1997-03-20 13:39:06# 121. lþ. 95.95 fundur 262#B réttur alþingismanna til upplýsinga um fyrirtæki og stofnanir í ríkiseigu# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[13:39]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Hv. málsnefjandi spyrst í fyrsta lagi fyrir um afstöðu mína til þess er kunna að virðast mismunandi niðurstöður tveggja ráðherra um sambærileg mál. Svar mitt er einfalt: Ég vil að farið sé að þeim leikreglum sem hið háa Alþingi hefur sjálft sett. Ég vil að farið sé að lögum. Í því felst ekki aðeins að öðrum sé haldið að lögum heldur einnig það sem stundum vill kannski gleymast hér á hinu háa Alþingi að lögin gilda einnig um þá stofnun sjálfa sem lögin hefur sett.

Ég hef yfirfarið svör beggja ráðherranna og tel þau ekki vera jafnmisvísandi og virðist mega ætla við fyrstu sýn. Hæstv. viðskrh. hefur í umræðum um stofnun hlutafélaga um ríkisviðskiptabankana byggt niðurstöður sínar á stjórnarskrárákvæðum um fyrirspurnarétt þingmanna og síðan gert grein fyrir þeim ákvæðum sem gilda um upplýsingaskyldu hlutafélaga í ársreikningi samkvæmt lögum um ársreikninga, nr. 154/1994. Og um upplýsingaskyldu bankanna sérstaklega samkvæmt reglugerð nr. 544/1994, um gerð ársreiknings viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana. Ég ætla ekki að endurtaka þá greinargerð hér heldur aðeins bæta örlitlu við eftir því sem tíminn leyfir.

Ársreikningar hlutafélaga eru skilaskyldir til félagaskrár sem veitir að þeim almennan aðgang samkvæmt 3. mgr. 69. gr. ársreikningalaga og er það reyndar mun víðtækari aðgangur en áður var. Ég get út af fyrir sig tekið undir það með hæstv. viðskrh. að vitaskuld hefur hið háa Alþingi, jafnvel í gegnum ráðherra ef það svo kýs, sama aðgang og aðrir að þeim upplýsingum sem í ársreikningum eru birtar og það hefur reyndar sjálft ákveðið með lögum hverjar skuli vera. Ég er hins vegar ekki jafnsannfærður um að þar séu birtar allar þær upplýsingar sem hv. málshefjandi knúði á um að gerð yrði grein fyrir í fyrirspurn sinni eða öllu heldur í því formi sem fyrirspyrjandinn óskaði eftir. Í IV. kafla ársreikningalaganna er kveðið á um það að í ársreikningi félags skuli veita upplýsingar sem tilgreindar eru í einstökum greinum þess kafla laganna. Þar segir í 48. gr., með leyfi forseta:

,,Upplýsa skal um fjölda starfsmanna að meðaltali á reikningsári. Þá skulu laun og launatengd gjöld sundurliðuð ef það er ekki gert í rekstrarreikningi.

Veita skal upplýsingar um heildarlaun, þóknanir og ágóðahluta til stjórnenda félags vegna starfa í þágu þess.

Greina skal frá samningum, sem gerðir hafa verið við stjórn, framkvæmdastjóra eða starfsmenn um eftirlaun, og tilgreina heildarfjárhæðir.``

Þetta ákvæði geymir tæmandi talningu á þeim atriðum og skyldum sem lagðar eru á stjórnendur og endurskoðanda hlutafélags, samkvæmt lögunum, að veita skýringar á og upplýsingar um laun og önnur kjör starfsmanna svo fullnægt sér góðri reikningsskilavenju og upplýsingaskyldu. Samkvæmt því nær skylda félagsstjórnar til að veita opinberar upplýsingar um greiðslur til einstakra starfsmanna eða sérstaks hóps starfsmanna eingöngu til þeirra heildarlauna og meðaltalsfjölda starfsmanna sem laun hafa tekið og annarra þeirra atriða sem framangreint ákvæði mælir fyrir um að fram skuli koma í ársreikningi.

Aðkoma hæstv. samgrh. að þessu máli er síðan sú að hann stofnar í umboði ríkisstjórnarinnar, og með heimild í lögum frá Alþingi, nr. 103/1996, hlutafélagið Póst og síma hf., hinn 27. desember sl.

