Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 16:33:28 (4756)

1997-03-20 16:33:28# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[16:33]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson veit þá er starfsleyfið miðað við 180 þúsund tonn en samt sem áður er gert ráð fyrir því að ef um stækkun verður að ræða umfram 60 þúsund tonn þarf að fara fram nýtt umhverfismat. Ég geri ráð fyrir því samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef eftir kannanir í umhvn. að þá gætum við skilyrt t.d. þá stækkun með vothreinsibúnaði þannig að að þessu leyti skiptir kannski ekki máli hvort þetta starfsleyfi er gefið strax út upp á 180 þúsund tonn eða 60 þúsund tonn hvað varðar þennan þátt í hreinsun á verksmiðjunni.

Mér finnst það dálítið spennandi spurning hvort einhver annar atvinnurekstur en stóriðja ætti að fá þetta svigrúm hér heima varðandi alþjóðasamþykktir. Maður veltir því þá fyrir sér hvaða atvinnurekstur það ætti að vera. Við erum búin að fullnýta fiskstofnana þannig að það mun ekki verða þar. Ef eitthvað er þá mun skipum fækka og þau munu stækka. Á öðrum sviðum eins og t.d. í landbúnaði er ekki um auðugan garð að gresja, því miður. Í ferðamennsku verður vaxandi iðnaður en ég álít að þessari svokölluðu mengun sem kemur frá lifandi verum verði hægt að stjórna mun betur en annarri og þó um hv. þingmenn sé að ræða sem lýstu hér yfir mikilli mengun sjálfra sín. Ég held að ef við færum að skoða það grannt hvernig ættum við að nota það svigrúm sem við höfum, þá gæti þetta náttúrlega verið einn kosturinn, þetta er alla vega sá kostur sem við sjáum í stöðunni. (HG: Þeir eru þegar fram úr.) Það er eftir því hvernig við bregðumst við mengunarvandamálum frá þessu, hvað við verðum strangir í kröfunum og er ég alveg sammála því að við mættum vera strangari ef eitthvað er.