Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 16:49:30 (4759)

1997-03-20 16:49:30# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[16:49]

Ólafur Örn Haraldsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson bar fram gamalkunnar yfirlýsingar í gamla pólitíska andanum. Ég lagði fram hér ákveðnar staðreyndir og fullyrðingar um mengun umhverfis álverið í Straumsvík og járnblendiverksmiðjuna og sagði að engar staðreyndir hefðu komið fram sem sýndu fram á að þar hefði orðið mengun sem ylli spjöllum á lífríkinu. Þessu svaraði þingmaðurinn ekki enda hefur hann engar rannsóknir og engar staðreyndir sem hann getur bent á sem mark er á takandi sem sýna fram á þetta. Hann sagði að ég hefði sagt ,,reynslan er ólygnust``, hér væri um framsóknarmennsku að ræða. Af hverju svarar þingmaðurinn þessu ekki? Af hverju leggur hann ekki á borðið og fram í þinginu staðreyndir sem hægt er að taka mark á? Hvers vegna getur hann ekki, eins og við, tekið mark á þeim upplýsingum sem vísindamenn okkar leggja fram? Trúir hann ekki vísindamönnunum? Telur hann þá ekki heiðarlega eða starfi sínu vaxna?

Ég skora á þingmanninn að gera þetta og upplýsa hvert viðhorf hans til þessa er því ef hann trúir þessum vísindamönnum, eins og ég geri, hlýtur hann að hafa komist að þeiri niðurstöðu að sú mengun sem kemur frá fyrirhuguðu álveri á Grundartanga er innan þeirra marka sem við getum sætt okkur við. Hins vegar eru ýmis mál sem við þurfum að horfa til framtíðarinnar og kemur mjög fram í þeirri gagnrýni sem sett er fram í skýrslu meiri hlutans sem var lögð hér fram. Þar kemur fram mjög mikil gagnrýni í okkar eigin garð, okkar sem ráðum þessum málum þegar til framtíðar er horft. Þar er hvatt til framtíðarstefnu sem taki mið af þeim varnaðarorðum sem ég get ekki endurtekið hér vegna skorts á tíma til ráðstöfunar er.