Fæðingarorlof

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 11:29:34 (4806)

1997-03-21 11:29:34# 121. lþ. 96.7 fundur 453. mál: #A fæðingarorlof# (veikindi móður eða barns o.fl.) frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[11:29]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Vegna andsvars hv. 13. þ. Reykv. vil ég geta þess að þetta er ekki einungis mikilvæg leiðrétting ef af verður fyrir fyrirburamæður eða fjölburamæður sem búa utan höfuðborgarsvæðisins heldur er þetta sjálfsögð leiðrétting fyrir foreldra yfirleitt sem eiga börn á sjúkrahúsum og þurfa að heimsækja þau reglulega. Það er áreiðanlega ekki álit manna að eðlilegt sé að foreldrar heimsæki veik börn sín á sjúkrahúsi aðeins aðeins einu sinni í viku. Yfirleitt reyna foreldrar að heimsækja börn sín á hverjum degi ef þau liggja á sjúkrahúsi. Og ég veit að það er vinna í gangi í Tryggingastofnun og jafnvel held ég, einnig í heilbrrn. --- hæstv. ráðherra mundi þá leiðrétta það ef ég fer með rangt mál --- þar sem á að taka á réttindum sjúkra barna og aðstandenda þeirra. Þar er þessi þáttur veigamikið atriði, þ.e. hvort greiddur er ferðakostnaður vegna heimsókna til barns oftar en einu sinni í viku. Það er augljóst mál þannig að ég vonast til að heyra það hér hjá hæstv. ráðherra að hann lýsi því yfir að hún muni bæta úr þessum ákvæðum í ferðareglum Tryggingastofnunar ríkisins.