Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 18:09:29 (4781)

1997-03-20 18:09:29# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[18:09]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég vil nú segja það bara svona til að það liggi alveg ljóst fyrir strax í upphafi að ég er alls ekki og síður en svo að skorast undan því að taka þátt í umræðum hér um umhverfismál, hvorki hér og nú eða yfirleitt þegar þau eru til umræðu í hv. þingi og þegar spurningum sem þau varða er beint til mín beinlínis. Mér fannst, og ætla ekki að eyða annars lengri tíma í það, ég sagði það áðan í stuttu svari til hv. þm. í umræðum um stjórn fundarins, að ég teldi að ekki hefði verið beint til mín neinum þeim spurningum sem ekki hafi verið ræddar hér áður. Hins vegar var farið þannig orðum um störf mín að ég vissi ekki hvort ég ætti endilega að vera að taka þátt í umræðum um það sérstaklega. En ég ætla ekki að skorast undan að svara því sem beinlínis er til mín beint ef ég hef svör við því á reiðum höndum.

Fyrst aðeins út af orðum hv. 8. þm. Reykv. um staðsetninguna sem hafi verið gagnrýnd og a.m.k. ýmsir telja gagnrýnisverða, þá vil ég segja að sem umhvrh. þá hef ég ekki tekið ákvörðun um staðsetninguna á þessu álveri hér eða þar. Ég hef hins vegar fengið á mitt borð að úrskurða um mat á umhverfisáhrifum, þ.e. hvort þessi verksmiðja gæti starfað á þessum ákveðna stað en ekki verið spurður um hvort hún sé betur komin á Grundartanga eða á Langanesi. Það hafa bara ekki komið neinar slíkar spurningar upp til umhvrh. Þannig hefur málið ekki legið fyrir af hálfu umhvrn. og engar spurningar af því tagi tel ég að hafi verið á mínu borði að svara heldur aðeins spurningin hvort ásættanlegt sé eftir og samkvæmt mati á umhverfisáhrifum að þessi starfsemi fari fram á þessum stað. Þann úrskurð þekkja menn og þarf ekki að hafa fleiri orð um það.

Ég vil nú kannski úr af þessum seinustu orðum mínum segja að ég minnist þess að hv. 4. þm. Austurl. sagði einhvern tímann við mig þegar ég tók svona til orða hér í þessum ræðustól að það gæti vel verið að það þyrfti ræða það miklu meira og auðvitað er ég ekki að taka orð af neinum um það að tala um úrskurðinn eða tala um staðsetninguna heldur á þetta fyrst og fremst að skiljast þannig að ég ætla ekki að eyða frekari orðum að því hér í þessum ræðustól að þessu sinni.

Varðandi síðan ummæli hv. 4. þm. Austurl. um það að umhvrh. hafi gengið mjög gegn ákvæðum í úrskurði skipulagsstjóra um matið á umhverfisáhrifum þá höfum við reyndar rætt það áður. Ég er honum algjörlega ósammála um það. Ég taldi að í úrskurði skipulagsstjóra ættu ekki heima, þegar við erum að ræða um mat á umhverfisáhrifum, ýmis ákvæði sem fjalla um starfsleyfið og koma fram í starfsleyfinu enda segir í 3. lið í úrskurði skipulagsstjórans, beinlínis í yfirskriftinni: ,,Í starfsleyfi verði:`` Það er yfirskriftin á níu töluliðum sem ég taldi að ættu að vera í starfsleyfinu en ekki í úrskurðinum um mat á umhverfisáhrifum. Um þetta getur okkur hv. þm. auðvitað greint á og út af fyrir sig ekkert við því að segja. En það var það sem ég breytti í þessum úrskurði í fyrsta lagi. Í öðru lagi taldi ég að ekki ætti að hnýta saman í þessum úrskurði alla hugsanlega framkvæmdaþætti sem gætu tengst þessari verksmiðju sem slíkri heldur værum við í þessum úrskurði fyrst og fremst að fjalla um starfsemi verksmiðjunnar, álbræðslunnar. Síðan yrði framkvæmt sjálfstætt umhverfismat á virkjunum, á línulögnum, á vegaframkvæmdum eða námum eftir því sem lög kveða á um. Svoleiðis að ég telji upp, kannski samkvæmt minni, þau atriði sem þarna voru sett út af því að ég taldi þau ekki eiga heima í úrskurðinum. En að öðru leyti efnislega get ég ekki fallist á að ég hafi gengið algjörlega gegn eða mjög ákveðið, eins og ég held ég hafi skrifað rétt eftir hv. þm., gegn úrskurði skipulagsstjóra. Það voru þessi tvö atriði sem ég taldi að ættu ekki heima í þessum þætti.

