Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 17:04:35 (4766)

1997-03-20 17:04:35# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[17:04]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. fyrir mjög málefnalega umræðu við 1. umr. málsins og vonast auðvitað til að það muni halda áfram þegar það kemur til umfjöllunar iðnn. þingsins og síðan aftur við 2. umr. Auðvitað er eðlilegt að mönnum sýnist sitt hvað í þessum efnum en ég tel hins vegar að sú umræða sem hér hefur farið fram hafi verið mjög málefnaleg og varpi líka ágætu ljósi á málið.

Það eru nokkrar spurningar sem einstakir hv. þm. hafa beint til mín við umræðuna. Ég ætla að reyna að svara þeim eftir því sem ég get en tek það fram að þegar málið verður til umfjöllunar í iðnn. verða öll þau gögn sem þingmenn óska eftir að fá þar til umfjöllunar lögð fyrir nefndina og ráðuneytið mun eftir því sem kostur er og óskað verður eftir veita þá aðstoð sem frekast er unnt.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson spurði fyrst varðandi 9. gr. frv. sem snýr að framsalinu, hvað þar væri átt við. Þar er átt við að framsal réttinda og skuldbindingar aðila samkvæmt samningnum eru háð samþykki aðilanna og þá er gert ráð fyrir því, eins og hér er orðað einhvers staðar í grg., að ekki skuli synjað um slíkt samþykki með ósanngjörnum hætti. Þrátt fyrir þetta er fyrirtækinu Norðuráli hf. heimilt að framselja réttindi og skyldur, sem samningurinn er, til fjármálastofnana sem tryggingu fyrir fjármögnun. Út frá því er gengið. En ríkissjóður skal samþykkja framsalið til sérhvers aðila sem um ræðir og þá um leið verði gengið eftir tryggingum í þeim efnum. Ég held að þetta hafi verið eina spurning hv. þm. Sighvats Björgvinssonar.

Hv. þm. Svavar Gestsson spurði hins vegar nokkurra spurninga og lét við upphaf málsins í ljós óánægju sína með að ekki kæmi fram, hvorki í frv. né í framsöguræðu minni, nógu skýr stefna til atvinnumálanna í heild sinni. Það er alveg rétt að ég gerði ekki grein fyrir þeirri sýn sem ég hef um framtíðaruppbyggingu atvinnulífs á Íslandi við þessa umræðu og taldi hana kannski ekki alveg rétta vettvang. Hins vegar er ég alveg tilbúinn til þess að fara hér fáum orðum um það núna af því ég var spurður.

Eitt af því er, og það veit ég að hv. þm. Svavar Gestsson veit, að nú hefur Ísland verið að fá hærri lánshæfiseinkunn að mati erlendra lánastofnana heldur en nokkru sinni fyrr. Í fyrra hækkaði þetta upp í A+ og við eigum von á því að fá, jafnvel á þessu ári líka, enn frekari hækkun á lánshæfismati. En það hefur komið skýrt fram frá þessum alþjóðlegu stofnunum sem hafa verið að veita okkur þetta lánshæfismat að það væri einkum tvennt sem stæði í vegi fyrir því að lánshæfismat Íslands hækkaði frekar. Annars vegar það að Íslendingar búa við mjög einhæft atvinnulíf og svo hitt að á nokkrum sviðum, eins og í fjármálaumhverfinu og orkumálum, er skortur á samkeppni. Breyting á þessu tvennu mundi leiða til þess að lánshæfismat Íslands gæti hækkað enn frekar. En þá er kannski rétt að gera sér líka grein fyrir því hvað það þýðir að Ísland fái betra lánshæfismat. Það þýðir að í kjörum Íslands út á við fáum við betri vaxtakjör á okkar lánum. Það á síðan að skila sér til landsins í bættum kjörum bæði fyrir fólk og fyrirtæki.

Þetta minnist ég nú á hér vegna þess að ég vil hafa þetta sem inngang að því sem ég ætla síðan að segja. Út frá þessu hef ég í raun og veru unnið þegar maður er að velta fyrir sér hvernig stefnu í atvinnumálum við eigum að móta til framtíðar. Ég hef síðan, í góðri samvinnu við Samtök iðnaðarins, farið í heimsókn í öll kjördæmi í landinu á þessum vetri þar sem ég hef átt fundi með fyrirtækjum og fulltrúum samtakanna til þess að kynna þá atvinnustefnu á þessu sviði sem ég hef tök á og stýri, hver væri sú framtíðarsýn sem við hefðum á sviði iðnaðar og orkumála og almennt til atvinnumálanna og þar hafa Samtök iðnaðarins einnig verið að kynna sína framtíðarsýn.

