Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 17:58:55 (4780)

1997-03-20 17:58:55# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[17:58]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það er svolítið bágt til þess að vita að hæstv. umhvrh. skuli ekki nýta sér rétt sinn til þátttöku hér í umræðunni. Ég verð satt að segja að harma það vegna þess að þó að menn greini á þá vilja þeir væntanlega nota þennan vettvang, Alþingi Íslendinga, til þess að túlka sín viðhorf og standa fyrir máli sínu. Hér er það sjálfur hæstv. umhvrh. sem á í hlut og maður hefði vænst þess að hæstv. ráðherra tæki þetta mál það alvarlega gagnvart þinginu að hann vildi ræða það í fullri alvöru við þingheim.

Eins og hér hefur komið fram er hér um mjög stórt mál að ræða í sambandi við umhverfisstefnu í landinu og það varðar mjög miklu að tekið sé á þeim málum efnislega, varðandi embættisfærslu og hvernig á málum er haldið gagnvart almenningi og hvernig ákvarðanir eru undirbúnar og síðan teknar þannig að enginn vafi leiki á því að þar sé farið samkvæmt réttum og eðlilegum leikreglum sem og að menn standi fyrir máli sínu að því er varðar þær heimildir sem menn ætla að veita í sambandi við losun mengandi efna frá þeirri verksmiðju sem hér á í hlut.

Og af því hæstv. umhvrh. taldi að engum þeim spurningum hefði verið beint til sín hér í umræðunni sem hann teldi sig þurfa að svara þá er auðvelt, virðulegur forseti, að bæta úr því með ýmsum hætti því af nógu er sannarlega að taka í þeim efnum.

Ég ætla því að leyfa mér að nota rétt minn til þess að koma fram með nokkrar ábendingar um málið og jafnframt fyrirspurnir til hæstv. ráðherra sem ég vænti þá að hann bregðist við. Ég ætla fyrst að taka það sem lýtur að málafylgjunni, þ.e. málsmeðferðinni. Það sem ég gagnrýndi sérstaklega í morgun í ræðu minni og sneri að hæstv. ráðherra var sá þáttur sem sneri að Markaðsskrifstofu iðnrn. og Landsvirkjunar í samhengi mats á umhverfisáhrifum og síðan sá úrskurður sem hæstv. ráðherra felldi eftir að skipulagsstjóri hafði kveðið upp sinn úrskurð. Ég held að engum sem kynnir sér þau mál geti blandast hugur um að þar var gengið mjög ákveðið gegn þeim úrskurði sem skipulagsstjóri felldi og komið til móts við kærur framkvæmdaraðilans þar sem umrædd markaðsskrifstofa gegndi lykilhlutverki og að mér sýnist á mjög hæpnum forsendum lagalega séð.

Síðan var það sá þáttur sem sneri að reglugerðarsetningu hæstv. ráðherra í tengslum við málsmeðferð og túlkun laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, nr. 81/1988. Þar setti hæstv. ráðherra reglugerðir sem síðan var breytt vegna framkominnar gagnrýni. Það er út af fyrir sig góðra gjalda vert að það sé að lokum gert þó það hefði betur ekki farið jafnlangt og raun bar vitni, þ.e. að fyrst væri þetta gagnrýnt hér á þinginu og síðan þyrfti fleira að koma til þannig að reynt væri að leiðrétta.

