Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 15:57:39 (4748)

1997-03-20 15:57:39# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[15:57]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Aðeins þetta dæmi um losun á koltvíoxíði í sambandi við þessa ráðgerðu álverksmiðju þá er um að ræða mikið magn, um 370 þús. tonn á ári. Skógræktarátakið og uppgræðslan, ég nefni það hér vegna ábendingar hv. þm., uppgræðslan sem verið er að verja til 450 millj. kr. á nokkurra ára bili til átaks í landgræðslu og skógrækt gefur aðeins 1/17 hluta af því sem þarna losnar. Þetta segi ég til þess að menn fái eitthvað til samanburðar.

Í öðru lagi að minnka áhættuna frá orkuframleiðslunni. Ef raforkufyrirtækin eru þarna, eru komin og eru til staðar, þá eru menn með umframframleiðslugetu í gangi eða til staðar og búnir að fjárfesta í þessu. Þannig að mér finnst ekki augljóst að það minnki áhættuna. Það getur gert það að einhverju leyti, ég viðurkenni það. Varðandi metanól, þá er það alveg rétt hjá hv. þm. að ef við framleiðum það í einhverjum mæli til nýtingar hér innan lands í staðinn fyrir innflutt eldsneyti þá gagnast það til tekna fyrir okkur og er að því leyti athyglisvert mál. Þetta var til athugunar 1979 þegar ég sat í iðnrn. og var að skoða hlutina eftir gífurlega hækkun á heimsmarkaðsverði á olíu, en reyndist þá því miður ekki þannig að það væri farið að byggja lengra eða koma með hugmyndir um einhverja stórframleiðslu. En við fórum yfir dæmið og það liggur fyrir úttekt á því frá þeim tíma og vafalaust hefur verið farið yfir það síðan.