Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 17:20:30 (4767)

1997-03-20 17:20:30# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[17:20]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ríkisstjórn Íslands er að sönnu sögð fjölskipað stjórnvald en á sumum sviðum ber hún þó sameiginlega ábyrgð og hefur kannski skipt henni með sér. Það er eðlilega gengið að hæstv. umhvrh. varðandi þá hagsmuni sem snúa að ráðuneyti hans og því sem hann fer með. En það er ekki sanngjarnt að krefja ekki aðra ráðherra, sem eru ábyrgir yfir sínu málasviði og hafa tekið þátt í stefnumótun af hálfu ríkisstjórnar, svara við því hvernig þeir ætla að tryggja að staðið verði við þær skuldbindingar sem Ísland sem heild hefur undirgengist. Og nú er Ísland aðili að rammasamningi Sameinuðu þjóðanna, alþjóðasamningnum um loftslagsbreytingar eins og hann er kallaður. Þessi samningur kveður svo á að við eigum ekki að losa meira af gróðurhúsalofttegundum árið 2000 en gerðist 1990. Við erum þegar komin fram úr þessum mörkum eða stefnum fram úr þessum mörkum án þess að tekið sér tillit til þeirra stóriðjufyrirtækja sem hér um ræðir. Að teknu tilliti til þeirra þá stefnir í að Ísland bæti við, þeirra vegna, 19% af grunni 1990 plús kannski 5% af öðrum ástæðum þannig að hér stefnir í algert óefni. Fram undan er að ganga frá lagalega skuldbindandi samningi fyrir lok þessa árs og þar sem sama viðmiðunarár verður væntanlega gildandi 1990. Hvernig ætlar iðnrh. fyrir sitt leyti að axla þær skuldbindingar fyrir sitt málasvið sem felast í þessum samningi, þá hörðu kosti sem menn standa frammi fyrir í þeim efnum?