Fæðingarorlof

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 11:53:42 (4817)

1997-03-21 11:53:42# 121. lþ. 96.7 fundur 453. mál: #A fæðingarorlof# (veikindi móður eða barns o.fl.) frv., SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[11:53]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá síðasta ræðumanni að ég hef reynt að láta til mín taka ákveðin mál í þinginu og þar á meðal jafnréttismál og heilbrigðismál og það er líka afar skiljanlegt þar sem þetta eru málaflokkar sem ég hef sérstakan áhuga á.

Varðandi hlut feðra í fæðingarorlofi þá er það auðvitað stefnan að þeir fái sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs. Það er mjög æskilegt og eðlilegt og sjálfsögð krafa þannig að að sjálfsögðu munum við skoða það. Og það er einmitt verið að vinna að þeim málum í nefnd. En ég get ekkert bætt meira við það svar sem hæstv. heilbrrh. gaf hérna áðan, þ.e. að það mál væri í vinnslu. Ég hins vegar lýsi mig mjög ánægða með það að þetta frv. sem við erum að fjalla um hérna er komið fram þó að þetta sérstaka atriði sé ekki þar inni, þ.e. sjálfstæður réttur feðra. Og það eru fleiri atriði sem vantar þarna inn, eins og að lengja almennt fæðingarorlofið. Það er ansi stutt að vera með sex mánaða fæðingarorlof. Foreldrar vilja lengri rétt.

Varðandi orð síðasta hv. ræðumanns um að ég væri farin að dorma í formannsstóli í starfsmatsnefndinni, þá er það alls ekki þannig. (Gripið fram í.) Við höldum fjölmarga fundi. Málið er hins vegar afar flókið og viðkvæmt. Í nefndinni sitja bæði aðilar frá vinnuveitendahliðinni og aðilar frá stéttarfélögunum. Starfsmat er gífurlega flókið fyrirbæri og erfitt í vinnslu þannig að ég er afskaplega ánægð með hvaða árangri við höfum þó náð hingað til, en þetta tilraunaverkefni mun ekki klárast fyrr en hugsanlega eftir 1--11/2 ár. Þetta tekur lengri tíma en maður hafði kannski gert sér grein fyrir í upphafi.