Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 12:16:45 (4717)

1997-03-20 12:16:45# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[12:16]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Umhverfisþáttur þess máls sem hér er rætt er veigamikill og vil ég fyrst og fremst taka hann til umfjöllunar í því máli sem ég flyt. Einnig er þess að geta að á þessum fundi hefur verið dreift skýrslu frá umhvn. um starfsleyfistillögur fyrir álver á Grundartanga. Ég vona að það sem í henni kemur fram ásamt því sem sagt er á þessum fundi verði til einhvers gagns við umfjöllun frv. í nefndum og við afgreiðslu þess í þinginu.

Ástæða þess að umhvn. tók þetta mál til umfjöllunar er sú að nefndin hefur látið sig varða ýmis þau mál sem miklu skipta á hennar kjörsviði enda þótt þau hafi ekki komið til nefndarinnar hina hefðbundnu leið, þ.e. frá þinginu, heldur tekur nefndin málið upp að eigin frumkvæði. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem umhvn. gerir slíkt. Umhvn. tók að eigin frumkvæði starfsleyfistillögur til skoðunar og athugunar þegar um það var að ræða að meta hvort setja skyldi álver á Keilisnes í aðdraganda þess að ákveðið var að stækka álverið í Straumsvík.

Sú skýrsla sem hér liggur fyrir er tugir blaðsíðna þegar fylgiskjöl eru meðtalin. Álit nefndarmanna kemur fram á einum 20 blaðsíðum þar sem 1/3 þess á að giska er frá meiri hluta nefndarinnar en 2/3 frá minni hluta. Áður en ég fjalla um skýrsluna eða efni hennar vil ég láta koma fram að fjölmargir gestir komu til nefndarinnar og eru þeir hér taldir. Gögn hafa sömuleiðis verið lögð fram og skoðuð, en þau eru eins og kemur fram á lista með skýrslunni 22.

Umhvn. eyddi gríðarlega miklum tíma í þetta mál frá annars annasömu starfi sínu í þinginu, hélt tíu fundi og suma langa um málið og fór að auki í vettvangsrannsókn og vettvangsskoðun á Grundartanga og heimsótti sveitarstjórnir og hélt fundi með heimamönnum. Auk þess hafa þeir alþingismenn sem í nefndinni sitja farið á eigin spýtur á margvíslega fundi, bæði hjá stofnunum, félagasamtökum og almenningi en til margra slíkra hefur verið boðað í aðdraganda málsins.

Áður en ég fjalla beinlínis um skýrsluna vil ég aðeins fara nokkrum almennum orðum um umhverfismál. Þó að álversmálið sé stórt þá hljótum við ekki aðeins skoða það heldur huga að framtíðarstefnu við þetta tækifæri. Ég tel að sú framtíðarstefna sé eitthvert það mikilvægasta sem við þurfum að hyggja að. Margvíslegar ábendingar komu fram núna þegar dró nær fyrirhuguðu álveri eða ákvörðunum um fyrirhugað álver og ég tel að þær ábendingar og sú gagnrýni sem oftast hefur verið málefnaleg hafi orðið til góðs, hjálpað okkur til þess að rýna með glöggum augum og af mikilli gagnrýni á þær ákvarðanir sem hér eru teknar. Ég tel líka að sú málefnalega gagnrýni sem hefur komið fram hafi fært okkur að mörgu leyti fram á við í allri umræðu um virkjunarmál, stóriðjumál og umhverfismál. Mér hefur liðið þannig að mér hefur fundist að nýjar skoðanir og ný viðhorf væru uppi á yfirborðinu í okkar umræðu en Íslendingar hafa um margt verið nokkuð á eftir öðrum í umræðu og viðhorfum til umhverfismála. Þessi gagnrýni hefur þannig fleygt okkur að ég tel á tiltölulega skömmum tíma langt fram á við. Því er þó ekki að neita að margt af gagnrýni sem fram hefur komið er ómálefnaleg bæði vegna þess að mönnum hefur hitnað í hamsi og sagt e.t.v. meira en þeir gátu staðið við og enn fremur að þekking manna á þessu flókna og viðamikla máli hefur ekki verið næg. Það skal engan undra því að hér er um að ræða mjög flókið og umfangsmikið viðfangsefni og erfitt að átta sig á staðreyndum. Það er eins og allir þekkja þegar fer að skyggja eða dimma þá er auðveldara að segja draugasögur en í björtu.

Þá vildi ég einnig fara nokkrum orðum um það að virkjunarkostir sem tilheyra þessu álveri hafa verið skoðaðir af umhvn. Umhvn. fór ferð inn á hálendið og skoðaði virkjunarkosti sl. sumar og kom m.a. að Hágöngusvæðinu við Köldukvíslarbotna og fegurðin þar er slík, sem því miður of fáir þekkja, að erfitt er að sætta sig við að þurfa að taka þetta svæði undir miðlunarlón þó svo að einmitt þar birtist sú markalína sem við verðum stöðugt að draga milli náttúru- og umhverfissjónarmiða og skynjunar okkar á fegurð og síðan þeim atvinnukostum og atvinnuuppbyggingu sem við viljum hafa.

