Fæðingarorlof

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 11:02:56 (4802)

1997-03-21 11:02:56# 121. lþ. 96.7 fundur 453. mál: #A fæðingarorlof# (veikindi móður eða barns o.fl.) frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[11:02]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að láta í ljós ánægju yfir því að hér er á ferðinni töluverð réttarbót fyrir reyndar mjög lítinn hóp mæðra. Því ber vissulega að fagna sem vel er gert. Þetta eru eins og fram hefur komið í umræðunni fyrst og fremst bætur til mæðra sem taka börn í fóstur og þeirra sem eiga fjölbura og einnig er fæðingarorlof lengt vegna veikinda móður. Þetta er vissulega mikilvæg réttarbót og tímabær og ég fagna henni innilega.

Kostnaðurinn við þessar breytingar er eitthvað í kringum 40--45 millj. kr. og af því má sjá að hér er um dýra aðgerð að ræða fyrir ríkissjóð þó að hópurinn sé, mér vitanlega, mjög lítill.

En ég verð, hæstv. forseti, eins og fyrri ræðumaður --- ég get ekki orða bundist --- að koma að þessum fæðingarorlofsmálum almennt og láta í ljós mikil vonbrigði með það að þrátt fyrir yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar alveg frá byrjun kjörtímabilsins um að það eigi að gera eitthvað mikið í þessum málum, þá er þetta það eina sem hefur komið fram frá ríkisstjórninni og það er til háborinnar skammar að mínu mati. Síðasta ríkisstjórn var með nefnd í gangi frá árinu 1990 eins og hér kom fram áðan en núna hafa allar tilraunir til þess að semja lagafrv. brugðist og búið er að leggja þessar nefndir niður. Af hverju skyldi það hafa verið? Jú, það er alveg ljóst hvers vegna. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að markmiðið með nefndarstarfinu hafi verið að jafna rétt allra til fæðingarorlofs án þess --- hún nefndi það reyndar ekki, en svo virðist vera --- að mikill tilkostnaður bættist við. Það þýðir þá auðvitað að verið er að jafna niður á við fyrir mjög stóra hópa og það er ekkert skrýtið að launamenn sem eru búnir að leggja mikið á sig í gegnum kjarasamninga og annað við að fá þó þennan rétt sem er, séu ekki tilbúnir að leggja þau réttindi niður sem þeir hafa þegar öðlast.

Hins vegar er mjög viðkvæm staða í þessum málum núna þar sem fæðingarorlofsréttur t.d. opinberra starfsmanna er hvorki tryggður með lögum né heldur með kjarasamningum heldur er þetta ákvæði í reglugerð sem ráðherra getur breytt eftir sínum hentugleikum. Þess vegna tel ég að núna sé mjög brýnt að taka á þessum málum og sjá spilin sem ríkisstjórnin hefur á hendi en því miður er ekki hægt að segja að þetta frv. sýni nokkuð í þeim efnum.

Vinna okkar kvennalistakvenna í þessum málaflokki. Við höfum mörgum sinnum á undanförnum 10 eða 12 árum lagt fram frv. til laga um fæðingarorlof. Og á síðasta ári lögðum við fram ítarlega tillögu til þingsályktunar sem sýnir hvaða stefnu við kvennalistakonur höfum í þessu máli. Ég ætla að lesa hér, hæstv. forseti, helstu markmið tillögu okkar sem eru fyrir utan þær réttarbætur sem hér koma fram, þ.e. auknar réttarbætur fyrir fósturforeldra, foreldra sem ættleiða börn og foreldra sem eru veikir og eiga fleirbura. En þar að auki leggjum við megináherslu á að feðrum verði tryggður sjálfstæður réttur til fæðingarorlofs í þrjá mánuði og að foreldrar geti skipt með sér fæðingarorlofi með hlutagreiðslum að eigin vali, þ.e. með sveigjanlegum möguleika á að taka þetta fæðingarorlof, að fæðingarorlof foreldra verði lengt í 12 mánuði og að fyrir utan þessa þrjá mánuði geti feður tekið sérstakt fæðingarorlof í tvær vikur strax að lokinni fæðingu barns.