Þegar við horfum á hlutfall vöru og þjónustugreina í útflutningi árið 1995, eins og þessi mynd sýnir, þá kemur í ljós að sjávarafurðir eru með í kringum 51% af öllu. Það er gríðarlega hátt hlutfall og ég tek það fram að hér er bæði um þjónustu og vöru að ræða. Hér er ekki bara um vöruútflutninginn að ræða heldur líka þjónustuna. Margir flaska á því og segja að þetta sé miklu hærra hlutfall, 75--80%. Það er þannig í vörunum en þarna kemur þjónustan inn í. Síðan kemur næststærsti þátturinn í þessu, það er ferðaþjónustan sem hefur verið að vaxa gríðarlega á undanförnum árum og er með í kringum 11%. Síðan er það ál og kísiljárn sem er í kringum 10%. Aðrar iðnaðarvörur eru í kringum 5%, samgöngurnar í kringum 5% og ýmis þjónusta er í kringum 8%. Það er svo merkilegt að varnarliðið skapar okkur tekjur í þessu sambandi upp á um 5% sem þjónusta. Þegar menn velta því fyrir sér, og við göngum út frá því að þannig sé, að til þess að bæta lánshæfismat Íslands þurfum við að fara út í ákveðnar aðgerðir á þessu sviði sem er m.a. að auka fjölbreytni atvinnulífsins.

Þá hef ég sett þá vinnu í gang í ráðuneytinu og þá stefnumótun af stað sem byggir á þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að menn hafi ákveðna framtíðarsýn í þessum atvinnumálum og velti því fyrir mér hvernig þetta muni nú geta litið út árið 2005 --- það er skammt undan og menn þurfa auðvitað að horfa til miklu lengri tíma, en hvernig getum við haft áhrif á þessa þætti þannig að árið 2005 hafi menn ákveðna framtíðarsýn fram til þess tíma? Þá þyrfti álversframleiðsla í landinu að vera í kringum 400.000 tonn á ári. Erum við nú mikið langt frá þessu? Nei, við erum ekkert óskaplega langt frá þessu. Við erum að tala um að framleiða 160.000 tonn af áli í álverinu í Straumsvík. Heimild til þessa fyrirtækis, sem við erum núna að flytja hér lagafrv. um, er í umhverfismati upp á framleiðslu upp á 180.000 tonn.

Stækkun járnblendisins og magnesíumverksmiðja, ef hún kæmi hugsanlega til. Stækkun járnblendisins hefur gengið eftir. Vonandi gengur þetta líka eftir með byggingu Columbia-fyrirtækisins á Grundartanga. Síðan geng ég út frá því að við getum tvöfaldað gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum á þessum sama tíma. 8% árlegum vexti almennrar iðnaðarvöru, og þar á ég við það sem ég flokka undir almenna iðnaðarvöru, einmitt vörur á því sviði þar sem við höfum verið að ná alveg gríðarlega góðum árangri á undanförnum tveimur árum, í lyfjaframleiðslu, í hugbúnaðargerð og þar fram eftir götunum. Fyrir utan það að við eigum býsna mikil tækifæri í útflutningi á ýmiss konar þekkingu frá landinu. Við setjum því ekki markið hátt þegar við setjum það þarna þar sem t.d. ferðaþjónustan hefur verið að aukast um 10% á ári. Síðan gerum við ráð fyrir því að það verði 8% árlegur vöxtur í annarri þjónustu, 2% árleg verðmætaaukning í sjávarafurðum og 2% árlegur vöxtur annarrar iðnaðarvöru.

Til þess að ná þessu fram verðum við að beina athyglinni og þeirri vinnu sem við erum með í gangi að því að ná þessum markmiðum. Gengi þetta nú allt saman eftir, sem ég tel að geti gerst, þá er það svo að framtíðarsýnin árið 2005 lítur svolítið öðruvísi út. Þá verða sjávarafurðirnar, ekki af því að við höfum dregið úr þeim heldur vegna þess að við höfum bætt aðra þætti svo miklu meira en sjávarafurðirnar, komnar niður í 36%. Þetta segir manni hvers konar rosalegt átak þarf til til þess að koma upp annarri atvinnustarfsemi í landinu þannig að við í raun og veru getum byggt á fleiru og meiri fjölbreytileika en bara í sjávarafurðunum. Þá verðum við komin með álframleiðsluna upp í 19%. (Gripið fram í: Og stóriðjuafurðirnar allar.)

