Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 15:37:54 (4745)

1997-03-20 15:37:54# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[15:37]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Allri atvinnustarfsemi fylgir mengun og það hafa hv. þm. sem hér hafa talað á undan mér komið inn á, sérstaklega hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sem lýsti því mjög vel og eins hv. þm. Gísli S. Einarsson. Mengunin er í formi efnamengunar, hávaða- og ljósmengunar og sjónmengunar.

Mikið hefur verið rætt um það að ferðamannaiðnaður skaðist vegna þessarar starfsemi, en á það hefur verið bent að ferðamannaiðnaður veldur líka mengun. Hann veldur mengun Við sjáum það t.d. á fjölsóttum stöðum eins og við Mývatn þar sem varla er farandi á sumrin vegna sjónmengunar af ferðamönnum og vegna fjölda ferðamanna. Eins Þórsmörk um helgar á sumrin. Það er bara eins og maður sé staddur í miðri borg. Ferðamannaiðnaðurinn er auk þess láglaunaiðnaður. Það er hvergi í heiminum borgað mikið fyrir það að búa um rúm og ég er ekki viss um að Íslendingar ættu að fara inn á þá braut að gera mikið út á ferðamannaiðnað.

Það yrði skemmtilegt verkefni að bera saman mengun af ýmsum þeim atvinnugreinum sem við höfum og meta þá mengunina sem hlutfall af þeim launum sem við fáum í staðinn eða þann arð sem þjóðin fær af þessum atvinnuvegum og þá er ég að nefna sjávarútveg, sem mengar heilmikið með olíum og öðru slíku, landbúnað, sem mengar með áburði og öðru slíku, stóriðju, sem mengar með útblæstri og efnamengun, og svo ferðamenn, sem valda líka mengun, bæði öll þau farartæki sem flytja á til landsins og um landið og svo náttúrlega sú mengun sem leiðir náttúrlega af mannskepnunni sjálfri eins og hér hefur verið bent á. Þetta væri mjög athyglivert og ágætt að fá fram.

Ef við lítum á alþjóðlega mengun, þá er það ljóst að ál er léttara heldur en t.d. járn. Notkun áls í bílum minnkar eldsneytisþörf bifreiðanna og minnkar þar af leiðandi mengun. Þannig að það má rökstyðja að það að nota ál í staðinn fyrir stál minnki mengun um allan heim ef við lítum á þetta sem heimsborgarar, og það eigum við að gera því að mengun virðir ekki landamæri. Það er sem sagt skynsamlegt að nota ál í bíla í staðinn fyrir járn þannig að ef við ættum að velja, þá ættum við heldur að framleiða ál heldur en járn. Síðan er það spurningin hvar álið er framleitt og þá kemur að því að það er miklu skynsamlegra að nota hreina orku á Íslandi sem ekki veldur mengun, þ.e. orkan sjálf, heldur en að nota brennsluorku, þ.e. kol og olíu í öðrum löndum til þess að framleiða þetta sama ál. Það er því ákaflega skynsamlegt ef við lítum á þetta sem heimsborgarar að framleiða ál einmitt á Íslandi með þeirri hreinu orku sem við höfum og í samanburði við önnur lönd og eins vegna þess að ál er skynsamlegra í t.d. bifreiðar heldur en stál. Þetta var um mengunina.

Herra forseti. Þegar maður lítur yfir þetta frv., þá er það aðallega fólgið í undanþágum frá íslenskum lögum hvað varðar ýmis ákvæði sem íþyngja íslenskum hlutafélögum. Vil ég byrja á að nefna að það er tekin ábyrgð á efndum Skilmanna- og Hvalfjarðarhrepps, á því að þeir efni samninginn. Það er veitt undanþága frá hlutafélagalögum, sum hver eðlileg um búsetu og annað slíkt. Það eru undanþegnar brunatryggingar og viðlagatryggingar og þetta er til frambúðar.

Svo er undanþága frá skattamálum, ekki aðeins að tekjuskatturinn er negldur í 33%, heldur getur fyrirtækið óskað eftir breytingu ef skattar lækka á Íslandi en þeir munu ekki hækka og þetta er til mjög langs tíma, 20 ára. Ég er hræddur um að margt íslenskt fyrirtækið mundi vilja sjá slíka tryggingu til frambúðar.

Það eru sérstakar reglur um arðinn. Hann er öðruvísi en hjá íslenskum fyrirtækjum og að einhverju leyti skattfrjáls, fjárfestingarsjóður er líka settur þarna upp og svo er það sem kannski skiptir mestu máli: Fyrirtækið er eignarskattsfrjálst á meðan allir íslenskir einkaaðilar, bæði einstaklingar og fyrirtæki, borga eignarskatt, en að sjálfsögðu ekki opinberir aðilar. Það tíðkast ekki að láta þá borga skatta eins og önnur fyrirtæki.

