Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 17:50:21 (4776)

1997-03-20 17:50:21# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[17:50]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er akkúrat þannig að eignaraðilar fyrirtækisins, ríkið, Reykjavíkurborg og Akureyrarbær, hafa orðið sammála um og hafa lýst því yfir með skriflegri yfirlýsingu sem hérna var mikið rædd þegar 2. og 3. umr. fóru fram (JóhS: Og menn lögðu misjafna túlkun í.) um frv. um Landsvirkjun. Já, það er rétt, herra forseti, hjá hv. þm. að menn lögðu misjafna túlkun í. (Gripið fram í.) Það var nefnilega grundvallaratriðið að menn þurftu að lesa hana til þess að skilja hana. Og þeir sem ekki vildu skilja hana þeir gerðu sér það að leik að lesa hana ekki eða þá sem alvarlegast var af öllu saman, að draga í efa undirskrift borgarstjórans í Reykjavík. Það var það alvarlega. En eignaraðilarnir eru sammála um að verðlækkunin sé ríkjandi í þessari stefnu fyrirtækisins, arðgreiðslurnar, útgreiðslurnar af arði, verði víkjandi. Og það gildir þá sama um ábatann af þessum samningi að ábatanum hlýtur að verða dreift með þessum hætti.