Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 16:47:01 (4758)

1997-03-20 16:47:01# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[16:47]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta var ekta framsóknarræða með nákvæmlega sömu einkennunum og hjá ráðherranum nema að því leyti daprari að hér talar þingmaður sem er formaður í umhvn. þingsins og hefur látið svo í veðri vaka og hefur reynt að koma því á framfæri við almenning í landinu að hann bæri þetta eitthvað sérstaklega fyrir brjósti. Síðan kemur viðkomandi hv. þm. og talar tungum hæstv. iðnrh. í sambandi við þetta: Nýtum upp hina hreinu orku okkar sem fyrst í sambandi við áliðnað og annað þess háttar, það er allt í lagi því þessi iðnaður mengar ekkert til skaða, reynslan er ólygnust, segir hv. þm. Þetta er boðskapurinn. Þetta er alvaran þegar búið er að taka hismið utan af. Þetta er hörmulegt, virðulegur forseti. Það er hörmulegt á þetta að hlýða. Svo er verið að læða því að hér að við séum að leysa eitthvert heimsvandamál með því að flytja þessa gömlu álbræðslu frá Töging í Bæjaralandi hingað upp á landið af því að það mengi tíu sinnum meira að framleiða með kolum. Ég veit ekki betur en þessi Töging-álbræðsla hafi gengið fyrir vatnsafli sem var þarna við hliðina, byrjaði sína starfsemi 1920. (ÓÖH: Það var ekki orð sagt um þessa verksmiðju heldur almennt.) Hvað um Elkem? Ætli Elkem, sem er að flytja upp á Grundartanga, sé að flýja undan kolaorku í Noregi? Það er mér ekki kunnugt um. Ég veit ekki betur en þeirra fabrikkur hafi gengið fyrir vatnsafli. Þetta er slík rökleysa sem hér er fram borin, virðulegur forseti, að undir því er auðvitað ekki hægt að sitja þegjandi. Síðan er reynt að strjúka í leiðinni sumarbústaðaeigendur og þá sem hafa tilfinningar í málinu; jú allt þetta skilur Framsfl. en hann ætlar bara áfram með sína stóriðjustefnu. Það hefðu margir sem töluðu úr þessum stól fyrr á tíð snúið sér við þar sem þeir liggja ef þeir mættu á hlýða.