Í þeim breyttu viðhorfum sem ég tel að hafi orðið á tiltölulega skömmum tíma vegna þessa máls hefur komið fram nýtt gildismat. Við þurfum að huga að þessu gildismati í framtíðinni. Við þurfum að huga að nýju gildismati og nýjum viðhorfum til ómengaðrar náttúru og til þess hvar við drögum markalínu milli náttúruverndarsjónarmiða og atvinnusjónarmiða. Við þurfum að skoða gildi fegurðar en gildi fegurðarinnar og tilfinningar manna til náttúrunnar fá því miður ekki neitt rúm í núverandi löggjöf enda erfitt um alla mælikvarða hvað það snertir.

Þá verðum við einnig að horfa til þess þegar að framtíð er hugað að við berum ábyrgð gagnvart þeim sem á eftir okkur koma og við berum sömuleiðis ábyrgð gagnvart öðrum jarðarbúum og þurfum að taka það inn í okkar stefnumótun. Ég tel að Íslendingar eigi að endurskoða stefnu sína í umhverfismálum og vera tilbúnir til þess að endurmeta þá markalínu sem dregin er milli umhverfissjónarmiða og atvinnuuppbyggingar.

Það er illt að vera svo fátækur að alltaf þurfi að fórna hagsmunum íslenskrar náttúru. Mat á slíku hlýtur að verða endurmetið. Við skulum ekki gleyma því þó okkur finnist að mikið fé vanti til velferðarmála og margvíslegrar uppbyggingar, þá eru Íslendingar rík þjóð. Þegar við horfum til þjóða sem búa við skort og nauð á öllum sviðum, þá getur maður ekki annað en haft samúð með þeim þegar þær þurfa að ganga langt í umhverfismálum og á hlut náttúrunnar. En við verðum að hafa kjark til þess að horfa í eigin barm og líta á velmegun okkar og kunna að meta og hemja löngun okkar til þess að auka tekjur og hagvöxt á kostnað náttúrunnar. Þetta tel ég afar mikilvægt núna þegar við fáum tækifærið sem fyrirhugað álver og aðdragandi þess gefur okkur.

Ég vík þá að skýrslunni og tala um niðurstöður meiri hlutans. Í niðurstöðunum koma fram þær skoðanir að umræðan um álverið fyrirhugaða hafi orðið til góðs og henni er fagnað. Það er sömuleiðis bent á að löggjafinn fái hér mjög kærkomið tækifæri til að endurskoða löggjöfina. Það er sömuleiðis bent á að við þurfum að kunna að meta hreina og endurnýjanlega orku okkar hér á landi.

Meiri hlutinn fagnar því tækifæri sem aðdragandi álversins og umfjöllun um starfsleyfið gefur til að endurmeta og skoða ýmis lög sem þessu tengjast. Þar er um að ræða fyrst og fremst skipulags- og byggingarlög, endurskoðun á náttúruverndarlögum og núna er í undurbúningi endurskoðun á lögum um mat á umhverfisáhrifum. Öll þessi lög hljóta að verða skoðuð með hliðsjón af þeirri reynslu sem draga má af ferlinu sem leiðir til ákvörðunar um álverið. Sömuleiðis er farið ýmsum orðum um hreina og endurnýjanlega orku Íslendinga. Við þurfum að nýta hana um leið og það er viðurkennt að hún veldur mengun bæði staðbundinni og hnattrænni. Það er hvatt til þess að menn hafi hliðsjón af ferðaþjónustu, landbúnaði og öðrum atvinnugreinum og sumarbústaðabyggð og skilyrðum til útivistar. Settar eru fram í skýrslu meiri hlutans afdráttarlausar skoðanir um að umhverfissjónarmið séu ríkjandi í framtíðarstefnunni sem þurfi að móta.

Fjallað er um mengunarmörk í starfsleyfistillögunni og vikið að þeim mengunarmörkum sem alþjóðlegar samþykktir setja Íslendingum og þar kemur fram að þau mengunarmörk sem álverinu á Grundartanga eru sett eru fyllilega innan þeirra marka sem alþjóðlegar samþykktir segja til um. Niðurstaðan er því sú að viðmiðanir Íslendinga séu viðunandi.

