Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 15:16:59 (4740)

1997-03-20 15:16:59# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[15:16]

Ólafur Örn Haraldsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að spyrja hv. þm. sem hér talaði á undan mér út í einstaka atriði í minnihluta\-áliti í þeirri skýrslu sem lögð hefur verið fram. Á bls. 11, í 10. lið, segir um ágreining í stjórn Hollustuverndar um starfsleyfistillögur, með leyfi forseta:

,,Stjórn Hollustuverndar ríkisins sendi 7. mars 1997 frá sér til iðnrh. tillögur að starfsleyfi eftir að hafa farið yfir fram komnar athugasemdir.``

Þetta kemur mér satt að segja á óvart að Hollustuvernd hafi sent frá sér starfsleyfi eða tillögur að starfsleyfi til iðnrn. og ég vildi spyrja hv. þm. hvaðan þessar upplýsingar séu fengnar og hversu traust sú heimild sé og hvort efast megi um trúverðugleika minnihlutaálitsins í ljósi þess ef þetta er ekki rétt. Ég hef ekki haft tækifæri til þess að kanna aðra þætti.

Eins vil ég líka spyrja hv. þm. um 5. lið í athugasemdum með minnihlutaálitinu, um skipulagsmál iðnaðarsvæðisins. Eina orðið sem kemur fram á gagnrýni er að óheppilegt hafi verið að ekki skuli hafa verið samþykkt svæðisskipulag fyrir Hvalfjörðinn allan. Ber svo að skilja þá að þingmaðurinn sé samþykkur og sammála skipulagsferlinu sem ég hélt þó að teldi til umhvrn. og annar hv. þm. hefur í dag haft býsna stór og mikil orð um að stundaði hér subbuskap og ég eiginlega treysti mér varla til þess að hafa öll þau stóryrði eftir sem hann gerði. Ég spyr hv. þm.: Ber að álykta sem svo að að skipulagsmálin og skipulagsferlið sé þar með í lagi eða er hér um misvægi að ræða í minnihlutaálitinu sem sýnir að ekki hafi verið nógu hyggilega eða vel að því staðið?