Fyrirtækið er undanþegið iðnlánasjóðsgjaldi, iðnaðarmálagjaldi, markaðsgjaldi, það er sérákvæði um fasteignaskatt og sérstakur fasteignaskattur er líka felldur niður og settur inn á eitt form. Stimpilgjaldið er 0,15% og jafnvel 0% í staðinn fyrir að innlend fyrirtæki þurfa að borga allt upp í 1,5%, tífalt meira, í stimpilgjald. Það eru sérstök ákvæði um byggingarleyfisgjald, gatnagerðargjald, skipulagsgjald og svo eru felldir niður tollar og vörugjöld. Hversu mörg innlend fyrirtæki, sem standa í endalausu basli og slagsmálum við skattheimtumenn og opinberan eftirlitsiðnað, mundu ekki vilja sjá slíkar reglur? Fjöldamörg. Og svo eru menn hissa á því að innlend fyrirtæki geti ekki greitt hærri laun og skilað meiri hagnaði.

Það eru einmitt undanþágurnar sem þessi erlendi aðili fær sem sýna okkur hvernig búið er að íslenskum fyrirtækjum og hvernig búið er að íslensku atvinnulífi. Það eru þessar kvaðir sem valda því að íslensk fyrirtæki geta ekki borgað hærri laun en þau gera.

Herra forseti. Ég má til með að tala hérna um fjárfestinguna. Það er dálítið skrýtið að vera á löggjafarsamkundu og vera endalaust að tala um ,,bisniss`` svo ég noti nú það ljóta orð. Við erum hér endalaust að tala um bisniss. Það er Landsvirkjum. Við erum að setja reglur um hana og við erum að tala um raforkuverð. Við erum að setja reglur um álverð og talandi um álverð í heiminum o.s.frv. Virkjanir erum við að ákveða. Við erum að setja reglur um banka og selja þá, einkavæða þá eða búa til nýja banka. Við erum endalaust að tala um bisniss. En ég hélt að ég væri hingað kominn til að setja lög. En það er ekki. Og það er alltaf verið að setja sérreglur fyrir þessi opinberu fyrirtæki eða meira og minna hálfopinberu fyrirtæki, sérreglur, undanþágur frá skatti o.s.frv. og við erum nýbúin að setja sérreglur fyrir opinbera starfsmenn varðandi lífeyrisréttindi. Svona erum við alltaf hreint að huga að þessum opinberu fyrirtækjum og starfsmönnum þeirra og gæta hagsmuna þeirra. Svo er náttúrlega atvinnulífið fyrir utan sem malar niðri í lest einhvers staðar og við erum í yfirbyggingunni og það malar þarna niðri í lest og við vitum ekkert hvað er að gerast þar.

[15:45]

En svo ég snúi mér aftur að fjárfestingunni, aftur að bissnissnum. Hver er fjárfestingin? Heildarfjárfestingin er 32 milljarðar kr. Það er stór upphæð og af því eru 60% á hendi Íslendinga í gegnum Landsvirkjun með ríkisábyrgð. 40% af þessari fjárfestingu á að fást með láni og innlendum og erlendum hluthöfum og svo Columbia Ventures Corporation sem á endanum mun eiga um 8--10% af heildarfjárfestingunni. Þetta er að mínu mati töluvert hættulegt dæmi vegna þess hve bakhjarlinn er veikur.

Af öllum fjárfestingum er ákveðin áhætta. Það þekkja þeir sem hafa komið nálægt raunverulegum bissniss þar sem menn þurfa að taka ábyrgð og standa keikir á bak við sínar ákvarðanir. Þá er ég ekki að tala um opinberar fjárfestingar sem mega fara í hundana eins og Krafla og fleira. Það fylgir því alltaf áhætta og menn þurfa að átta sig á því að það er áhætta í öllum viðskiptum.

Fyrir nokkrum árum var járnblendiverksmiðjan á Grundartanga í verulegum vandræðum. Þar var 700 millj. kr. halli eitt árið ef ég man rétt. Fyrirtæki sem voru eitt sinn gulltryggð fóru á hausinn. Ég nefni þar SÍS, sem á tímabili naut jafnvel betri kjara á erlendum mörkuðum heldur en íslenska ríkið. Þannig að það sem virðist vera tryggt í dag getur verið ótryggt á morgun og í öllum viðskiptum er ákveðin áhætta og það er kallað ,,ruin probability`` eða gjaldþrotalíkur. Þegar menn fara út í viðskipti eru ákveðnar líkur á að þau viðskipti verði gjaldþrota. Það er svo einfalt. Og á því þurfum við að átta okkur í sambandi við þessa fjárfestingu sem við hv. þm. ætlum að taka ákvörðun um að fara út í. Af því að við stundum hér bissniss.

