Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 15:26:28 (4744)

1997-03-20 15:26:28# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[15:26]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Nýtt álver á Grundartanga mun skapa mikla atvinnu, auka verulega útflutningstekjur og þjóðarframleiðslu og ekki síst snúa við þeirri þróun sem verið hefur á svæðinu sunnan Skarðsheiðar á undanförnum árum en þar hefur störfum fækkað verulega og íbúum að sama skapi. Þess vegna fagna ég þessu frv. og að loks skuli frekari uppbygging á Grundartanga verða að veruleika. Árum saman hefur verið vonast til þess að af þessu yrði og margir aðilar hafa sýnt áhuga á að setja þar upp starfsemi sem því miður hefur ekki orðið. Það hefur reyndar lengi virst vera svo að það væri ekki spurning hvort heldur hvenær yrði af frekari uppbyggingu á Grundartanga og það er eðlilegt að áhugi þeirra sem horfa til iðnaðaruppbyggingar á Íslandi beinist að Grundartanga. Þar er allt til staðar, landrými, góð hafnaraðstaða, raforkuvirki og stutt í gott vinnuafl.

Þá er mér kunnugt um það að þeir erlendu aðilar sem kynnt hafa sér aðstæður á Grundartanga hafa tekið eftir þeim góða vinnuanda sem ríkir í járnblendiverksmiðjunni þar sem samskipti stjórnenda og starfsmanna eru til fyrirmyndar, enda hefur aldrei komið til vinnustöðvunar þar í þau 20 ár sem sú verksmiðja hefur starfað. Einnig hefur fyrirtækið starfað í góðri sátt við umhverfi sitt og hefur mikinn velvilja meðal íbúa í nærliggjandi sveitum og kaupstöðum. Reyndar hafa sveitarstjórnir á þessu svæði lagt mikla áherslu á frekari uppbyggingu á Grundartanga og gert í því að kynna kosti svæðisins. T.d. rituðu þeir þáv. iðnrh. bréf í maí 1990 þar sem iðnaðarsvæðið á Grundartanga var boðið til nota fyrir álver sem Atlantsálshópurinn svonefndi hugðist þá reisa hér á landi.

Það má minna á að forráðamenn þessara sveitarfélaga, sveitanna sunnan Skarðsheiðar, sendu frá sér fréttatilkynningu í lok janúar þar sem þeir leggja áherslu á jákvætt viðhorf sveitarfélaganna til staðsetningar álvers á Grundartanga að því gefnu að sjálfsögðu að ekki sé dregið á nokkurn hátt úr kröfum um varnir gegn mengun og að þess verði gætt að framkvæmdir við iðjuver verði felldar að landi og umhverfi.

Það hefur einnig komið fram mikill og ótvíræður vilji hins almenna borgara á svæðinu varðandi byggingu álvers á Grundartanga. Þannig rituðu tæplega 3.000 manns undir áskorun þar að lútandi á lista sem lágu frammi í fjóra daga og skoðanakönnun hefur sýnt yfirgnæfandi vilja íbúa á svæðinu til að álverið rísi. Og hvaða ástæður skyldu nú vera fyrir þeirri miklu áherslu sem fólkið í nágrenni Grundartanga leggur á meiri stóriðju á svæðinu? Ástæðurnar eru fleiri en ein og fleiri en tvær. Það má t.d. nefna að fólki virðist líka vel að starfa í þeim tveimur stóriðjufyrirtækjum sem fyrir eru á svæðinu, þ.e. Sementsverksmiðjunni og járnblendiverksmiðjunni sem sést best á því að meðalstarfsaldur manna er þar mjög hár og helst hætta menn þar ekki störfum nema vegna aldurs eða veikinda.