[18:15]

Um reglugerðarmálin höfum við rætt áður hér í hv. þingi og hef ég á þessu stigi í sjálfu sér engu við það að bæta sem þar kom fram. Ég hef viðurkennt að reglugerð sem sett var í sumar eða haust hafi ekki verið eins og lög kveða á um. Nú er sannleikurinn sá að lögin eru ekki nægilega skýr varðandi málsmeðferð af þessu tagi. Það er eitt af því sem ég tel að verði að taka nánar á og skýra betur og löggjafinn setji skýrari reglur um það hvernig eigi að fara með mál þegar þau eru til meðferðar á þessu stigi eins og við erum að tala um þ.e. þegar verið er að ganga frá hvort heldur er mati á umhverfisáhrifum eða tillögum um starfsleyfi og hvaða ferli á að vera fyrir hendi. Það þyrfti að vera ljósara í lögunum. Fyrri reglugerð var því breytt og reynt að gera það eins skýrt og tök eru á í nýrri reglugerð. Þar er gert ráð fyrir því ferli, svo ég vitni til þeirrar reglugerðar, með leyfi forseta, þar sem segir í 3. gr. reglugerðarinnar:

,,Skal stjórn Hollustuverndar ríkisins gera grein fyrir skriflegum athugasemdum við starfsleyfistillögur og hvernig tekið er á þeim hverri fyrir sig. Skal sérstaklega taka þær athugasemdir sem ekki er tekið tillit til og færa rök fyrir því.``

Ég er að vitna í ranga grein reglugerðarinnar, ég ætlaði að vitna til þess þar sem heimilt er að vísa málinu til úrskurðarnefndarinnar. Það hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Sætti aðilar máls sig ekki við það álit og takist ekki málamiðlun er heimilt að vísa málinu til úrskurðarnefndar sem starfar samkvæmt 26. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með síðari breytingum. Skal nefndin kveða upp úrskurð svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en þremur vikum eftir að málið barst til hennar. Um málsmeðferð hjá nefndinni fer samkvæmt stjórnsýslulögum, nr. 37/1993.``

Þarna er kveðið á um hvernig hægt er að fara með úrskurði sem fyrir liggja frá stjórn Hollustuverndar ríkisins og nú hefur Hollustuverndin sent frá sér sínar starfsleyfistillögur til ráðherra. Ef ég má, með leyfi hæstv. forseta, vitna aðeins til bréfa eða efnis þeirra bréfa sem send voru þeim sem kærðu tillögurnar að starfsleyfinu upphaflega til stofnunarinnar og hafa síðan fengið tillöguna til baka eins og hún lítur út og var send ráðherra, þá hljóðar bréfið svo, með leyfi forseta:

,,Hver sá sem gerði athugasemdir við starfsleyfistillögur á meðan þær lágu frammi, tilkynningar, og er ósáttur við afgreiðslu stjórnar Hollustuverndar ríkisins á athugasemdum sínum á rétt á því að kæra til sérstakrar úrskurðarnefndar, samanber 2. gr. reglugerðar nr. 26/1997 um breytingu á mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994. Úrskurðarnefnd starfar samkvæmt 26. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.``

Ég tel því að þetta ferli sé skýrt eins og reglugerðin og lög kveða á um. Ég held að hv. þm. hafi spurt hvað sá kærufrestur væri langur. Í reglugerðinni sjálfri er vitnað til stjórnsýslulaganna. Ég hygg að ég fari rétt með --- nú er auðvelt að fletta því upp --- að það séu þrír mánuðir samkvæmt stjórnsýslulögum. En ég segi þetta með þeim fyrirvara að þessu fletta menn bara upp í stjórnsýslulögum, nr. 37/1993.

Hv. þm. sagði líka að hann hefði heyrt yfirlýsingar frá ráðherra um hvernig hann ætlaði að standa að starfsleyfisútgáfunni. Ég veit reyndar ekki nákvæmlega hvaðan hv. þm. hefur það því ég átti viðtal við fjölmiðla fyrir nokkru um það mál og sagði þá aðeins að starfsleyfistillagan frá stjórn Hollustuverndar væri til meðferðar og meðhöndlunar í umhvrn. og við mundum taka okkur tíma til að skoða hana ítarlega. Sú vinna er nú í gangi og ég hef ekki frekari yfirlýsingar að gefa um það á þessu stigi.