Nú sýnist mér að þetta mál sé ekki komið á hreinan grundvöll og það var m.a. það sem ég vakti athygli á í morgun vegna þess að það snertir framhald málsins og er mjög ákvarðandi og mikilvægt í sambandi við þann þátt. Mér virðist sem sagt að sú reglugerðarsetning sem hæstv. umhvrh. stóð að 22. janúar sl., þegar sett var reglugerð nr. 26 á þessu ári, hafi ekki hitt naglann á höfuðið gagnvart málsmeðferðinni og að þar sé ekki farið að ákvæðum 26. gr. laga, m.a. af því og kannski sérstaklega að því leyti að stjórn Hollustuverndar ríkisins er tekin út sem úrskurðaraðili varðandi athugasemdir eftir að tillögur er fram komnar um starfsleyfi til ráðherra frá Hollustuvernd. Þetta er auðvitað lykilatriði í sambandi við framhald málsins. Ég er ekki að biðja hæstv. ráðherra um að svara þessu hér. Ég hef beðið stjórn Hollustuverndar um að úrskurða um það álitaefni. En nú er það svo að samkvæmt reglugerð nr. 26 frá 22. janúar er gert ráð fyrir því að menn hafi málskotsrétt til úrskurðarnefndar eins og lögin kveða á um og það var breytingin sem að réttu var gerð í þeirri reglugerð. Hæstv. umhvrh. hefur tjáð sig opinberlega nú ekki fyrir löngu síðan þess efnis að hann muni ekki gefa út starfsleyfi til álbræðslu á Grundartanga á meðan hugsanlegar kærur væru þar til meðferðar á þeim vettvangi enda væri þar um að ræða atriði sem skiptu máli. Ég held ég fari nokkurn veginn efnislega rétt með það sem ég hef eftir hæstv. ráðherra um þetta efni. En þá þurfa þeir að vita sem eru að fara yfir þessi efni, í fyrsta lagi hvað varðar það álitaefni að Hollustuvernd ríkisins beri lögum samkvæmt að vera úrskurðaraðili áður en hægt er að vísa málum til úrskurðarnefndar, að niðurstaða í því máli hefur að sjálfsögu áhrif á málsmeðferðina.

Annað sem ég vil nú sérstaklega beina til hæstv. ráðherra, af því það kemur ekki skýrt fram og ég hef hvergi séð það auglýst eða fram komið, snýr að því hve lengi, eftir að tillögur hafa borist eða verið fram settar um starfsleyfið, hafa menn svigrúm til þess að vísa áhyggjuefnum sínum til úrskurðarnefndar sér á parti. Og hef ég þó lesið þannig í málið að stjórn Hollustuverndar þurfi þar að vera fyrsti aðili til þess að kveða upp úr og síðan komi til málskotsréttar til úrskurðarnefndarinnar. Þetta er það atriði sem ég hef beðið sérstaklega um úrskurð á, en auk þess hef ég borið fram tvær athugasemdir til viðbótar við stjórn Hollustuverndar ríkisins sem varða þá málsmeðferð að endurauglýsa ekki starfsleyfi með rétti til athugasemda eftir að búið er að breyta reglugerðinni sem var í hinni upphaflegu auglýsingu, breyta efnisþáttum hennar.

Þriðji þátturinn snertir síðan það sjónarmið sem snýr að lögunum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit yfirleitt, þ.e. að ætla hæstv. ráðherra að gefa út starfsleyfi til atvinnurekstrar en ekki að halda sig við það að Hollustuvernd ríkisins geri það, vinni það verk eins og ég teldi í rauninni vera ofureðlilegt, að þannig væri á málum haldið og hæstv. ráðherra leystur undan því verkefni að gefa formlega út slíka reglugerð. Þetta kemur framhaldi málsins verulega við.

Síðan vildi ég aðeins nota örstutt svigrúm hér í umræðunni til að spyrja hæstv. umhvrh. um það áhyggjuefni sem ég hef margsinnis viðrað hér í dag, bæði við þingmenn og hæstv. iðnrh., sem snýr að rammasamningnum um loftslagsbreytingar. Hvað vill hæstv. umhvrh. segja um þá stöðu að hann, hæstv. ráðherra, stendur frammi fyrir því, virðulegur forseti, að gefa út starfsleyfi fyrir 180 þúsund tonna álbræðslu sem kemur til með að losa um 370 þúsund tonn árlega af gróðurhúsalofttegundum? Hæstv. ráðherra er með réttu að vinna að því að stuðla að því að Ísland taki þátt í lagalega skuldbindandi samningi í lok þessa árs samkvæmt nótuðu ferli sem setur hertar kvaðir á okkur umfram þann samning sem við erum þegar aðilar að og vissulega ber að standa við samkvæmt þjóðarétti. Þetta hlýtur að vera áhyggjuefni hæstv. ráðherra. Hæstv. ráðherra hefur vafalaust heyrt eins og ég af vörum umhverfisframkvæmdastjóra Evrópusambandsins sem hér var í heimsókn hvernig viðhorfið er þar til hugmyndanna um framseljanleg leyfi og að Evrópusambandið styður ekki þá stefnu sem mér sýnist þó að ríkisstjórnin hafi horft til í sambandi við sína framkvæmdaáætlun að einhverju leyti. Ég vænti að fá svör frá hæstv. ráðherra við þessum fyrirspurnum hér í umræðunni.