Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 14:53:24 (4738)

1997-03-20 14:53:24# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[14:53]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Það væri fróðlegt að fá að vita hvað hv. þm. Hjörleifur Guttormsson leggur til í atvinnumálum Íslendinga. Það væri mjög ánægjulegt að heyra það hvernig hann ætlar að leysa þau mál sem við okkur blasa í þeim efnum. Ég hefði gjarnan viljað heyra nefnd eins og eitt eða tvö mál sem gætu leyst þann aðsteðjandi vanda sem við búum við í atvinnumálum.

Varðandi koldíoxíðmengunina þá hef ég ekkert síður sýnt það hér með minni vinnu á þingi að ég hef áhyggjur af þeim málum og kom hér með athugun sem sýndi að það er hægt með ákveðnum tæknibúnaði að minnka mengun frá ökutækjum. Ég vil þakka hv. þm. fyrir það á þeim tíma að hafa tekið undir við mig í þeim málum. (HG: Hvað um álbræðsluna?) Varðandi álbræðsluna þá tel ég að þar séu svo miklir hagsmunir í húfi að við verðum að leita leiða á annan hátt (HG: Hvernig?) til að minnka mengun. Ég hef ekki svarið við því hvernig. En ég benti á þá leið að það væri hægt að minnka mengun frá ökutækjum. Það er ugglaust hægt að minnka koldíoxíðmengun á einhvern hátt frá þessum fyrirtækjum. Ég get ekki svarað því. En við eigum að gera okkur grein fyrir því að 120.000 ferðamenn á Íslandi menga líka og það mjög alvarlega, til jafns við eitt álver á Grundartanga. (HG: Ekki leysir það málið.) Auðvitað leysir það ekki málið en bent verður á að það sé þangað sem við eigum að snúa okkur með að auka atvinnuna, með því að auka ferðamennskuna þá verða menn að gæta því að það fylgir allri starfsemi einhver mengun, spurningin er bara hvers konar mengun er það. Það fylgir meira að segja manninum, hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni ákveðin mengun, eins og mér og öðrum, það er nú svo, við getum ekkert að því gert. En við gerum kannski allt sem við getum til að koma í veg fyrir hana.