Fæðingarorlof

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 10:45:39 (4801)

1997-03-21 10:45:39# 121. lþ. 96.7 fundur 453. mál: #A fæðingarorlof# (veikindi móður eða barns o.fl.) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[10:45]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er ekki oft sem ástæða er til að fagna eða gleðjast úr þessum ræðustól yfir verkum hæstv. ráðherra en það er vissulega nú í þessu tilviki í því máli sem hér er lagt fram um breytingar lagaákvæða um fæðingarorlof. Það er vissulega rétt sem hæstv. ráðherra segir að þessi ákvæði fela í sér mjög veigamikla réttarbót fyrir ákveðinn hóp kvenna og barna þeirra frá þeim lögum sem nú eru í gildi.

Eins og hæstv. ráðherra kom inn á er fyrst og fremst um að ræða réttarbót vegna fleirburafæðinga, fyrirburafæðinga, alvarlegra veikinda barna eða móður og vegna töku barna í varanlegt fóstur. Það er ástæða til að fara nokkrum orðum um þetta mál og ég vil fagna því sérstaklega að hæstv. ráðherra hafi orðið við eindreginni ósk kvenna sem hafa barist fyrir rétti fyrirburaforeldra um það að þetta ákvæði yrði afturvirkt og gildi fyrir konur og börn þeirra sem eru í fæðingarorlofi frá síðustu áramótum. Þessar konur hafa vissulega fært mjög veigamikil rök fyrir slíkri réttarbót og einnig því að hún yrði afturvirk. Það sem helst má gagnrýna í þessu er að þó að hér sé verið að auka rétt þeirra um allt að fjóra mánuði, þá er það of stutt þannig að við hljótum að stefna að því að þessar konur sem eru fyrirburamæður og börn þeirra fái lengra fæðingarorlof en stefnt er að hér. Þessar konur hafa fært veigamikil rök fyrir því að fyrirburabörn þurfa að fá tækifæri til að dafna í einangruðu umhverfi í framhaldi af þeirri meðferð sem börnin fá á vökudeildinni og þær vísa til álits sérfræðinga um að ekki sé ráðlegt að þau börn séu í gæslu með öðrum börnum fyrstu 1--2 árin þar sem um verulega smithættu er að ræða en afleiðingar þess gætu orðið síendurtekin innlögn á barnadeild. Ég held því að full rök séu fyrir að stefna að því, þó það verði kannski ekki gert í þessum áfanga, að fyrirburaforeldrar eigi rétt á 11/2--2 ára fæðingarorlofi en það er sá tími sem áætlað er af sérfræðingum að börn þurfi til að ná eðlilegum þroska. En allt um það. Þetta er mjög mikið framfaraspor og ég vil biðja ráðherrann að staðfesta hér hvort sá skilningur minn sé ekki réttur að fæðingarorlof samkvæmt þessu frv. geti orðið allt að 13 mánuðir. Við erum að tala um sex mánaða hefðbundið fæðingarorlof plús fjóra mánuði sem lengst getur orðið vegna fyrirburafæðingar og síðan einnig þrír mánuðir til viðbótar ef um alvarlegan sjúkleika barns er að ræða eftir að heim er komið. Mér finnst mikilvægt að þessi skilningur sé staðfestur ef réttur er.

Ég fagna því að hv. formaður heilbrn. hefur úr ræðustól sagt að hann muni gera allt sem hann getur til að flýta því að frv. verði að lögum og ég veit og er sannfærð um það að allir þingmenn taka undir það og munu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að frv. geti orðið sem fyrst að lögum.

Það er auðvitað freistandi að fara inn í aðra fæðingarorlofsumræðu, bæði hér og í þeirri nefnd sem fær þetta til umræðu. En ég held að ekkert megi þó gera sem verði til þess að tefja málið. Kannski verður ítarleg umræða almennt um fæðingarorlof að bíða betri tíma vegna þess að ég held að allir hljóti að verða sammála um að þetta mál eigi að hafa ákveðinn forgang.

Ég vil þó, virðulegi forseti, segja nokkur orð almennt um fæðingarorlof vegna þess að það mál er í ákveðinni biðstöðu eftir að ráðherra leysti upp nefndina um fæðingarorlof. Við hér á hv. Alþingi hljótum að gera kröfu til þess að málinu verði ýtt áþreifanlega úr vör á nýjan leik þannig að við gætum t.d. á haustdögum fjallað almennt um breytingar á fæðingarorlofi. Það hefur oftsinnis verið gert í þingsölum án mikils árangurs. Hv. formaður heilbr.- og trn. vitnaði vissulega í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar og þar er talað um að lögfesta eigi á gildistíma framkvæmdaáætlunar, sem rennur út á þessu ári, reglur sem tryggi jafnan rétt foreldra til töku fæðingarorlofs. Ég vil einnig minna á, sem mjög hefur verið haldið á lofti, ekki síst af hv. framsóknarmönnum, mótun opinberrar fjölskyldustefnu og aðgerðir til að styrkja stöðu fjölskyldunnar sem við ræddum fyrir nokkrum vikum en lítið hefur heyrst um það eftir að málið fór í hv. félmn. Ég vona að mótun þessara fjölskyldustefna dagi ekki uppi í nefndinni eins og gerðist á síðasta ári. En í þeirri áætlun er talað um að ríkisstjórnin skapi skilyrði sem tryggi feðrum aukinn rétt til fæðingarorlofs.