Þá vegur það sjálfsagt þungt að það vantar nýja atvinnustarfsemi á svæðið. Störfum hefur fækkað jafnt og þétt um langt árabil. Fyrir því eru ýmsar ástæður, m.a. sameining fiskvinnslufyrirtækja og fækkun togara á Akranesi, mjólkursamlagið í Borgarnesi hætti rekstri og hvalstöðin í Hvalfirði hefur ekki verið starfrækt í sjö ár. Þá hefur hefðbundin landbúnaðarframleiðsla dregist mjög saman í sveitunum sunnan Skarðsheiðar og þannig munu t.d. tíu bæir á svæðinu frá Borgarfjarðarbrú að Akranesvegamótum vera án framleiðslu og svo er einnig um 12 bæi af 24 í Hvalfjarðarstrandarhreppi. Einnig sjá menn fram á að 40--50 störf munu tapast á veitingastöðum í Hvalfirði og á Akraborginni þegar Hvalfjarðargöngin verða tekin í notkun væntanlega á næsta ári. Afleiðingin af öllu þessu er sú að íbúunum í Borgarnesi, hreppunum sunnan heiðar og á Akranesi hefur fækkað um 5--6% á síðustu tíu árum. Það er því mjög mikið hagsmunamál fyrir íbúa suðurhluta Vesturlandskjördæmis að frekari uppbygging verði á Grundartanga. Verði af byggingu þessa álvers og einnig af stækkun járnblendiverksmiðjunnar munu skapast þar hátt í 200 föst störf auk mikils fjölda starfa við þjónustu við þessi fyrirtæki og starfsmenn þeirra. Það er því eðlilegur sá mikli áhugi sem íbúar sunnan Skarðsheiðar sýna þessu máli.

Að sjálfsögðu leggja allir áherslu á að tryggt verði að fyrirtækin uppfylli þær ströngu kröfur sem settar eru um mengunarvarnir. Til þess höfum við Hollustuvernd ríkisins og hljótum að treysta þeirri ágætu stofnun og þeim sem þar starfa vel til þeirra verka.

Ég held að ótti manna við mengun sé ástæðulaus. Álverið í Straumsvík er í næsta nágrenni við mikið þéttbýli og er ekki að sjá að því fylgi mikil vandamál. Stjórnendur járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga hafa lagt mikla áherslu á að starfa í sátt við umhverfi sitt eins og glöggt má sjá á gróðurfari og dýralífi í nágrenninu, enda er það svo að engar mótmælaöldur risu vegna stækkunar þessara tveggja stóriðjufyrirtækja.

Andstæðingar byggingar álvers á Grundartanga hafa nokkuð gagnrýnt það að gengið hafi verið fram hjá almenningi við undirbúning málsins. Ég er því ósammála og tel þennan undirbúning hafa verið í fullu samræmi við gildandi löggjöf og að almenningur hafi átt alla möguleika á að hafa áhrif á málið á undirbúningsstigi. Þessu til sönnunar vil ég rifja upp örfá atriði varðandi undirbúning málsins.

Það var í lok árs 1988 sem forsvarsmenn sveitarfélaganna sunnan Skarðsheiðar, þ.e. hreppanna fjögurra og Akraneskaupstaðar, fóru þess á leit við Skipulag ríkisins að gert yrði svæðisskipulag sem næði til allra þessara sveitarfélaga. Í framhaldi af því var skipuð samvinnunefnd sveitarstjórnanna og Skipulagsstjórnar ríkisins til að hafa umsjón með verkefninu og réði nefndin Guðrúnu Jónsdóttur arkitekt til að annast skipulagsvinnuna. Það var síðan í september 1993 sem tillaga að svæðisskipulagi fyrir svæðið var auglýst og lá tillagan frammi almenningi til sýnis í sveitarfélögunum fimm í rúman mánuð. Þegar frestur til að gera athugasemdir rann út 19. nóv. 1993 höfðu borist 19 athugasemdir. Í skipulaginu var síðan tekið tillit til margra af þessum athugasemdum en öðrum hafnað. Það er athyglisvert að í því riti sem samvinnunefndin gaf út um skipulagið er gerð grein fyrir helstu atriðum sem athugasemdir voru gerðar við og þar kemur fram að engin athugasemd hafi borist við iðnaðarsvæði á Grundartanga. Það er einnig athyglisvert að lesa II. kafla greinargerðarinnar með svæðisskipulaginu en þar segir í fyrri hluta kaflans sem fjallar um stóriðju og orkufrekan iðnað, með leyfi forseta:

,,Iðnaðarsvæðið á Grundartanga býður að mörgu leyti upp á ákjósanleg skilyrði fyrir frekari uppbyggingu orkufreks iðnaðar. Flutningsgeta núverandi raforkukerfis til svæðisins er t.d. 300 megawött en járnblendiverksmiðjan nýtir aðeins um 70 megawött. Þá getur núverandi Grundartangaveita flutt mun meira vatnsmagn en nú er nýtt. Hafnaraðstaða er fyrir hendi á Grundartanga sem þjónað getur frekari iðnaðarstarfsemi en þar er nú og stækkun hafnarinnar er mjög auðveld. Samgönguæðar á landi að og frá svæðinu eru greiðfærar þannig að fólk af öllu svæðinu getur auðveldlega notfært sér atvinnutilboð á Grundartanga. Nýr vegur frá Brennimel að Grundartanga mundi gera aðgengið að iðnaðarsvæðinu enn betra. Veggöng undir Hvalfjörð mundu og tengja þetta svæði enn betur höfuðborgarsvæðinu og trúlega gera það að fýsilegasta kostinum fyrir stóriðju og orkufrekan iðnað sem völ er á hérlendis.

