Fæðingarorlof

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 11:27:00 (4804)

1997-03-21 11:27:00# 121. lþ. 96.7 fundur 453. mál: #A fæðingarorlof# (veikindi móður eða barns o.fl.) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[11:27]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil sérstaklega þakka síðasta ræðumanni, sem mjög vel þekkir til framkvæmda á fæðingarorolofi, fyrir að vekja athygli á þessari framkvæmd varðandi ferðareglurnar. Ég hafði satt að segja ekki áttað mig á því að framkvæmdin sé virkilega þannig að mæður sem búa úti á landi eða utan Reykjavíkur fái aðeins greidda eina ferð á viku þegar barnið þeirra býr við veikindi og er á vökudeild. Þetta er aldeilis með ólíkindum. Auðvitað sjá allir að mæður þurfa oft á dag að sinna sínu barni og það hlýtur að vera eðlilegt og sjálfsagt að hæstv. ráðherra, ef hún getur gert þetta með reglugerð eins og fram kom hjá hv. þm., vindi sér í þessari breytingar. Ég er alveg sannfærð um það og þekki það vel til að hún þarf varla að leita með slíkt smáræði til þess að fá blessun ríkisstjórnarinnar. Það er fyrst og fremst einföld ákvörðun hæstv. ráðherra að breyta þessari reglugerð. Við erum ekki að tala um stóran hóp. Það eru væntanlega aðallega fyrirburamæður sem mundu geta nýtt sér þennan rétt ef opnað yrði á hann. Við erum kannski að tala um 10--15, ef ég skil málið rétt, mæður á ári, kannski eitthvað fleiri. Ég geri ekki mikið með það þó þær væru 20 eða 30. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hún muni ekki breyta þessu eða hvort hún telji að það sé betra að hún fái stuðning þingsins þannig að þetta kæmi annaðhvort inn í lagatextann eða í nefndarálit frá heilbr.- og trn., að hún beini því til ráðherra að þessu verði breytt. Ég tel þetta mjög útlátalaust fyrir hæstv. ráðherra. Það mundi örugglega greiða fyrir og hjálpa framgangi þessa máls ef yfirlýsing frá ráðherra kæmi við þessa umræðu um að hún mundi umsvifalaust breyta þessu ákvæði reglugerðarinnar.