Orkulög

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 18:48:12 (4793)

1997-03-20 18:48:12# 121. lþ. 95.4 fundur 412. mál: #A orkulög# (eignarhlutur Rariks í félögum) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[18:48]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það kom alveg skýrt fram í ræðu hv. þm. Svavars Gestssonar að þarna er talsverður munur á og það er af yfirlögðu ráði. Þegar umræðan fór fram um frv. um Landsvirkjun vildu menn einvörðungu einskorða þá starfsemi sem Landsvirkjun getur tekið þátt í með þessari heimild sem þarna fékkst, við starfsemi erlendis. Um það sem hins vegar er verið að gera með breytingu á orkulögum og um leið með því að auka heimildir Rafmagnsveitna ríkisins til þess að taka þátt í ýmiss konar starfsemi, bæði erlendis og innan lands í þessu tilfelli, skal ég nefna dæmi.

Í fyrsta lagi: Rafmagnsveitur ríkisins reka rafmagnsverkstæði. Með þessu skapast sá möguleiki að breyta því rafmagnsverkstæði í hlutafélag, aðgreina þannig þann rekstur sem er nú innan fyrirtækisins frá hinni hefðbundnu starfsemi sem rekin er í fyrirtækinu og gera rafmagnsverkstæðið að sjálfstæðu félagi sem einkaaðilar gætu þá að einhverju leyti tekið þátt í.

Annað dæmi sem má nefna er það að í samstarfi við sveitarstjórnina í Stykkishólmi er núna verið að leita að heitu vatni á Snæfellsnesi til þess m.a. að kanna hvort hægt verði koma þar upp hitaveitu. Í kringum slíkt á að stofna félag og þarna væri möguleiki fyrir Rarik að taka þátt í stofnun slíks félags. Þar eru verulegir hagsmunir fyrir fyrirtækið einfaldlega vegna þess að með þátttöku í slíku félagi væri hægt að komast hjá því að leggja mjög dýrar línur sem fyrirsjáanlegt er að þurfi að leggja um nesið og verulegur sparnaður af því.

Í þriðja lagi má nefna að víða um land hefur vaknað áhugi hjá fyrirtækjum heima í héruðum á einstökum svæðum fyrir því að Rafmagnsveiturnar tækju þátt í starfsemi sem þeir reka að stofni til, eins og ég nefndi um rafmagnsverkstæðið, en færu þá í samstarf við einkaaðila á einstökum svæðum.