Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 16:53:40 (4761)

1997-03-20 16:53:40# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[16:53]

Ólafur Örn Haraldsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég bað hv. þm. Hjörleif Guttormsson um að koma með staðreyndir. Engar. Það eina sem þingmaðurinn sagði um þær efnislegu staðreyndir sem ég hef nefnt var að engar rannsóknir hefðu verið gerðar. Það er rétt að það hefur skort grundvallarrannsóknir, en það hafa líka verið gerðar rannsóknir og glöggt er líka auga þeirra sem búa nærri þessum iðjuverum. Fólk sem býr í nágrenni Straumsvíkur og fólk sem býr umhverfis járnblendiverksmiðjuna. Ekkert af þessu vitnar um að þessi iðjuver valdi varanlegum skaða á lífríkinu umhverfis. Það var umhverfis Straumsvík á meðan mengunin var jafnmikil og ég nefndi áðan en síðan er þess ekki vottur, a.m.k. ekki þannig að það komi fram.

Ég ætla að láta það koma fram vegna þess að hér er talað um rannsóknir að í samvinnu við álverið í Straumsvík hefur verið gerð rannsókn frá 1968 og þetta veit þingmaðurinn vel. Frá 1968 hefur verið rannsakað flúormagn umhverfis Straumsvík og það hefur komið í ljós að þau gildi sem fást núna eru þau sömu og voru áður en álverksmiðjan var byggð, svo góðar eru þær mengunarvarnir. Og að vera að vísa þessu á bug með engum rökum, eins og hér var reynt að gera, sú umræða er ómálefnaleg og ég hefði talið að þingmanninum, sem vill láta taka mark á sér sem nákvæmnismanni í þessum efum, hefði verið sæmara að svara þessu og sýna fram á með rökum að ég færi með rangt mál. Hann svaraði heldur ekki spurningum mínum hvort hann tryði íslenskum vísindamönnum sem hafa fullyrt í eyru okkar í umhvn. að þetta sé innan þeirra marka sem við getum sætt okkur við. (HG: Hvaða vísindamenn?) Virðulegi forseti. Hér lýk ég máli mínu en við fáum tækifæri til að ræða þessi mál öll betur um leið og ég ítreka að ég þakka öllum þeim sem unnu að skýrslunni með okkur í umhvn. og studdu allan þann vandaða tilbúnað sem að baki þeirri skýrslu býr.