Hlutafélög

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 18:40:51 (4790)

1997-03-20 18:40:51# 121. lþ. 95.2 fundur 404. mál: #A hlutafélög# (EES-reglur) frv., 405. mál: #A einkahlutafélög# (EES-reglur) frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[18:40]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tvemur frv. í einu lagi, annars vegar frv. til laga um breytingu á lögum nr. 2/1995, um hlutafélög, á þskj. 701 og frv. til laga um breytingu á lögum nr. 138/1994, um einkahlutafélög, á þskj. 702. Með frv. þessum er stefnt að því að gera nokkrar smábreytingar á hlutafélagalöggjöfinni. Er það gert vegna athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA á grundvelli samanburðar á ákvæðum íslenskra laga um hlutafélög og einkahlutafélög og 1. og 2. félagaréttartilskipuninni, en tilskipanirnar eru hluti af EES-samningum.

Sem dæmi um fyrirhugaðar breytingar má nefna að gerð er sú krafa í EES-rétti, ef samþykktum hlutafélaga eða einkahlutafélaga er breytt, að ekki nægi að senda hlutafélagaskrá einungist texta þeirrar greinar eða greina sem breytt er heldur þarf að senda samþykktir í heilu lagi til skráningar með innfelldum breytingum. Ákvæðið hér að lútandi er í 9. gr. hlutafélagafrv. og 5. gr. einkahlutafélagafrv.

Þá þarf að gera breytingar á skilgreiningum á móðurfélagi og dótturfélagi og er það gert í 2. gr. frv. Í þeirri breytingu felst að móðurfélag telst geta haft yfirráð í öðru hlutafélagi eða einkahlutafélagi þótt það hafi ekki jafnframt verulega hlutdeild í afrakstri dótturhlutafélagsins.

Þá eru í 8. gr. hlutafélagafrv. og 4. gr. einkahlutafélagafrv. gerðar undantekningar frá banni við því að hlutafélög veiti lán til að fjármagna kaup á hlutum í félaginu eða móðurfélagi þess eða leggi fram fé eða setji tryggingar í tengslum við slík kaup. Slíkt bann mun samkvæmt frv. ekki eiga við um t.d. kaup starfsmanna félags eða tengds félags á hlutum í félaginu eða móðurfélagi þess nema í sérstökum tilvikum ef fjárhagur viðkomandi félags þykir leyfa slíkt.

Ég vil bæta við að væntanlega þarf að gera frekari breytingar á hlutafélagalöggjöfinni á haustþingi þegar samanburði á löggjöfinni og fleiri tilskipunum á grundvelli EES-samningsins er lokið.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu óska ég þess að frumvörpunum verði vísað til efh.- og viðskn.