Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 15:24:08 (4743)

1997-03-20 15:24:08# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[15:24]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. 11. þm. Reykv. kom einmitt inn á eitt stærsta gagnrýnisatriðið í öllu þessu ferli. Það eru ekki nægar rannsóknir að byggja á og þess vegna eigum við að hafa varúðarregluna í huga, að þar sem vafi leikur á um áhrif framkvæmda og reksturs á náttúru, þá á náttúran að njóta vafans. Það hafa allt of litlar rannsóknir farið fram á lífríki í tengslum við stóriðjuna. (ÓÖH: Rannsóknin frá 1968 ... tvisvar á ári.) Tvisvar á ári? Það hafa verið mjög litlar rannsóknir sem hægt er að byggja á og við allt það ferli sem hefur farið fram við undirbúning verksmiðju á Grundartanga þá skortir gjörsamlega á að það séu lagðar einhverjar rannsóknir til grundvallar. Það veit hv. þm. alveg jafn vel og ég. Það var eitt af stærstu gagnrýnisatriðum og athugasemdum þingflokks Kvennalistans við mat á umhverfisáhrifum, þá skýrslu sem Skipulag ríkisins var með til umfjöllunar í janúar á síðasta ári. Og það verður ekki of ítrekað að við eigum að standa miklu betur að rannsóknum og leggja miklu meiri áherslu á allt eftirlit og rannsóknir í þessu sambandi. Það veit hv. þm. og hefur tekið undir í umhvn. að Hollustuvernd ríkisins, sem á að sjá um þessa þætti, er ekki undir það búin, hún hefur ekki aðstæður til þess að gegna því mikilvæga hlutverki sem hún á að gegna í þessu sambandi. Það er mergurinn málsins.