Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 15:59:30 (4749)

1997-03-20 15:59:30# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[15:59]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. 16. þm. Reykv. ræddi, eins og margir aðrir, dálítið um mengun. Hann vék að ýmsum hliðum mengunar eins og menn hafa margir gert á undan honum í anda orðtaksins fræga ,,svo skal böl bæta að benda á annað verra``. Hann t.d. nefndi þá orðsendingu sem barst frá Orkustofnun í hita leiksins þar sem bent var á að mengun af völdum 110 þús. ferðamanna, ef ég man töluna rétt, væri álíka og mengun af 60 þús. tonna álveri. Ég held ég muni nokkurn veginn hvernig þetta var. Það kom reyndar í ljós við athugun að ekki hafði verið haft fyrir því að taka með í reikninginn mengun af flutningum til eða frá álverinu en þeir höfðu sannarlega munað eftir því þegar um ferðamennina var að ræða þannig að það sýnir hugarfarið á bak við. Hann minntist á mengun í sjávarútvegi, mengun í landbúnaði, mengun í ferðaþjónustu og svo sannarlega er mengun og landspjöll af ýmsu því sem maðurinn fæst við. Hv. þm. Gísli S. Einarsson játaði á sig mengun og sagði: Það menga allir. Það er alveg hárétt. Mengun eru landspjöll, það eru umhverfisspjöll af ýmsu sem maðurinn gerir. En það er ekki afsökun, það er ekki fjarvistarsönnun í þessu máli. Við eigum að bæta okkur í öllum þessum atriðum og ég vil spyrja hv. þm. hvað hann vilji gera í þeim efnum. Hvað eigum við að gera t.d. í sambandi við ferðamennskuna? Hefur ekki hv. þm. frétt af því að það eru ný viðhorf í ferðamennsku? Menn vilja leggja meiri áherslu á græna ferðamennsku og fleira í þeim dúr.