[17:15]

Nei, ekki allar stóriðjuafurðirnar vegna þess að til viðbótar við þetta væri síðan kísiljárnið 5% þannig að það verður komið í 23% úr u.þ.b. 10%--11% sem það er í dag. Ferðaþjónustan hefur vaxið líka, kannski ekkert óskaplega mikið, 13%, en hefur vaxið. En þarna fáum við þá niðurstöðu að lánshæfismat Íslands hækkar með þessari auknu fjölbreytni sem skilar sér til þjóðarinnar, bæði fólks og fyrirtækja, í hagstæðari kjörum.

Nú gefst mér því miður ekki tími til að fara nákvæmlega í einstaka þætti þessarar atvinnustefnu en þessi atvinnustefna er til. Hún hefur verið kynnt fyrir fyrirtækjunum í landinu á þessum vetri og því verður haldið áfram. Þetta ætla ég að láta nægja að sinni, vegna þess að ég sé því miður að tíminn hleypur frá mér, sem svar við þessari fyrstu spurningu hv. þm. Svavars Gestssonar.

Hv. þm. spurði um 3. gr. Það er mitt mat að óþarfi sé að afla heimilda til frekari ábyrgða af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég bið hins vegar um að þetta mál verði sérstaklega skoðað í hv. iðnn. og það var það sem hv. þm. var raunverulega að fiska eftir í þessari umræðu.

Varðandi 6. gr. í frv. sem snýr að reikningsskilareglunum. Samkvæmt þeirri grein verður félaginu heimilt að semja um sérstakar reikningsskilareglur sem grundvallast algjörlega á íslenskum lögum að því leyti til að allar skýringar og allt verði nákvæmlega eins og er íslenskum reikningsskilavenjum í dag. En félaginu verður heimilt að skrá allar færslur líka í bandarískum dollurum og er það í samræmi við þær alþjóðlegu reikningsskilareglur sem eru til staðar. En samkvæmt greininni verður líka hægt að semja um undanþágur frá notkun á verðbreytingastuðli við ákvörðun söluhagnaðar, fyrningagrunns og verðbreytingafærslna. En þetta leiðir ekki til þess að fyrirtækið geti á nokkurn hátt komist undan að greiða skatta hér á landi.

7. gr. er um gerðardómsákvæðin. Ég vil taka fram að almenna reglan er sú að farið verður að íslenskum lögum við uppbyggingu, túlkun og framkvæmd samningsins. Ef annar hvor aðilinn vill af einhverjum ástæðum ekki leita til íslensks dómstóls með ágreiningsmál þá verður heimilt að vísa málinu til gerðardóms sem mun starfa á grundvelli gerðardómsreglna sem eru gerðardómsreglur gerðardómsstofnunar verslunarráðsins í Stokkhólmi. Af hverju eru þær valdar? Jú, vegna þess að þær reglur eru að stofni til áþekkar þeim íslensku en miklu nákvæmari og þess vegna er þetta valið. Síðan er gert ráð fyrir oddamanni í gerðardóminn og þá göngum við út frá því að hann sé skipaður af Héraðsdómi Reykjavíkur. --- Tungumálið? Málið verði rekið á Íslandi, í Reykjavík, en tungumálið verði enska.

Hv. þm. spurði hvaða upphæðir það væru sem um er að ræða að fyrirtækinu verði veitt í afslátt í 8. gr. Þar er ekki um neinar upphæðir að ræða heldur fyrst og fremst að allar þessar fjárfestingarvörur eru undanþegnar tollum eins og nú er. En út af ýmsu því sem í tollalögum er, og þessu erlenda fyrirtæki var kunnugt um, þá var það ósk fyrirtækisins að það kæmi alveg skýrt fram, eins og reglan er á EES-svæðinu að fjárfestingarvörurnar væru undanþegnar og það er bara ítrekað hér í þessari grein. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Því miður á ég ósvarað nokkrum spurningum enn þá. Ef ég man rétt á ég eftir að fá að tala einu sinni enn í málinu. Ég ætla að ljúka máli mínu nú og óska eftir að fá að taka aftur til máls til að geta svarað þeim spurningum sem til mín var beint.