Til að þessi markmið náist gerum við okkur auk þess grein fyrir því að ekki er hægt að bjóða feðrum upp á það að fara í fæðingarorlof og fá 60 þús. kr. á mánuði eins og fullar greiðslur eru núna fyrir þá sem ekki eru opinberir starfsmenn þannig að það er augljóst mál að það verður að tengja laun í fæðingarorlofi við laun á almennum vinnumarkaði og í því skyni höfum við kvennalistakonur lagt fram sérstakt form á greiðslum sem við köllum fæðingarorlofssjóð. Og nú erum við um það bil að ljúka við frv. til laga sem stefnir að því að ná öllum þeim markmiðum sem hér eru sett fram og vonumst til að geta lagt það fram núna á þessu þingi þó að það sé svolítil spurning hvort það náist fyrir 4. apríl. Ástæðan fyrir því að við höfum ekki lagt þessa þáltill. okkar fram núna í vetur er sú að við töldum að það væri að koma frv. frá ráðherranum, en því miður hefur verið meira talað en framkvæmt í þessu máli. Og núna loksins þegar eitthvað birtist, þá er það jú, kærkomin réttarbót fyrir örfáa en ekki er tekið á öllum meginmálunum.

Ég vil næst koma nánar að því og spyrja hæstv. ráðherra út í það hvers vegna nefndin sprakk sem hún nefndi hér áðan og hvort mín tilgáta er rétt að það sé vegna þess að þessar breytingar máttu ekki kosta neitt og þar af leiðandi hefðu þær þýtt verulega lækkun niður á við fyrir stóra hópa launafólks. Þetta er verulega umhugsunarvert vegna þess að ég taldi að nú væri lag, í yfirstandandi kjarasamningum, að taka á þessum málum. En því miður verð ég að segja --- það er kannski um leið ákveðin gagnrýni á verkalýðshreyfinguna, ég veit það ekki, ég hef ekki verið þarna í Karphúsinu --- hef ég ekki orðið vör við að gerðar hafi verið kröfur um réttarbætur á þessum sviðum. Skattapakki ríkisstjórnarinnar hefur nú þegar verið birtur en þar er ekki orð um fæðingarorlofið. Og það er mjög athyglisvert að heyra ummæli sem hafa komið fram í viðtölum við ákveðna verkalýðsforingja, t.d. formann Rafiðnaðarsambandsins þar sem hann hneykslast á nýföllnum dómi í Hæstarétti um jafnrétti, um jöfn laun kynjanna fyrir sambærileg störf. Þar segir hann m.a. að honum finnist að viðkomandi kona ætti að fá lægri laun vegna þess að hún fær greidd laun í fæðingarorlofi. Þetta er akkúrat ástæðan fyrir því að við kvennalistakonur leggjum mikla áherslu á að vinnuveitendur veigri sér ekki við að ráða konur vegna þess að þær geta tekið laun í fæðingarorlofi. Þess vegna verður þessi réttur frá sjónarmiði jafnréttis að vera þannig að allir launþegar greiði í ákveðinn sjóð og að báðir foreldrar taki fæðingarorlof og atvinnurekendur fái greitt úr fæðingarorlofssjóði á meðan viðkomandi launþegi fer í fæðingarorlof. Það skiptir þá alls ekki máli fyrir viðkomandi vinnuveitanda hvort hann er með konur eða karla í vinnu því allir greiða í sjóðinn. Það er mjög mikilvægt réttindamál að þetta verði greiðslur sem allir inna af hendi, launþegar, karlar og konur og allir atvinnurekendur og að greiðslur verði sem næst launum viðkomandi launamanns. Þetta eru þær hugmyndir sem við erum að vinna okkar frv. eftir.

