í Straumsvík vegna þess að okkur var ljóst eins og raunar þeim að það væri hagkvæmt að fara út í slíka stækkun þar sem hins vegar höfðu ekki skapast aðstæður til þess að ráðast í byggingu nýs álvers frá grunni. Þær viðræður við Swiss Aluminium gengu þunglega. Því var það að þegar íslenskum stjórnvöldum var ljóst að sú verksmiðja eða sá kerskáli sem hér er rætt um að byggður verði á Grundartanga væri til sölu fyrir hagkvæmt verð, þá var farið að athuga það að Íslendingar sjálfir beittu sér fyrir kaupum á þeim kerskála og að reisa hann við hliðina á núverandi kerskálum í Straumsvík ef Ísal vildi ekki fara út í þá stækkun sem síðar varð. Og ég er ekki í nokkrum vafa um að sú ráðagerð sem Swiss Aluminum var tilkynnt, þ.e. að ef þeir ekki féllust á að stækka álverið í Straumsvík þá mundu Íslendingar byggja þennan þriðja kerskála sjálfir í samvinnu við aðra fjárfesta, varð til þess að þeir tóku þá ákvörðun að stækka þá frekar sjálfir um þriðja ofninn uppi í Straumsvík.

[11:15]

Við höfðum líka skoðað á þeim tíma hagkvæmni þess að reisa þennan kerskála við Grundartanga og það hafa komið svipaðar niðurstöður út úr því, þ.e. það var hagkvæmt vegna þess að ýmis þjónustuaðstaða, þar á meðan höfn, var til á staðnum þannig að hagkvæmt var að reisa viðbótarkerskála þar þó að það væri ekki hagkvæmt að ráðast í byggingu nýrrar verksmiðju. Þegar ljóst var að Swiss Aluminium mundi sjálft stækka álverið í Straumsvík um þriðja kerskálann, þá voru það Íslendingar sjálfir eða öllu heldur talsmenn iðnrn., vorið 1995 rétt eftir stjórnarskipti, sem kynntu þennan kost fyrir forstjóra Columbia Ventures. Íslendingar sjálfir áttu því frumkvæði að því að Columbia Ventures hóf athugun á því að reisa hér álver eða réttara sagt, reisa hér nýjan kerskála og komust að þeirri niðurstöðu, sömu og Íslendingar höfðu komist að, að mun hagkvæmara væri að reisa þann kerskála á Grundartanga þar sem öll þjónustuaðstaða væri fyrir hendi heldur en hefja byggingu nýs álvers frá grunni á nýjum stað svo að það út af fyrir sig svarar þeirri spurningu sem hv. þm. Svavar Gestsson spurði áðan.

Virðulegi forseti. Það er ekki ástæða til þess að fara mjög ítarlega í saumana á þessu frv., enda verður það gert að sjálfsögðu í iðnn. þar sem ég á sæti. Ég vil þó aðeins taka fram í þessu sambandi að hvað varðar umhverfismálin þá hefur að öllu leyti verið farið að nýjum lögum um umhverfismat og um upplýsingaskyldu sem sett voru á árinu 1993. Um það er hins vegar að segja að sú lagasetning var samningsmál, svona ,,komprómí`` lagasetning sem að mörgu leyti er gölluð og þarfnast endurskoðunar. Og ég vildi gjarnan spyrja hæstv. iðnrh., þó hann sé að vísu ekki ráðherra þeirra mála, hvort ekki megi búast við því að þessi lög verði tekin til endurskoðunar því að það er brýnt að sú endurskoðun fari fram. Hins vegar breytir það ekki því að í öllu ferli málsins hvað umhverfismálin varðar hefur verið farið nákvæmlega og í einu og öllu að íslenskum lögum þannig að hæstv. iðnrh. og hæst. umhvrh. verða ekki sakaðir um að hafa ekki farið að lögum í þessum málum. Hins vegar liggur fyrir að mínu viti að þeim lögum þarf að breyta, þau lög þarf að endurskoða. Eins munum við í iðnn. fylgja því mjög eftir að fá upplýsingar um mengunaráhrif frá þessari verksmiðju til að sannfærast um að þar sé allra krafna gætt og að allar kröfur séu uppfylltar sem gerðar eru í íslenskum lögum um þau mál.

Ég vil einnig benda á og fagna því sem fram kemur í frv. frá hæstv. iðnrh. að á síðasta kjörtímabili var skattareglum breytt þannig að fyrirtæki eins og hér um ræðir sem sett er niður á Íslandi fyrir tilstuðlan erlends fjármagns getur nú að mestu eða öllu leyti fallið undir óbreytt íslensk skattalög. Svo var ekki á árunum áður heldur þurfti vegna sérstöðu íslenskra skattalaga sem voru í grundvallaratriðum öðruvísi en skattalög hvað varðar atvinnurekstur í okkar umhverfi, að leggja út í viðamikla samninga og sérstaka lagasetningu um skattamál fyrir öll þau fyrirtæki sem reist voru fyrir erlent fé hér á Íslandi þannig að þau sættu í einu og öllu öðrum lögum en íslenskum skattalögum.

Nú hefur sú breyting orðið á vegna þeirra breytinga sem gerðar voru á skattamálum í tíð síðustu ríkisstjórnar að fyrirtæki eins og þetta fellur að mestöllu leyti undir íslensk skattalög með þeim tiltölulega lítilvægum breytingum sem hæstv. iðnrh. rakti hér áðan og skapast annars vegar af því að veita fyrirtækinu nokkuð rýmkaðar heimildir hvað varðar skattlagningu vegna markaðra tekjustofna og fasteignagjalda en almennt gerist og gengur vegna sérstöðu þessa fyrirtækis og hins vegar koma á móti þrengingar vegna frádráttar sem heimilaður er íslenskum fyrirtækjum sem eru alfarið í eigu íslenskra aðila, en það er eðlilegt að takmarka þessar frádráttarreglur hjá fyrirtæki sem ella mundi nýta þær hugsanlega til þess að flytja arð úr landi og til eigenda sinna erlendis. Mér finnst þessar breytingar sem hér eru gerðar mjög eðlilegar og vek enn athygli á því að þetta eru óverulegar breytingar frá íslenskri skattalöggjöf miðað við það sem gera hefur þurft áður við svipaðar aðstæður.

Þá vildi ég spyrja hæstv. iðnrh. í sambandi við ákvæði 9. gr. um framsal á samningnum sem heimilt er að semja um, hvers vegna ekki sé gert ráð fyrir því í þessari grein að til þurfi að koma samþykki eða a.m.k. að íslenska ríkið sem er samningsaðili við Columbia Ventures í þeim efnum, geti einhvern veginn tryggt sér að verði samningurinn framseldur, þá verði það ekki gert í óþökk íslenska ríkisins heldur að íslenska ríkið samþykki þá eða a.m.k. mótmæli ekki slíku framsali.

Að lokum er meginniðurstaða mín þessi: Við munum styðja það frv. sem hér hefur verið lagt fram. Við teljum að hér sé stigið framfara- og heillaspor til þess að styrkja atvinnulíf þessarar þjóðar, fjölga atvinnutækifærum, auka landsframleiðslu. Það munum við styðja. Við munum hins vegar kalla á frekari upplýsingar um mengunarvarnir í þeim umræðum sem eftir eiga að fara í hv. iðnn. og ganga eftir því að fullvissa okkur um að ströngustu mengunarvarna sé gætt. Og ég legg áherslu á það við hæstv. iðnrh. og hæstv. umhvrh. að taka til endurskoðunar lög um umhverfismál frá 1993 sem ég tel að séu ekki fullnægjandi.