Fæðingarorlof

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 11:47:39 (4814)

1997-03-21 11:47:39# 121. lþ. 96.7 fundur 453. mál: #A fæðingarorlof# (veikindi móður eða barns o.fl.) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[11:47]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Framsfl. er samfélag miðaldra karla þar sem konur eiga erfitt uppdráttar. Heimild mín fyrir þessu er engin önnur en hv. þm. Siv Friðleifsdóttir vegna þess að orð í þessa veru lét hún falla í aðdraganda á flokksþingi Framsfl. og hv. þm. á hrós skilið fyrir það að hún hefur aftur og aftur reynt að berja niður þetta miðaldra karlasamfélag sem hún er stöðugt að etja kappi við í Framsfl. með afskaplega litlum árangri.

Hún kom hérna áðan og sagði að það væri því miður svo að nú stæðu yfir kjarasamningar og enginn væri að tala um jöfn laun og enginn væri að tala um aukin réttindi til fæðingarorlofs í kjarasamningunum. Herra forseti. Einn af þeim miðaldra körlum --- hann reyndar er kominn yfir það --- sem hv. þm. dáir hvað mest í Framsfl. er Páll Pétursson hæstv. félmrh. Hann er yfir skrifstofu jafnréttismála og þar var nýlega gefið út rit þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Á Íslandi er fæðingarorlof styst og verst greitt af Norðurlöndunum og réttur feðra lakastur. Þetta mál er í miklum ólestri og er einn af hærri þröskuldum í vegi jafnrar stöðu kynjanna.``

Ég spyr í framhaldi af orðum hv. þm.: Er hún ekki sammála þessu? Og ef hún er það, er hún þá ekki reiðubúin til þess að lýsa því yfir að hún muni beita sér fyrir því að draga hæstv. heilbrrh. til að lýsa því yfir í þessari umræðu að hún muni leggja fram frv. um aukinn rétt feðra til fæðingarorlofs áður en Framsfl. verður hrakinn út úr ríkisstjórn við lok þessa kjörtímabils?