1997-03-20 13:33:52# 121. lþ. 95.95 fundur 262#B réttur alþingismanna til upplýsinga um fyrirtæki og stofnanir í ríkiseigu# (umræður utan dagskrár), Flm. ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[13:33]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Tilefni þessarar umræðu er svar samgrh. við fyrirspurn minni um starfskjör yfirmanna Pósts og síma fyrir og eftir formbreytingu í hlutafélag. Fyrirspurnin var gerð til að fá fram hvort verulegar breytingar hefðu orðið á launum við breytinguna. Ráðherra veitti upplýsingar er sneru að ríkisfyrirtækinu áður en það varð að hlutafélagi en kvaðst ekki hafa upplýsingar um Póst og síma hf. og taldi sér ekki fært að krefjast þeirra. Starfskjör væru trúnaðarmál milli stjórnar og starfsmanna.

Þessi umræða snýst um grundvallarmál sem er upplýsingaskylda ráðherra um opinber málefni til alþingismanna. Samkvæmt 54. gr. stjórnarskrárinnar er alþingimönnum heimilt með leyfi Alþingis að óska eftir upplýsingum frá ráðherra um opinber málefni. Þetta ákvæði stjórnarskrárinnar er ítrekað í lögum um þingsköp Alþingis, í 49. gr. laga nr. 55/1991. Fyrirspurn mín var borin fram með venjubundnum hætti og er alveg ljóst að hún styðst bæði við stjórnarskrá og þingsköp og ráðherra ber að svara eftir því sem hann hefur tök á.

Fyrirspurnir um launamál eru ekki óalgengar á Alþingi, samanber fyrirspurnir um kjör bankastjóra, en reglulega er upplýst um heildarkjör þeirra. Þannig var fyrirspurnin um starfskjör yfirmanna Pósts og síma. Veittar voru upplýsingar um launakjör fyrir breytinguna í hlutafélag en ekki eftir. Formbreytingin breytir ekki upplýsingaskyldunni að mati virtra lögfræðinga. Hluthafi í fyrirtæki hefur ákveðin réttindi samkvæmt hlutafjárlögum til að óska eftir upplýsingum. Hluthafinn er einn í þessu tilviki, þ.e. ríkissjóður og samgrh. fer með þann hlut. Hann hefur rétt til að afla upplýsinganna gagnstætt því sem segir í skriflegu svari hans við spurningu minni. Samkvæmt hlutafjárlögum er kveðið á um rétt hluthafa til að kalla saman aukahluthafafund ef upplýsingar eru ekki tiltækar á hluthafafundi samkvæmt 85. og 86. gr. Hluthafinn eini getur haldið fund hvenær sem hann óskar þess og krafið stjórn um upplýsingar er varða rekstur fyrirtækisins. Í lögum um ársreikninga er einnig kveðið á um þennan rétt til upplýsinga af því tagi sem fyrirspurn mín tekur til bæði í 36. gr. og 48. gr. en þar segir að laun stjórnenda skuli birt. Sömuleiðis kveða þau á um skýlausan rétt hluthafa til að óska eftir upplýsingum um þetta og önnur málefni sem varða félagið. Sambærileg ákvæði eru í lögum um viðskiptabanka. Framkvæmdin hefur verið sú að sérstakur liður er í ársreikningi þar sem tilgreind eru heildarlaun framkvæmdastjóra og stjórnar.

Í umræðum hér á Alþingi um stofnun hlutafélags um Landsbanka og Búnaðarbanka 13. mars sl. sagði viðskrh., aðspurður, að hann væri þeirrar skoðunar að Alþingi ætti að hafa aðgang að upplýsingum um kjör yfirmanna ríkisbankanna sem hlutafélaga, ekki síst á meðan ríkið ætti 100% hlut í þeim. Í máli sínu vitnaði hann í sömu lög og lagagreinar og ég hef gert hér á undan í máli mínu. Þar greinir hæstv. viðskrh. og hæstv. samgrh. á. Þessi umræða er ekki um launakjörin nema að litlu leyti heldur fyrst og fremst um samband löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og hvernig beri að líta á upplýsingaskyldu gagnvart ríkisfyrirtæki sem breytt hefur verið í hlutafélag.

Í svari samgrh. segir að ráðuneytið hafi ekki skipunarvald í málefnum Pósts og síma hf. og öll stjórnsýsluleg tengsl hafi rofnað. Það er rétt en önnur tengsl hafa myndast milli ráðuneytis, þ.e. ráðherra og hlutafélagsins þar sem hann fer nú með allan hlut ríkisins í félaginu. Þá ber honum að fara eftir lögum um hlutafélög og öðrum lögum þeim tengdum þar á meðal lögum um ársreikninga. Það er ekki beinlínis rangt í svari samgrh. að hann geti ekki upplýst um það sem óskað var eftir í fyrirspurn minni um Póst og síma hf. Algengt er erlendis að birta launakjör æðstu manna í fyrirtækjum og stofnunum.

Það er mikilvægt að hæstv. forsrh. upplýsi um afstöðu sína í þessu máli og svari eftirfarandi spurningum:

1. Samgrh. telur sér ekki fært að gefa þær upplýsingar sem óskað var eftir í fyrirspurn minni. Hæstv. viðskrh. telur sig hafa ótvíræða upplýsingaskyldu um sambærileg mál. Hver er afstaða hæstv. forsrh. til þessa?

2. Veittar eru upplýsingar um ríkisfyrirtæki ef óskað er eftir því á Alþingi. Breytist upplýsingaskyldan við breytingu ríkisfyrirtækis í hlutafélag og ef svo er þá hvernig?

3. Telur ráðherra að endurskoða þurfi lög og reglur um upplýsingar til Alþingis um ríkisfyrirtæki?

4. Telur hann að breyta þurfi ákvæði þingskapa og stjórnarskrár í ljósi svars samgrh.?

Hyggst hæstv. forsrh. beita sér fyrir því að umbeðnar upplýsingar um Póst og síma hf. verði veittar í ljósi þess sem ég hef nefnt hér að framan og ekki síst í ljósi ummæla hæstv. viðskrh. um upplýsingaskylduna hér á Alþingi?