[12:30]

Það er bent á eins og hér kemur fram ef ég má lesa, með leyfi forseta: ,,Umhvn. fjallaði sérstaklega um það hvort gera ætti kröfur um uppsetningu vothreinsibúnað við fyrirhugað álver á Grundartanga. Mat Hollustuverndar er að ekki þurfi vothreinsibúnað. Miðað við fyrirliggjandi áætlanir um loftmengun getur meiri hluti nefndarinnar fallist á þá niðurstöðu en telur að endurskoða þurfi starfsleyfið hvað mengunarkröfur og hreinsibúnað varðar ef í ljós kemur að áætlanir um loftmengun standast ekki.``

Þá er farið margvíslegum orðum um rannsóknir varðandi fyrirhugað álver og lögð mikil áhersla á að hvergi sé vikist undan ýtrustu vinnu og athygli á þeim sviðum. Í skýrslunni er farið orðum um þá reynslu sem Íslendingar geta dregið af mengun frá stóriðjunni, þ.e. frá álverinu í Straumsvík og frá járnblendiverksmiðjunni. Það er ef til vill sú reynsla sem er ólygnust og við getum tekið mark á.

Í stuttu máli kemur fram í skýrslunni að engar rannsóknir sýni að mengun frá þessum tveimur verum, álverinu í Straumsvík og járnblendiverksmiðjunni, hafi haft varanlega skaðleg áhrif á gróður og náttúru umhverfis álverið og járnblendiverksmiðjuna. Þetta eru afar mikilvægar staðreyndir sem við verðum að hafa í huga og færa okkur heim sanninn um hvers má vænta af álverinu á Grundartanga en þar eru mengunarkröfur enn strangari en núna eru hjá álverinu í Straumsvík þannig að staðbundin mengun og áhrif frá því ætti ekki að verða lífríki til skaða.

Umhvn. bendir á að óvenju tíðar sleppingar hafi verið frá járnblendiverksmiðjunni og fer orðum um það að slíkt verði að laga og að Hollustuvernd þurfi að vakta þann þáttinn. Hins vegar kemur fram að hreinsivirki járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga hafi verið í gangi um 98--99% og sá reykur sem sést hefur frá járnblendiverksmiðjunni mengar ekki meira en ryk almennt. Sú mengun sem svo sannarlega kemur þó frá járnblendverksmiðjunni er brennisteinsdíoxíð og það er lofttegund og mengun sem ekki sést. En hún er hins vegar allveruleg en þó vel innan þess starfsleyfis sem verksmiðjan vinnur eftir.

Farið er orðum um vatnsöflun og leggur meiri hlutinn áherslu á að gengið verði tryggilega frá þeim málum og höfð hliðsjón af vatnsöflun Akraness úr Akrafjalli.

Nefndin telur að það megi draga mikinn lærdóm af skipulagsferlinu og telur að í framtíðinni þurfi að auka ábyrgð almennings í skipulagsvinnunni og þátttöku sveitarfélaga. Þetta mun nefndin hafa til hliðsjónar þegar til samþykktar skipulags- og byggingarlaga kemur en þau eru til umfjöllunar á þessu þingi.

Ég vil, herra forseti, leyfa mér að lesa lokaorð skýrslunnar en þau hljóða svo:

,,Niðurstaða meiri hluta umhvn. er sú að þær kröfur sem gerðar eru í starfsleyfistillögum um álver á Grundartanga séu nægjanlegar. Meiri hlutinn bendir þó jafnframt á að orðalag starfsleyfistillögu mætti í mörgum tilfellum vera afdráttarlausara þannig að eftirlit og aðhald stjórnvalda yrði auðveldara. Þá leggur meiri hlutinn áherslu á að eftirlit með stóriðju og rannsóknir á áhrifum stóriðju á lífríki landsins verði efld til muna.

Skiptar skoðanir komu fram í nefndinni um hversu ákjósanleg staðsetning álversins á Grundartanga væri en enginn taldi hana beinlínis hættulega.

Loks bendir meiri hlutinn á slæma þróun koldíoxíðsmengunar í heiminum en gróðurhúsaáhrif vegna slíkrar mengunar eru sívaxandi vandamál. Þó að rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar feli ekki í sig lagalega skuldbindingu fyrir einstök ríki hvetur meiri hluti nefndarinnar ríkisstjórnina til að taka koldíoxíðslosun á Íslandi föstum tökum. Í því sambandi minnir meiri hlutinn á framkvæmdaráætlun ríkisstjórnarinnar vegna rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og ráðstefnu ríkjanna sem eru aðilar að samningnum í Kyoto í desember 1997.``

Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka þeim alþingismönnum sem unnið hafa í nefndinni mjög ötult starf og af mikilli alvöru að því að meta þennan þátt fyrirhugaðs álvers. Við höfum lagt okkur fram um að komast að málefnalegri niðurstöðu sem við getum varið og felur ekki í sér öfgar til einnar eða neinnar áttar og á í þessu máli að geta markað þá línu sem dregin er á milli umhverfissjónarmiða og atvinnuuppbyggingar. Ég vil enn fremur nota tækifærið til að þakka þeim fjölmörgu sem komu til nefndarinnar og tóku á móti okkur og útveguðu okkur gögn í þessari viðamiklu umfjöllun umhvn.