Í 3. mgr. 3. gr. þeirra laga hefur Alþingi kveðið svo á um að um félagið skuli gilda ákvæði laga um hlutafélög með nokkrum undantekningum sem hér skipta ekki máli. Af þessu ákvæði verður ekki dregin önnur ályktun en sú að vilji löggjafans standi til að ákvæði núgildandi laga um hlutafélög, nr. 2/1995, og fyrrnefnd lög um ársreikninga skuli gilda fullum fetum um hið nýja félag. Í þessu felst m.a. að ákvæði hlutafélagalaganna um stjórnskipulag hlutafélaganna, inntak og valdmörk mismunandi stjórnarstofnana þeirra, svo sem um hluthafafundi, fulltrúanefnd, félagsstjórn og framkvæmdastjóra, taka að öllu leyti til hlutafélagsins Pósts og síma hf. Samgrh. fer með handhöfn hlutafjár ríkisins í hlutafélaginu Pósti og síma hf. og fer samkvæmt því með þau áhrif sem að lögum tengjast hlutafjáreign ríkissjóðs. Um þau og beitingu þeirra gilda þá almennar reglur hlutafélagalaganna. Samkvæmt þeim fara hluthafar í hlutafélagi með ákvörðunarvald sitt í málefnum félagsins á hluthafafundum, sbr. 2. mgr. 80. gr. laga nr. 2/1995. Af þessu lagaákvæði hafa verið dregnar þær ályktanir að hluthafafundur sé að jafnaði eini vettvangurinn þar sem hluthafar geta beitt þeim áhrifum sem tengd eru hlutafjáreign þeirra að lögum, þar á meðal að krefjast upplýsinga af stjórn félagsins.

Rösklega hálfum öðrum mánuði eftir stofnfund félagsins er ráðherrann síðan krafinn svara um heildarlaun og starfskjör æðstu yfirmanna fyrirtækisins. Á þeim tíma hefur enginn ársreikningur verið gerður og deila má um það hvort ráðherrann hafi í krafti 100% hlutafjáreignar ríkisins önnur tæki en leiðir af almennum reglum hlutafélagalaga til að útvega þessar upplýsingar. Væri um fleiri hluthafa að ræða þá er a.m.k. ljóst að ráðherra hefði fyrir hönd ríkisins engan frekari rétt til íhlutunar í málefnum félagsins en almennt gildir um hluthafa í hlutafélögum og leiða má af ákvæðum hlutafélagalaga eða samþykktum félagsins. Reyndar má með hliðsjón af 48. gr. ársreikningslaga segja að félagsstjórn verði ekki krafin ítarlegri skýringa en þar greinir. En setjum nú svo, þótt umdeilanlegt sé, að ráðherra hafi, sem eini hluthafinn í Pósti og síma hf., ríkari rétt til aðgangs að upplýsingum en annars væri þannig að hann gæti útvegað þær upplýsingar sem hv. málshefjandi krefði hann um og hyggjum að hvers konar upplýsingar um var beðið og höfum þá jafnframt í huga þann tiltölulega skamma tíma sem liðinn er frá því að félagið var stofnað.

Spurst var fyrir um heildarlaunakjör og starfskjör æðstu yfirmanna Pósts og síma hf., þ.e. forstjóra, framkvæmdastjóra og forstöðumanna sviða og stöðvarstjóra, deildarstjóra o.s.frv. Svar óskaðist sundurliðað eftir föstum grunnlaunum, öðrum greiðslum, þóknunum og fríðindum, svo sem ferðakostnaði, risnu og bifreiðahlunnindum. Fyrirspurnin varðar því ekki aðeins hlutafélagið Póst og síma hf. heldur einnig tiltekna einkahagsmuni þeirra manna sem hlut eiga að máli. Svo skammt er liðið frá starfsemi fyrirtækisins að ljóst er að samandregið form slíkra upplýsinga í einhverja heildartölu mundi auðveldlega vera hægt að persónugreina í grófum dráttum.

Nú vil ég taka fram að ég tel stjórnarskrárvarinn fyrirspurnarétt alþingismanna til ráðherra gagnmerkan þátt í stjórnkerfi okkar og reyndar sérstaklega mikilvægan í stjórnmálalífi sem að öllu jöfnu býr við meirihlutastjórnir. Réttur Alþingis til þess að spyrja um opinber málefni er skýr og ótvíræður og almennt rýmri en aðgangur annarra að upplýsingum hjá stjórnvöldum. Á hinn bóginn hlýtur að verða að draga þar einhver mörk á hvaða málefni teljast opinber í þessum skilningi. Án þess að ég ætli mér það verk hér og nú hlýtur þó fyrsta kastið (Forseti hringir.) að mega álykta sem svo að á ráðherra hvíli ekki sú skylda að svara spurningum um einkamálefni manna nema hann geti aftengt þær við þær persónur sem í hlut eiga eins og upplýsingar um laun í ársreikningum hlutafélaga mundu vera dæmi um.

Herra forseti. Því miður get ég ekki lokið við að svara þessu fyllilega eins og ég hafði ætlað mér vegna hins skamma tíma. Ég kannski reyni að bæta úr því í seinni ræðu.