Það er vissulega brýnt að sú réttarbót verði gerð og ég hygg að allir flokkar standi að því, þó minna sé úr efndum, að tryggja rétt beggja foreldra til fæðingarorlofs. Við höfum fyrir okkur tölur að á þriggja ára tímabili hafi einungis um 40 feður nýtt sér rétt sinn til fæðingarorlofs af um 13 þúsund fæðingum. Fyrir því eru auðvitað ákveðnar ástæður. En það er ekki bara það sem er brýnt og kallar á endurskoðun á löggjöf um fæðingarorlof. Ég hygg að almennur vilji sé til þess að við stígum skrefið lengra að því er varðar lengingu fæðingarorlofs eins og gert hefur verið í mörgum þeim löndum sem við berum okkur saman við. Ég hygg að 12 mánaða almennt fæðingarorlof og þá framlengdur réttur af því til þeirra hópa sem við erum sérstaklega að tala um í dag sé eðlilegt markmið sem við hljótum að stefna á að verði að lögum á næstu mánuðum og missirum. Ég hygg að flestir viðurkenni að mjög mikilvægt er fyrir þroska og uppeldi barna að fá að vera hjá eða búa við umönnun og aðhlynningu foreldra og helst beggja foreldra eins og kostur er fyrstu mánuði og ár æviskeiðsins. En við búum foreldrum þau skilyrði sem eru ekki viðunandi að eftir fyrstu sex mánuðina þurfi mæður að leita með börn sín í barnagæslu til þess að geta farið út á vinnumarkaðinn á nýjan leik. Ég er alveg viss um að það skilar sér betur út í samfélagið en við gerum okkur kannski grein fyrir ef við sköpum foreldrum þeirra þennan rétt og búum þannig að málum að börnin geti búið við eðlileg þroskaskilyrði fyrstu mánuði og ár sem eru mikilvæg í allri mótun barnanna. Við erum því að tala um það sem brýnt er, herra forseti, sem ég veit að hæstv. ráðherra gerir sér grein fyrir, þ.e. rétti feðra og við erum að tala um lengingu á fæðingarorlofi. En við erum líka að tala um að hér þurfi að samræma fæðingarorlof. Það er óþolandi misrétti sem mæður búa við, þ.e. annars vegar þær sem eru á almennum vinnumarkaði og hins vegar þær sem starfa hjá hinu opinbera. Við hljótum að stefna að því að tekið sé mið af þeim launum sem mæður hafa þegar þær voru á vinnumarkaðnum þegar þær fara í fæðingarorlof, eins og gert er á opinbera vinnumarkaðnum. Þegar ég tala um að samræma fæðingarorlof virðulegi forseti, þá er ég ekki að tala um að samræma það niður á við. Ég er að tala um að samræma það því sem best gerist upp á við. Og þó að konur sem eru í starfi hjá hinu hopinbera hafi meiri og betri rétt en konur á almennum vinnumarkaði, þá virðist það svo að barnsfeður þessara kvenna eigi minni rétt en þeir feður sem giftir eru mæðrum sem eru á almenna vinnumarkaðnum vegna þess að barnsfeður opinberra starfsmanna eiga ekki rétt til greiðslna í fæðingarorlofi þannig að víða má sjá ósamræmi í framkvæmd á fæðingarorlofi.

Þetta eru þau fjögur stóru atriði sem þarf að leiðrétta í fæðingarorlofslöggjöfinni og ég fullyrði, virðulegi forseti, að þetta mál, fæðingarorlofið, er eitt mikilvægasta og brýnasta atriðið sem nauðsynlegt er að fara út í ef við meinum eitthvað með því að marka hér opinbera fjölskyldustefnu. Ég vil því leggja í lokin, herra forseti, tvær spurningar fyrir hæstv. ráðherra:

1. Er skilningur minn réttur að um sé að ræða hámark 13 mánuði að því er varðar fæðingarorlofið?

2. Telur hún að með þessari réttarbót, sem vissulega er mikil, sé að fullu komið til móts við eðlilegar og réttmætar kröfur fleirburaforeldra, fyrirburaforeldra og foreldra sem búa við það að börn þeirra eru mjög alvarlega veik eða eigum við að setja okkur háleitara markmið en hér er verið að lögfesta?

