Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 17:22:57 (4768)

1997-03-20 17:22:57# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[17:22]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Sá samningur sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson vitnaði til hefur ekki skuldbundið okkur lagalega. Það er hins vegar rétt sem fram kom hjá hv. þm. að nú er umræða í gangi um að taka upp slíkar lagalega skuldbindandi ákvarðanir og nefnir hv. þm. lok þessa árs. Ég er ekki farinn að sjá að um slíkt myndist samkomulag. Ég held að mjög mikið sé órætt í þeim efnum. Ég viðurkenni það hins vegar alveg fúslega, og tek undir með þeim sem hér hafa talað, að menn þurfa að ganga varlega um í þessum efnum. Við hljótum samt að ætla að nýta þessa mikilvægu auðlind okkar sem orkan er og þeir sem ekki eru tilbúnir til að nýta þau tækifæri í atvinnumálum, í verðmætasköpun í landinu til að bæta lífskjörin og að nýta þessa náttúrlegu auðlind sem við eigum, verða auðvitað að svara þeirri spurningu: Á hverju ætlum við að lifa hér í landinu ef við ætlum ekki að nýta okkur þessi tækifæri? Fyrir utan það að allir hljóta að sjá að ef hvergi verður hægt vegna þess að menn skuldbinda sig lagalega í mengunarmálum --- hvernig ætla menn að horfa á það? Halda menn að hætt verði að framleiða ál í heiminum? Halda menn að hætt verði að nota ál í framleiðsluvörur og marga aðra málma sem svipað væri ástatt um? Nei, auðvitað ekki. Margt af því sem menn eru að tala um í þessum lagalegu skuldbindandi ákvæðum sem yfirvofandi eru gengur alls ekki upp í mínum huga.