Varðandi yfirlýsingar verkalýðsforingjans þá var eins og hann segði í hálfkæringi að það væri kannski rétt að rafiðnaðarmenn færu fram á fæðingarorlofsrétt og það var eins og það væri í raun og veru grín. En ég vona svo sannarlega að það hafi ekki verið grín og að þessi mál verði tekin til alvarlegrar umræðu í yfirstandandi kjarasamningum og ekki síst þá réttur feðra til fæðingarorlofs og að reynt verði að miða greiðslur við einhver raunhæf laun hvers og eins því að öðrum kosti er mjög ólíklegt að feður velji að taka fæðingarorlof, ef það er val.

Eins og þessum málum er háttað í Svíþjóð, þá er fæðingarorlof komið upp í 12 mánuði, en síðustu mánuðirnir --- ég man ekki hvort það eru tveir eða þrír --- fást alls ekki nema feðurnir taki þá. Ég tel því mjög mikilvægt að síðustu mánuðirnir, sem hvatning til að feður taki fæðingarorlof, eða ákveðinn fjöldi mánaða verði bundinn við það að feður taki það, en um leið verði reynt að koma því við að greiðslur í fæðingarorlofi verði nálægt greiðslum fyrir dagvinnu a.m.k.

Aðeins um eitt atriði í frv. Það er í 7. gr. Þar stendur, með leyfi forseta:

,,Að jafnaði skal móðir eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuðina fyrir fæðinguna. Nánar skal kveðið á um lögheimilisskilyrði í reglugerð.``

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hér sé um rýmkun að ræða, þ.e. það stendur: ,,Að jafnaði``, því þetta hefur valdið verulegum vandræðum, ekki síst fyrir námsmenn sem t.d. eru á Norðurlöndum og hafa ekki rétt til fæðingarorlofs þar. Og ef námsmenn koma heim eftir að hafa flutt lögheimili sitt, þá hafa þeir heldur ekki rétt til töku fæðingarorlofs hér. Ég vil því gjarnan spyrja ráðherra hvort þarna er átt við rýmkun og hvort tekið verði tillit til þessa við setningu reglugerðar, þ.e. að t.d. íslenskir námsmenn geti fengið fæðingarorlof hér ef þeir hafa unnið til þess, miðað við reglur Tryggingastofnunar.

Þá vil ég spyrja ráðherrann hvort henni sé kunnugt um að ríkisstjórnin hafi spilað út einhverjum spilum í yfirstandandi kjarasamningum varðandi fæðingarorlofið eða hvort ekki hafi verið verið sóst eftir því eða hvort ekki hafi verið vilji til þess af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Ég vil aðeins í lokin ítreka það, herra forseti, að við erum langt á eftir nágrannalöndum okkar á Norðurlöndunum varðandi fæðingarorlofsrétt. Það er auðvitað ekki eina sviðið í velferðarkerfinu þar sem við erum á eftir en þetta er svo sláandi munur að ég get ekki ímyndað mér að það sé ætlun okkar, þessa tekjuháa samfélags, að hafa ástandið svona til frambúðar. Það er vísindalega þekkt staðreynd að það skiptir öllu máli upp á þroska barna síðar meir að vel sé búið að þeim á fyrsta æviárinu. Og af því við lifum í þjóðfélagi þar sem reglan er að báðir foreldrar vinna utan heimilis, þá er það alger nauðsyn að foreldrar fái gott næði til þess að vera með börnum sínum á fyrsta æviárinu. Það er til vansa og til mikillar skammar og blettur á okkar velferðarþjóðfélagi að mínu mati hvernig þessum málum er komið. Þess vegna vil ég spyrja aftur hvort ekki standi til einhverjar réttarbætur. Er það virkilega rétt að það eigi bara að jafna niður á við þannig að þær breytingar sem stóðu fyrir dyrum í viðkomandi nefnd hafi ekki mátt kosta neitt? Og ég spyr hvort ríkisstjórnin hafi reitt fram einhver spil í þessu sambandi í yfirstandandi kjarasamningum eða hvort leitað hafi verið eftir því.