Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 16:01:52 (4750)

1997-03-20 16:01:52# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[16:01]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég benti einmitt á að það væri mjög mikilvægt að fara að gera sér grein fyrir því hvað mengar mest og hvað skilar okkur mestum hagnaði í launum eða einhverjum slíkum skilningi. Fyrsta skrefið í því að reyna að taka á mengun gæti verið að finna hvar hún myndast, hvar getum við skorið niður án þess að skaða þjóðfélagið. Það getur vel verið að eitthvað allt annað en stóriðja kæmi út úr því dæmi þegar grannt væri reiknað.

En menn vita í sjálfu sér mjög lítið um það eins og kom fram hjá hv. þm. um skilaboðin frá Orkustofnun. Menn vita í sjálfu sér mjög lítið um mengun af ferðaþjónustu, eitthvað meira um mengun af völdum sjávarútvegs og kannski vita menn langmest um mengun af völdum stóriðju þó að ekki séu öll kurl komin til grafar. Mér finnst sjálfsagt að athuga þetta og athuga hvað það kostar að minnka mengunina t.d. af bílafumferð, t.d. með því að rækta upp skóga og annað slíkt. Þetta er verkefni sem við gætum farið út í og þurfum að gera það og ég geri ráð fyrir að þjóðir heims muni gera það í framtíðinni.

Það er verið að tala um að setja mengunarskatta á útblástur og annað slíkt og það er kannski langbesti hvatinn til að minnka mengunina því það mundi stýra allri framkvæmd mannkynsins inn í form sem veldur minnstri mengun ef fundið er út hvað ákveðin virkni veldur af mengun og hún sé skattlögð samkvæmt því.