Fæðingarorlof

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 11:49:23 (4815)

1997-03-21 11:49:23# 121. lþ. 96.7 fundur 453. mál: #A fæðingarorlof# (veikindi móður eða barns o.fl.) frv., SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[11:49]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er a.m.k. rétt að konur eru mun færri í þingflokki framsóknarmanna en karlar. Það eru einungis þrjár konur þar en 12 karlar. (Gripið fram í.) Við hins vegar höfum þingflokksformann sem er kona og við höfum eina kvenráðherrann þannig að við gerum ýmislegt vel samt. Okkar konum er treyst í mikilvæg störf. (Gripið fram í.)

Varðandi það sem hv. þm. sagði um hæstv. félmrh., sem er einnig jafnréttisráðherra, þá er hægt að segja það hæstv. félmrh. og jafnréttisráðherra til hróss að hann hefur beitt sér talsvert einmitt í því að skoða launamun kynjanna. Hann hefur falið mér að leiða nefnd um starfsmat til þess að vera með tilraunaverkefni um starfsmat, í einu fyrirtæki á einkamarkaðnum, tveimur fyrirtækjum eða stofnunum hjá ríkinu og einni til tveimur stofnunum hjá Reykjavíkurborg. Það er afar flókið verkefni en það hefur gengið tiltölulega vel að vinna það og hæstv. ráðherra, Páll Pétursson, hefur ráðið verkefnisstjóra í það verkefni í fullt starf í félmrn. Reykjavíkurborg hefur lagt til hálfan starfsmann og skrifstofa jafnréttismála hefur lagt til hálfan starfsmann þannig að það má segja að hæstv. félmrh. hafi svo sannarlega reynt að gera sitt til þess að ýta á eftir launajafnrétti kynjanna.

Varðandi spurningu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar þá get ég ekki bætt neinu sérstöku við það svar sem hæstv. heilbrrh. af hér áðan.