Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 16:51:41 (4760)

1997-03-20 16:51:41# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[16:51]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Stefnu til framtíðar. Eftir hverju er hv. þm. að bíða? Hann segir að þetta sé allt í besta lagi. Þarf hann þá að breyta því? Af hverju tekur hv. þm. ekki höndum saman með þeim sem vilja standa vörð um íslenskt umhverfi og beita þar m.a. þeirri varúð sem er nú orðið meginleiðarljós í alþjóðaumræðu um þessi mál?

Hv. þm. spyr um rannsóknir. Hvort ég trúi ekki vísindamönnum okkar. Hvað var hv. þm. að gera þessar vikur í umhvn.? Ég varð vitni að því að þar var dregið fram, sem menn máttu vita sem til þekktu fyrir, að það eru einmitt rannsóknir sem hafa verið vanræktar á öllu þessu tímabili. Í fyrsta lagi grunnrannsóknir á lífríki og öðrum umhverfisþáttum til þess að hafa tryggan samanburð til að meta áhrif rekstrar á lífríkið. Og í öðru lagi úttektir á því hvað gerst hefur. Þetta veit hv. þm. að sjálfsögðu. Á þessu bera þeir ábyrgð sem hafa ráðið þessum málum að undanförnu og þeir sem hafa staðið fyrir því að knýja hér fram ákvarðanir um stóriðju án þess að tryggja í leiðinni að fylgt sé eftir bæði upplýsingasöfnun í formi rannsókna sem og eftirliti og þar höfum við stöðu Hollustuverndar ríkisins sem lýsandi dæmi. Hvað á að gera? Ætla menn að bæta úr því? Ekki hef ég orðið var við neinar efndir í þeim efnum. Hvað var gert við síðustu fjárlagagerð? Ekki nokkur skapaður hlutur.