Trygging liggur ekki fyrir fyrir raforkukaupum. Hún liggur ekki fyrir. Það er ekki tryggt að við getum selt þessa raforku. Ég vil benda á að þær virkjanir sem við erum að fara út í eru jafnmiklar og þreföld Blanda sem malaði í lausagangi, og malar reyndar enn í lausagangi, öllum til armæðu og vandræða og hefur kostað Landsvirkjun óhemju fé í formi vaxta. Hér erum við að taka áhættu um að fara út í miklar framkvæmdir sem hugsanlega geta þá malað í lausagangi og við þurfum þá ef til vill að selja raforku á útsölu ef svo illa skyldi vilja til.

Á það er bent að þessi verksmiðja sé í flokki allra þeirra 25% verksmiðja í heiminum sem framleiða ódýrast. Það ætti að gera okkur dálítið rólegri varðandi þá áhættu sem ég nefndi áðan. Þannig að það þarf ýmislegt að gerast áður en þessi verksmiðja fer á hausinn. Það er þá jákvætt og gjaldþrotalíkurnar væntanlega þeim mun minni. En ég vil benda á það að þegar við förum út í fjárfestingu þá er áhætta og hún er til staðar. Hún fer ekki neitt, það þurfum við að hafa í huga.

Vegna þess hvað fyrirtækið hefur lítinn bakhjarl og hvað þessi fjárfesting okkar er stór hluti af þessu, þá hef ég haft mjög miklar efasemdir um þessa fjárfestingu, sérstaklega eftir að svo virtist sem stækkun járnblendiverksmiðjunnar væri fyrir bí. En eftir að ákveðið hefur verið að stækka hana hefur afstaða mín til þessa máls breyst. Það er nefnilega þannig að þegar við höfum tvö verkefni til að borga raforkuna þá minnkar áhættan aftur. Þá er áhættunni dreift og þá eru minni líkur á því að þau fari bæði á hausinn og eiginlega engar eða mjög litlar. Sérstaklega með það í huga að bakhjarlinn við járnblendiverksmiðjuna er mjög styrkur í dag. Það getur náttúrlega farið fyrir honum eins og SÍS á sínum tíma en hann er styrkur í dag. Ég held að áhættan minnki mikið við það að þarna eru tveir aðilar sem kaupa orku. Vegna þess hafa efasemdir mínar um þessa framkvæmd minnkað þannig að ég styð þetta núna með hliðsjón af því að við erum jú að auka atvinnu.

Herra forseti. Það er mjög mikilvægt að við stundum og stuðlum að atvinnusköpun. Við getum ekki horft upp á það af ótta við mengun og annað slíkt að við gerum ekki neitt, hvorki í sjávarútvegi, landbúnaði né í stóriðju eða í iðnaði. Við verðum að velja og hafna og mér sýnist að þessi tvö fyrirtæki eða þetta álver, sé ekki slæmur kostur. Þetta er hátekjuiðnaður. Hann veldur jú mengun en hún er ekki óviðráðanleg.

Það liggur reyndar hér fyrir Alþingi till. til þál. um að athuga nýtingarmöguleika á þessari mengun. Það er jafnvel til möguleiki, efnafræðingar hafa bent á það, að nýta megi mengunina frá álverinu til að búa til eldsneyti sem mengar miklu minna en bensín. Þetta er hlutur sem þarf að kanna, sérstaklega þegar notaður er sá hiti sem þarna er til staðar. Það má vel vera að á endanum, með því að nota hugvit og þekkingu, þá megi snúa dæminu við þannig að þessi svokallaða mengun sem menn óttast svo mikið geti snúist í það að minnka mengun, þ.e. varðandi útblástur.

Við þurfum að huga að því ekki bara að fá stóriðju til landsins heldur að huga líka að þeim fyrirtækjum sem eru í landinu. Við þurfum að fara í gegnum þær undanþágur sem við erum að veita þessu erlenda fyrirtæki og spyrja okkur hvort við getum ekki haft fyrir íslensk fyrirtæki nákvæmlega sömu reglur á sviði skattamála, eftirlitsmála o.s.frv. þannig að við léttum þessum hlekkjum af innlendu atvinnulífi. Það finnst mér vera næsta skref, að fara í gegnum þessi skattalög og eftirlitslög og athuga hvort ekki megi létta einhverju af innlendum fyrirtækjum til samræmis við það sem menn telja sig nauðbeygða til að veita erlendum fyrirtækjum hér á landi til að fá þau til landsins.

En það sem við þurfum fyrst og fremst að gera til að bæta stöðu atvinnulífs á Íslandi er að bæta menntakerfið sem sér atvinnulífinu á Íslandi fyrir vel menntuðu fólki og við þurfum að laga fjármagnsmarkaðinn sem að mestu leyti er í eigu ríkisins, 95% í eigu opinberra aðila eða hálfopinberra aðila og bent hefur verið á að sé mjög mikið helsi á íslensku atvinnulífi. Þetta eru þau atriði sem ég held að við þurfum að snúa okkur að eftir að við erum búin að setja upp þessa stóriðju sem hér er stefnt að.