Þegar tekin er afstaða til stóriðju og orkufreks iðnaðar verður að sjálfsögðu að gæta þess að starfsemin valdi ekki spjöllum á náttúru svæðisins og að framkvæmdir séu felldar vel að náttúrulegu umhverfi. Sennilegt er að frekar ætti að sækjast eftir minni en fleiri fyrirtækjum inn á svæðið þar sem starfsmannafjöldi væri á bilinu 10--50 manns. Hættan á félagslegri röskun er þá minni ef fyrirtækið hætti starfsemi og fjölbreytni í starfsemi hugsanlega meiri.``

Í IV. kafla reglugerðarinnar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Gerð er tillaga um að iðnaðarsvæðið á Grundartanga verði stærra en nú er og hafa mörk þess á uppdrætti verið færð til austurs inn í Hvalfjarðarstrandarhrepps. Þetta er gert vegna þess að svæðið hentar vel sem iðnaðarsvæði og þar hefur nú þegar verið varið miklum fjármunum, t.d. í hafnaraðstöðu sem nýst gætu öflugu athafnasvæði mjög vel. Því er gott að tryggja nú þegar möguleika á meira landsvæði fyrir líka starfsemi. Ganga þarf út frá því að mat á umhverfisáhrifum fari fram í tengslum við ákvörðun um ný iðnfyrirtæki.``

Við þetta koma sem sagt engar athugasemdir. Það er ljóst að á grundvelli þessa skipulags fellur álverið á Grundartanga vel að þeirri stefnumörkun um þróun sveitarfélaganna sunnan Skarðsheiðar sem þarna var mótuð. Það er að vísu sagt að sennilega ætti frekar að sækjast eftir minni en fleiri fyrirtækjum en sagt afdráttarlaust að svæðið verði trúlega fýsilegasti kosturinn fyrir stóriðju og orkufrekan iðnað sem völ er á hérlendis. Það er því alveg ljóst að sú uppbygging sem fram undan er á Grundartanga er í anda þess svæðisskipulags sem íbúarnir höfðu alla möguleika á að gera athugasemdir við en gerðu ekki. Það var því fráleitt gengið fram hjá almenningi við undirbúning þessa máls.

Það hafa komið fram hjá ýmsum, þar á meðal hv. þm. Svavari Gestssyni, efasemdir um staðsetningu álversins og það væri e.t.v. betur staðsett á Keilisnesi. Ég er því ósammála og tek undir það sem segir í því svæðisskipuagi sem ég hef hér vitnað til að Grundartangasvæðið sé trúlega fýsilegasti kosturinn fyrir stóriðju og orkufrekan iðnað sem völ er á hér á landi.

Herra forseti. Ég hef hér farið nokkrum orðum um tvo þætti þessa máls, áhrif álversins á svæðið sunnan Skarðsheiðar varðandi atvinnu og uppbyggingu annars vegar og svo hvernig staðið var að undirbúningi svæðisskipulags og að þar var skýrt gert ráð fyrir frekari stóriðju á Grundartanga. Ég ætla ekki að ræða hér aðra þætti þessa máls. Það kemur til umfjöllunar í iðnn. þar sem ég á sæti og þar verður að sjálfsögðu farið ofan í alla þætti málsins. Eitt af því sem þarf m.a. að skoða er hafnarsamningurinn en drög að honum er fylgiskjal með þessu frv. Það er ákveðinn ágreiningur uppi meðal eigenda Grundartangahafnar sem ég tel að verði að fá niðurstöðu í sem fyrst.

Ég vil að lokum lýsa stuðningi við þetta frv. og vona að framkvæmdir við nýtt álver á Grundartanga hefjist sem fyrst. Ég tel að fyrirhuguð uppbygging á Grundartanga geti skipt sköpum fyrir atvinnulíf og íbúaþróun í sveitarfélögunum sunnan Skarðsheiðar. Ég ítreka það að lokum að ég treysti Hollustuvernd ríkisins til að tryggja að fylgt verði ströngustu kröfum um mengunarvarnir.