Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 14:48:46 (4736)

1997-03-20 14:48:46# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[14:48]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson þarf ekki að leggja mér orð í munn um það hvað ég hafi talað hér um frystihús og annað. Ég nefndi ekki eitt einasta frystihús. (HG: Það var formaður þinn.) Hann svarar fyrir sig sjálfur, ég svara ekki fyrir hann, hann er maður til þess. En umræðan sem hér er í gangi virðist fara fyrir ofan og neðan garð hjá hv. þm. vegna þess að ég sagði að það væri í samræmi við tíðarandann að þeir sem vinna að ferðaþjónustu og bera ábyrgð á henni spyrji spurninga um áhrif slíkra iðjuvera og annarra. Hvað heldur hv. þm. að ég sé að gera? Ég er að vitna um það hvernig ég tel að rétt sé að umfjölluninni staðið. Ég tel að það sé rétt að það sé almenn umfjöllun um umhverfismál. Við erum ekkert á ólíkri skoðun varðandi það. En ég segi bara það að ég ætla ekki að verða vitni að því að fólk hér á Íslandi, 30 til 40 ára gamlir Íslendingar séu atvinnulausir. Þess vegna stend ég að slíkri uppbyggingu sem hér er í gangi. Og ég treysti því fyllilega að þær varnir sem við höfum uppi dugi. Ég hef ekkert síður áhyggjur af umhverfi á Íslandi heldur en hv. þm. Hjörleifur Guttormsson.

Ég vil bæta því við að í kafla sem ég ekki komst yfir í ræðu minni sem fjallar um aðvaranir sveitarfélaga sunnan Skarðsheiðar varðandi vatnstökumálin og annað þar tek ég fyllilega undir, ég kom því bara ekki að í minni ræðu og lýsti því hér yfir að ég mundi ræða þau mál þegar tækifæri gæfist til.