Ég hef fært rök fyrir því og er þá að endurflytja rök þeirra sem gerst þekkja til og helst hafa barist fyrir rétti fyrirburaforeldra og sem vitna í sérfræðinga, m.a. mat tryggingalæknis, að það taki þessi börn 11/2--2 ár að ná eðlilegum þroska og hve mikilvægt sé að mæðurnar geti verið með börnin þennan tíma vegna þess að þau geti ekki verið í ,,eðlilegu`` umhverfi þar sem önnur börn eru í gæslu. Mér finnst þessi rök mjög sterk og mjög mikilvæg. Ég segi því við hæstv. ráðherra: Getur ráðherra verið sammála mér að við séum ekki komin á neina endastöð þó við séum að samþykkja þessa miklu réttarbót ef við setjum okkur það markmið að stefna að því að réttur þessara foreldra verði tryggður í 11/2--2 ár?

Síðan almennt varðandi fæðingarorlof. Hvað hyggst hæstv. ráðherra gera í framhaldi af því að sú nefnd hefur verið leyst frá störfum sem fjalla átti almennt um fæðingarorlof? Við hljótum að fara að rúlla þessum vagni áfram af stað þó hann hafi stöðvast um tíma og ég spyr: Mun ráðherra eða hefur ráðherra kannski sett af stað aðra nefnd? Ef svo er, hvert er þá verksvið þeirrar nefndar? Ef ekki, er þá áformað af hæstv. ráðherra að setja af stað núna nefnd sem hafi t.d. tíma fram til hausts til að skila tillögum? Hverjir munu koma að því máli, hæstv. ráðherra?

Ég teldi það mjög farsælt til að ná samstöðu almennt um breytingar á fæðingarorlofslöggjöfinni að stjórnarandstaðan hefði aðkomu að þessu máli í nefndarstarfi hjá hæstv. ráðherra. Ég spyr því um verksvið nefndar, ef hún er komin af stað eða hvort hæstv. ráðherra ætlar að setja hana af stað og hverjir munu koma að því máli. Mun verkalýðshreyfingin til að mynda koma að því máli? Mun stjórnarandstaðan koma að því máli?

Eitt enn í lokin, herra forseti, sem ég hef áhyggjur af. Ég hef nefnt rétt feðra. Ég hef nefnt nauðsyn þess að lengja fæðingarorlofið og ég hef nefnt nauðsyn þess að samræma réttinn á almenna vinnumarkaðnum og hjá hinu opinbera. En ég hef áhyggjur af því hvernig fæðingarorlof er fjármagnað. Við höfum stundum rætt það hér á þingi. Maður trúir því varla að á þessum tíma setji atvinnurekendur það fyrir sig þegar þeir ráða konur til starfa að þær séu á barnseignaraldri og hætta gæti verið á því að þær færu að eiga börn. Karlar eru aldrei um þetta spurðir, eins og þeim komi það ekki við þegar börn eru að fæðast í þennan heim. En fjármögnunin verður að vera með þeim hætti að þessi spurning þurfi ekki að koma upp, að atvinnurekendur velti fyrir sér hvort það geti verið að á næstu mánuðum fari viðkomandi kona að taka fæðingarorlof. Þess vegna verður fjármögnunin að vera almenn og öðruvísi en hún er nú. Það hafa verið settar fram ýmsar hugmyndir í því sambandi, t.d. ákveðið gjald sem atvinnurekandi greiðir fyrir hvort sem karl eða kona er í starfi hjá honum. Það gæti verið ein leið og ég er vissulega ekki að negla mig við hana en það gæti verið ein leið sem komi til skoðunar til þess að koma í veg fyrir það óréttlæti, það misrétti að verið sé að velta því fyrir sér hvort konur fara í barnsburðarleyfi þegar þær eru ráðnar. Við verðum að finna leið til að komast fram hjá því þannig að fjármögnunin er auðvitað einn þáttur í því sem við hljótum að taka til endurskoðunar alveg burt séð frá öðrum þáttum sem við þurfum að skoða í fæðingarorlofslöggjöfinni.

Virðulegi forseti. Þó að ég hafi freistast til að fara inn á aðra þætti í fæðingarorlofsmálunum, einkum til þess að reyna að fá fram umræðu hjá hæstv. ráðherra með hvaða hætti hann ætlar að setja þetta mál áfram í farveg, þá hljótum við að einskorða málið a.m.k. í nefndinni mest efnislega við það að flýta þeim réttarbótum sem hér hafa verið lagðar fram. Ég trúi og treysti formanni heilbr.- og trn. og nefndarmönnum þar til að afgreiða málið fljótt og vel strax þegar við komum saman að loknu páskaleyfi. Ég segi það, herra forseti, um leið og ég ítreka spurningar mínar til hæstv. ráðherra.