Fæðingarorlof

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 10:34:50 (4796)

1997-03-21 10:34:50# 121. lþ. 96.7 fundur 453. mál: #A fæðingarorlof# (veikindi móður eða barns o.fl.) frv., heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[10:34]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli frv. til laga um breytingu lagaákvæða um fæðingarorlof. Í nóvember 1995 skipaði ég nefnd sem falið var að endurskoða frv. til laga um fæðingarorlof og fæðingarstyrk sem samið var árið 1990. Markmið þessa lagafrv. var að samræma rétt allra kvenna á vinnumarkaði til greiðslna í fæðingarorlofi. Í nefndinni áttu m.a. sæti fulltrúar launamanna og atvinnurekenda á almennum vinnumarkaði auk fulltrúa frá Jafnréttisráði og heilbr.- og trmrn.

Við meðferð frv. til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkis sl. vor var opinberum starfsmönnum lofað að fæðingarorlofsrétti þeirra yrði ekki breytt nema með samningi við þá. Forsendur fyrir óbreyttu starfi nefndarinnar voru þar með brostnar. Nefndin taldi tveggja kosta völ varðandi framhald starfsins, annars vegar að gera nokkrar lagfæringar á gildandi frv. og hins vegar að nefndin héldi áfram að endurskoða frv. frá 1990 og miða þá við að frv. tæki aðeins til hins almenna vinnumarkaðar. Þar sem skiptar skoðanir voru í nefndinni um hvert framhald skyldi verða ákvað ég að leggja nefndina niður.

Jafnframt ákvað ég að láta semja frv. til laga um breytingu lagaákvæða um fæðingarorlof þar sem gerðar yrðu tillögur um nokkrar breytingar á gildandi fyrirkomulagi.

Frv. það sem ég mæli nú fyrir felur fyrst og fremst í sér aukin réttindi fyrir foreldra vegna ýmissa sérstakra aðstæðna, svo sem vegna fjölburafæðinga, vegna fyrirburða og vegna veikinda barns og móður. Ég mun á eftir gera grein fyrir helstu breytingum sem frv. gerir ráð fyrir.

Ef ég vík fyrst að fjölburafæðingum þá hefur þeim fjölgað nokkuð á síðustu árum og er það helst rakið til starfsemi glasafrjóvgunardeildar. Það hefur lengi verið ósk foreldra sem eignast fjölbura að fæðingarorlof lengist meira en gildandi ákvæði gera ráð fyrir en samkvæmt þeim lengist fæðingarorlof um einn mánuð fyrir hvert barn umfram eitt. Hér er um mjög litla lengingu að ræða og verður að teljast sanngjarnt að komið verði frekar til móts við foreldra fjölbura. Því er lagt til að lenging fæðingarorlofs vegna fjölburafæðinga verði þrír mánuðir fyrir hvert barn í stað eins mánaðar. Þetta þýðir að kona sem fæðir tvíbura á rétt á níu mánaða fæðingarorlofi og kona sem fæðir þríbura á rétt á eins árs fæðingarorlofi. Foreldrar sem ættleiða eða taka í fóstur fleiri en eitt barn njóta sömu lengingar.

Þurfi barn að dvelja á sjúkrahúsi lengur en sjö daga í beinu framhaldi af fæðingu lengist fæðingarorlof um þann dagafjölda sem barn dvelur á sjúkrahúsi fyrir fyrstu heimkomu, allt að fjóra mánuði. Hér eru fyrst og fremst hafðir í huga fyrirburar en ákvæðið á einnig við um önnur börn sem þurfa að dvelja á sjúkrahúsi vegna veikinda lengur en sjö daga í beinu framhaldi af fæðingu. Sá dagafjöldi sem bætist við fæðingarorlof samkvæmt þessu ákvæði telst frá fæðingu, þ.e. fyrstu sjö dagarnir dragast ekki frá. Hér er um að ræða sjálfstæðan rétt sem skerðir ekki rétt til lengingar vegna alvarlegs sjúkleika barns síðar á fæðingarorlofstíma.

Þá er lagt til að heimild til lengingar fæðingarorlofs vegna alvarlegs sjúkleika barns sé lengd úr einum mánuði í allt að þrjá mánuði. Í frv. er nýmæli um heimild til lengingar fæðingarorlofs um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda móður eftir fæðingu. Tilgangur ákvæðisins er að bæta móður og barni upp þann tíma sem þau geta ekki verið í samvistum á fæðingarorlofstíma vegna alvarlegra veikinda móður. Fæðingarorlof vegna töku barns yngra en fimm ára í varanlegt fóstur verður sex mánuðir í stað fimm samkvæmt gildandi lögum en fæðingarorlof vegna ættleiðingar var lengt í sex mánuði með lögum nr. 129/1995, um réttarstöðu kjörbarna og foreldra þeirra.

Þá er gerð tillaga um breytingu á skilgreiningu andvana fæðingar og fósturláts í samræmi við skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar en sú skilgreining er notuð á Ríkisspítölum. Þar er miðað við að eftir fullar 22 vikur meðgöngu sé um að ræða andvana fæðingu, en fyrir þann tíma fósturlát. Samkvæmt ákvæðum laga almannatrygginga um fæðingarorlof er andvana fæðing skilgreind eftir 28 vikna meðgöngu en þegar þau mörk voru sett var talið að börn gætu almennt ekki lifað utan móðurkviðar ef þau fæddust fyrr. Þetta misræmi í skilgreiningu hefur valdið vandræðum þegar foreldrar, sem sagt hefur verið á sjúkrastofnun að barn hafi verið andvana fætt, hafa sótt um greiðslur í fæðingarorlofi og þá verið sagt að aðeins hafi verið um fósturlát að ræða. Þetta hefur skapað foreldrum óþarfa sárindi og óþægindi sem hægt væri að koma í veg fyrir með því að samræma skilgreiningu.

Í bráðabirgðaákvæði með frv. er gert ráð fyrir að foreldrar sem voru í fæðingarorlofi hinn 1. janúar sl. njóti þess aukna réttar sem felst í frv. eftir því sem við á. Þannig mundi tvíburamóðir sem var í fæðingarorlofi hinn 1. janúar fá tvo mánuði til viðbótar eða samtals níu mánuði. Móðir fyrirbura mundi fá allt að fjögurra mánaða fæðingarorlof til viðbótar eða samtals tíu mánuði o.s.frv.

Frv. gerir ráð fyrir verulegum réttarbótum vegna sjúkra barna, fyrirbura og fjölbura og vegna veikinda móður. Hér er ekki um að ræða mjög stóran hóp en engu að síður mikilvæga réttarbót fyrir þá sem ákvæðin eiga við. Í hjálögðu kostnaðarmati fjárlagaskrifstofu kemur fram að gert er ráð fyrir að árlegur kostnaðarauki vegna frv. verði samtals á bilinu 40--45 millj. kr.

Virðulegi forseti. Ég tel að hér sé um að ræða brýnt hagsmunamál fyrir allstóran hóp barna og foreldra og vænti þess að frv. hljóti jákvæðar undirtektir og fái skjóta afgreiðslu á þingi. Ég leyfi mér því, virðulegi forseti, að leggja til að frv. verði vísað til hv. heilbr- og trn. til 2. umr.