Að lokum spurði hv. þm. um rammasamninginn og loftslagsbreytingarnar sem við höfum rætt mikið að undanförnu. Sú umræða hefur auðvitað verið í gangi í ráðuneytinu og hjá starfsmönnum þess. Við höfum tekið þátt í fundaröð sem fer fram á þessu ári um hugsanlegar lagalegar bindingar sem gætu fylgt þessum samningi. Það ferli allt saman er þannig af okkar hálfu að við reynum að leggja áherslu á þau sjónarmið sem við höfum sett fram og höldum því áfram. Við höfum lagt áherslu á það að við teljum að leita eigi samninga milli svokallaðra Annex I ríkja sem eru OECD-ríkin og ríki Austur-Evrópu.

Af því að hv. þm. vitnar aðeins til heimsóknar frú Ritt Bjerregaard hér á dögunum og ummæla sem höfð eru eftir henni eftir fund sem hún hélt hér og eftir viðtöl við fjölmiðla að henni litist ekki á þau viðhorf sem íslensk stjórnvöld hefðu haft uppi þá verð ég að láta það koma fram að það eru nákvæmlega þau sömu viðhorf og Evrópusambandið er að vinna samkvæmt með ríkjum sambandsins. Þar er gert ráð fyrir að ríki geti --- eigum við að segja skipt á milli sín þessum viðfangsefnum, að draga úr loftmenguninni, þannig að sum ríki draga úr en önnur bæta við. Það er nákvæmlega það sama og við höfum verið að tala um. Að öðru leyti höfum við bætt við í þá umræðu sjónarmiðum sem við viljum halda til haga og viljum gera áfram þ.e. að við erum að nota orku sem er endurnýjanleg og vistvæn, vistvænni en sú sem verið er að nota við stóriðjuframkvæmdir og stóriðjustarfsemi í nágrannalöndunum þar sem notaðir eru orkugjafar sem í viðbót við stóriðjuverin sjálf menga vegna bruna af því að kol eða olía er notuð. Þessu viljum við halda til haga og munum gera áfram. Og svo hitt að við höfum líka haldið því til haga að staða okkar Íslendinga hafi verið slík árið 1990, og hugsanlega fleiri þjóða, að tekið sé tillit til þess ástands sem var þá og þeirra erfiðleika sem við eigum þess vegna við að etja að ná markmiðum um að draga umtalsvert úr loftmengun með því að skipta um orkugjafa eins og aðrar þjóðir hafa möguleika til að gera sem hafa verið að nota mengandi orkugjafa á sama tíma og við vorum þá þegar farin að nota okkar endurnýjanlegu og umhverfisvænu orkugjafa. Sumir hafa líkt þessari kröfu við það --- og það geta þá verið mín lokaorð í sambandi við þessa glímu --- að krafa sé gerð til alkóhólistans sem hætti að drekka og hætti að neyta áfengisins árið 1990 eða fyrir þann tíma sem viðmiðunin var sett að hann skuli samt halda áfram að draga úr sinni áfengisneyslu. Ég segi þetta nú bæði í gamni og alvöru út af þessari samlíkingu og þeim erfiðleikum sem við erum í eða getum staðið frammi fyrir við það að uppfylla þessi viðmiðunarmörk sem sett eru en lýsi jafnframt yfir vilja okkar að við höfum tekið fullan þátt í þessum samningaviðræðum. Við munum halda því áfram. Við erum sammála því að taka beri upp lagalegar skuldbindingar í þessu efni. Við höfum ekkert dregið undan í því, við höfum verið sammála því viðhorfi. Við teljum hins vegar nauðsynlegt og munum halda áfram að berjast fyrir þessum sjónarmiðum og viðhorfum sem við höfum sett fram og ég segi aftur að mér finnst það ekki vera mjög langt frá því sem Evrópubandalagsríkin eru að gera innbyrðis sín á milli en við Íslendingar höfum talið og talað fyrir því að fleiri þjóðir ættu að vinna saman hvað þetta varðar því loftmengun þekkir ekki landamæri heldur þurfum við að taka tillit til heildarinnar og nýta þá þessa orkugjafa sem við teljum að séu hreinir og endurnýjanlegir.

Út af meirihlutaáliti umhvn. vil ég allra síðast undirstrika að ég tel að út úr því megi lesa eftir ítarlega athugun á málum að menn hafi komist að þeirri niðurstöðu að --- ég er reyndar ekki með álitið hér í ræðupúltinu fyrir framan mig --- en menn hafa komist að þeirri niðurstöðu að staðið hafi verið eðlilega að málum og það sé ekki hægt að finna að stjórnsýslunni eins og hv. 4. þm. Austurl. gerði þó í sinni fyrstu ræðu í dag.